Fara í efni
Umræðan

Auka nýtingu borholu SE-01 á Svalbarðseyri

Frá framkvæmdum við borholu SE-01 á Svalbarðseyri. Mynd: Norðurorka.

Vegna aukinnar notkunar á heitu vatni á Svalbarðseyri hefur reynst nauðsynlegt að auka aftur nýtingu á borholu SE-01 á Svalbarðseyri, en holan hefur undanfarna tæpa tvo áratugi aðeins þjónað bænum Svalbarði. Áður var hún notuð fyrir hitaveitu Svalbarðseyrar, allt til ársins 2003 þegar lögð var stofnlögn frá Brunná að Svalbarðseyri. Vatn frá Laugalandi hefur því þjónað Svalbarðsstrandarhreppi síðan þá. Frá þessu er sagt í frétt á vef Norðurorku.

Unnið var að framkvæmdum við borholuna í haust, en hún er 928 metra djúp og upp úr henni kom sjálfrennandi vatn, um 4,6 sekúndulítrar af 55 gráðu heitu vatni. 

Framkvæmdir við holuna eru útskýrðar í frétt Norðurorku, en þar segir meðal annars:

Vitað var að stálfóðringin í holunni væri bæði mjög grunn (12 metra djúp) og að vatn leitaði upp í borplanið við hlið hennar. Norðurorka fékk því ÍSOR í ráðleggingar varðandi viðgerð holunnar og var ákveðið að fóðra holuna í 200 m dýpi með 10 3/4“ fóðringu sem yrði steypt föst.

Samið var við Finn ehf. um að leggja til bor á holuna og með þeim í verkinu yrði Jón Árni frá Borlausnum sem ráðgjafi en Jón Árni hefur mikla reynslu í borunum og viðgerðum á borholum. Fyrst þurfti að rýma holuna sem var boruð með 8 ½“ í 12 ¼“ með rýmingarkrónu til að fá nægjanlegt pláss fyrir nýja fóðringu og steypu. Þegar búið var að rýma holuna þurfti að stoppa sjálfrennsli úr holunni til þess að hægt yrði að steypa fóðringu, en setja þurfti tappa í hana fyrir neðan áætlað fóðringardýpi. Illa gekk að stoppa sjálfrennslið en það tókst að lokum en steyputappinn endaði nokkuð ofar í holunni en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Eftir að búið var að stífla holuna var hún fóðruð með 10 3/4“ stálrörum niður á 175 m dýpi og fóðringin síðan steypt föst. Eftir það var steyputappinn sem holan var stífluð með boraður í burtu og byrjaði þá strax að renna vatn aftur úr holunni.

Enn frekari nýtingarmöguleikar í framtíðinni

Fljótlega eftir að vinnu við holuna lauk var hún tengd aftur við veituna og nýtt til að blanda við vatn frá Brunná, ásamt því að þjóna Svalbarði. Ljóst er að eftir þessar aðgerðir skilar holan meira vatni í sjálfrennsli en hún gerði áður en ekki liggur fyrir hver endanlegur árangur verður.

Áætlanir gera ráð fyrir að sett verði djúpdæla í holuna fyrir haustið 2025 þannig að hægt verði að nýta hana enn frekar, sem ekki var mögulegt áður en holan var fóðruð niður í 175 metra. Þessar aðgerðir munu létta á stofnlögninni á Svalbarðsströnd en mikil uppbygging í Vaðlaheiði og Svalbarðsströnd hefur valdið því að vart hefur orðið við þrýstingsvandamál þegar sem kaldast er.

Án öflugs atvinnulífs megum við okkur lítils

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
04. febrúar 2025 | kl. 11:50

Hvað þarf Sjálfstæðisflokkurinn?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
02. febrúar 2025 | kl. 11:15

Höfuðborgin Reykjavík og aðgengi landsbyggðarbúa

Franz Árnason skrifar
25. janúar 2025 | kl. 06:00

Sjá, þannig skal vandað til þess, sem á lengi að standa

Hlín Bolladóttir skrifar
24. janúar 2025 | kl. 17:30

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifa
21. janúar 2025 | kl. 14:45

Ferðaþjónustufólk kemur saman

Arnheiður Jóhannsdóttir skrifar
15. janúar 2025 | kl. 11:15