Fara í efni
Pistlar

Útréttingar manns á sjötugsaldri

Ýmislegt gerist þegar árin færast yfir og maður fikrar sig varfærnislega inn á sjötugsaldurinn. Á þeim tíma hætta sælkerar eins og ég til dæmis gjarnan að vaxa í starfi – nema miðað sé við mittismálið.

Svo fer minnið að svíkja fólk á mínu reki og fyrir kemur að það stingur þau í bakið sem ekki ugga að sér. Þegar ég þurfti að skreppa í búðir í byrjun nýs árs ákvað ég að athuga stöðuna á minnisgáfu minni með því að skrifa ekki niður innkaupalistann heldur reyna að muna hann. Í apótekinu átti ég að kaupa þrennskonar lyf og tannlím en í kjörbúðinni mjólkurfernu, þrjá banana, blómkálshaus og hálft kíló af hakki. Eftir þessar minnisæfingar skyldi leið mín síðan liggja í ræktina til að þjálfa kroppinn.

Tómur innkaupapoki í aftursætinu við hlið útroðinnar blárrar íþróttatösku sýndi þessa áætlun hins æskuglaða karls.

För mín gekk eins og í sögu. Í lyfjabúðinni þuldi ég upp latnesk nöfn aðskiljanlegra meðala við hinum ýmsu kvillum. Tannlímsheitið lék mér á gómum.

Bísperrtur yfirgaf ég lyfjabúðina og skömmu síðar arkaði ég inn í stórmarkaðinn. Þar tíndi ég ákveðinn matvæli úr hillum og kæli. Allt rataði í körfuna sem ég hafði fest mér í minni og ekkert annað. Umsvifalaust mundi ég pinnúmerið við sjálfsafgreiðslukassann og engir óvæntir hlutir rötuðu á pokasvæðið. Fullur sjálfstrausts gekk ég út úr kjörbúðinni, settist inn í minn tvinnbíl og ók beinustu leið í ræktina án aðstoðar leiðsögukerfis.

Örugglega bakkaði ég bifreiðinni inn í þröngt stæði á milli tveggja breyttra fjallajeppa á bílastæðinu, greip íþróttatöskuna úr aftursætinu og skokkaði inn í ræktina. Svo einbeittur var ég þegar ég horfðist í augu við róbótinn í hliðinu að hann opnaði mér leið inn í dýrðina áður en mér gafst færi á að rjúfa augnsamband okkar. Í dyrum búningsklefans mætti mér sami gamli þefurinn. Ég lét hann ekki á mig fá heldur afklæddi mig fumlaust fyrir framan lausan skáp. Þrunginn þrá í átök og aflraunir teygði ég mig í töskuna til að sækja íþróttaföt á stæltan líkamann.

Það var á því augnabliki sem aldurinn minnti óþyrmilega á sig.

Í pokanum blöstu við mér þrjú lyfjaglös, tannlímstúpa, mjólkurferna, þrír bananar, blómkálshaus og hálft kíló af ungnautahakki.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur 

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30