Fara í efni
Umræðan

Er innanlandsflugið rúið trausti?

Mikil röskun hefur verið á innanlandsfluginu í sumar og fram á haustið. Flug hafa verið felld niður með stuttum fyrirvara og of mikið um seinkanir. Óánægju íbúa á Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum hefur verið gerð skil í fjölmiðlum landsins og heitar umræður átt sér stað í hópnum Dýrt innanlandsflug á Facebook. Bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri hafa skoðað þetta mál síðustu vikuna og meðal annars sett sig í samband við fyrirtæki og stofnanir á Akureyri til að kanna víðtæk áhrif þessara raskana.

Það er nokkuð ljóst að áhrifanna gætir víða og þá sérstaklega hjá stofnunum og fyrirtækjum sem sinna heilbrigðisþjónustu hér í Eyjafirði og nærsvæðum. Sú röskun á starfi sem verður þegar sérfræðilæknar geta ekki reitt sig á flugsamgöngur var sérstaklega nefnd í þessu samhengi. Í samtölum okkar við forsvarsfólk fyrirtækja í einkageiranum kom einnig fram að minnkandi traust til innanlandsflugsins hefur í einhverjum tilvikum leitt til neikvæðra breytinga á starfsemi þeirra á Norðurlandi. Dæmi um slík raunveruleg áhrif er þegar fyrirtæki sjá sig tilneydd að fjölga frekar í starfsmannahópum fyrir sunnan eða þegar norðlensk fyrirtæki hika við að bjóða í verk fyrir sunnan. Auk þess nefndu fyrirtæki aukinn kostnað við launagreiðslur vegna seinkana á flugi.

Við óskuðum eftir tölum frá samskiptasviði Icelandair um seinkanir og niðurfellingu á flugi og fengum sendan samanburð frá fyrstu 6 mánuðum ársins í samanburði við sama tímabil 2019. Til Akureyrar voru 965 flug á tíma árið 2022, 410 með seinkun upp á 15 mínútur eða meira og 143 flug felld niður. Árið 2019 voru hins vegar 1481 á tíma, 119 með seinkum og aðeins 75 felld niður.

Því miður átti flugfélagið ekki tölur fyrir tvo síðustu mánuði. Ástandið lagaðist í ágúst en svo hefur aftur orðið röskun í byrjun september, samkvæmt upplýsingum starfsmanns samskiptasviðs og eins og bæjarbúar hafa vissulega fundið á eigin skinni. Það sem hins vegar birtist líklega ekki í þessum tölum er sú skerðing sem verður á þjónustunni þegar flugfélagið sendir minni vélar norður vegna bilana eða viðhalds og endurbókar þá hluta farþega á aðrar vélar.

Gríðarlega mikilvægt byggðamál fyrir landsbyggðirnar

Flug til Akureyrar er rekið á markaðslegum forsendum og ekki niðurgreitt af ríkinu nema til neytenda gegnum Loftbrú og sjúkratryggingar. Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1008/2008 er ríkinu aðeins heimilt að styrkja flugleið ef ekki er tryggt að annars konar flutningsmáti geti tryggt órofna þjónustu a.m.k. tvisvar á dag. Þessi þjónusta er þó vissulega ekki sveitarfélögunum og ríkinu óviðkomandi og er lífsspursmál fyrir landsbyggðirnar.

Ef við ætlum að byggja upp á Akureyri samfélag með fjölbreyttum atvinnutækifærum, halda uppi öflugri ferðaþjónustu, að hér geti fólk unnið störf án staðsetningar en geti jafnframt flogið suður vegna vinnu sinnar og að íbúar geti auðveldlega leitað sér þjónustu á höfuðborgarsvæðinu þá verða flugsamgöngur að vera í lagi og endurvekja þarf traust almennings til flugfélagsins.

Bæjarfulltrúar Framsóknar hafa óskað eftir því að þetta mál verði tekið upp á næsta bæjarstjórnarfundi og tekin umræða um hvernig okkar aðkoma að þessu máli gæti verið. Auðvitað koma tímar þar sem flugáætlun stenst að mestu en reksturinn er greinilega viðkvæmur og lítið má út af bera. Traust til flugfélagsins hefur því miður beðið hnekki sem veldur því að fólk veigrar sér við að nota þjónustuna eða pantar flug á tíma sem annars hefði ekki hentað til að komast örugglega á áfangastað á tíma.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir og Gunnar Már Gunnarsson eru bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Af kirkjutröppum og kammerráði

Gísli Sigurgeirsson skrifar
31. október 2024 | kl. 17:00

Flokkur fólksins er fyrir þig

Sigurjón Þórðarson skrifar
31. október 2024 | kl. 13:00

Mjög skiljanleg umræða um EES

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
28. október 2024 | kl. 18:30

Hvalveiðar og geirfuglinn

Aðalsteinn Árnason skrifar
28. október 2024 | kl. 10:00

Vinnuvikan stytt en álag á nemendur aukið

Karl Liljendal Hólmgeirsson skrifar
27. október 2024 | kl. 16:00

Kennarar kjósa frekar mannúð en úlfúð

Hlín Bolladóttir skrifar
24. október 2024 | kl. 20:45