Fara í efni
Pistlar

Ég minnist þess ekki að hafa lifað lengur

Þann 7. nóvember hefði Þorvaldur Þorsteinsson orðið sextugur. Að því tilefni er sýning á verkum hans í Listasafninu á Akureyri. Það á vel við því enda þótt Þorvaldur hafi fallið frá rétt rúmlega fimmtugur hlýtur hann að teljast einhver öflugasti og fjölhæfasti listamaður Akureyrar og jafnvel landsins alls, og eftir hann liggja óteljandi verk af ólíku tagi, teikningar, grafík, vatnslitamyndir, olíumálverk, skúlptúrar, ljósmyndir og margvísleg önnur myndlistaverk, teiknimyndasögur, barnasögur, skáldsögur, leikþættir, leikrit, myndbönd, ljóð og söngtextar, og lög við suma þeirra.

Sýningin í Listasafninu sýnir ekki nema brot af því sem hér hefur verið nefnt. Þetta er því ekki yfirlitssýning á fjölbreyttum listferli Þorvaldar heldur að stórum hluta verk frá síðustu árum hans, sem sum eru sýnd hér á landi í fyrsta sinn. Það er gott sem slíkt. Hér er teiknarinn, málarinn og grafíkerinn hins vegar ekki á vaktinni, og ég verð að segja að ég saknaði þess mjög. Að vísu hafa á safninu áður verið sýnd þannig verk eftir Þorvald, en það á líka við um hið afar smellna verk Söngskemmtun og skólaspjöldin, sem reyndar eru hluti af fastri sýningu úr safneign Listasafnsins og hafa verið uppi frá því það var opnað á ný.

Verk Þorvaldar Þorsteinssonar, Söngskemmtun, er afar smellið. Á skilti segir að ekki sé tekin ábyrgð á yfirhöfnum!

Þorvaldur hafði einstakt lag á því, eftir því sem leið á ævi hans, að teygja og toga mörk listanna sitt á hvað og etja því öllu saman, eins og greinilegast var í leikverkinu And Björk of course, og þetta kemur einnig fram í því þegar hann vann ofan í aðrar myndir, gerði skúlptúra úr leðurjökkum og klippti og límdi til að fá meira út úr mynd en verið hafði. Hann hafði er á leið gaman af stórum verkum og myndasyrpum, eins og myndröðinni af slökkviliðsmanninum, en á sýningu á Listasafninu fyrir nokkrum árum sýndi hann ljósmyndir af Akureyringum við hversdagslegar athafnir. Úti hljómar af og til hljóðverkið, þar sem fólki er þakkað framlag þess til listanna, sem átti sér hliðstæðu á sýningu í Helsinki þar sem lesið var upp úr símaskrá borgarinnar.

Þrjú verka Þorvaldar Þorsteinssonar á sýningunni í Listasafninu á Akureyri.

Í efsta sal safnsins eru nokkur myndbandsverk, en hann vann þau að hluta með konu sinni, Helenu Jónsdóttur. Þar er líka samklippa af löngum viðtölum sem Örn Ingi tók við Þorvald, en þar voru svör hans oftlega álíka skondin og spurningar Arnar Inga, eins og tilsvarið sem er titill þessarar greinar. Þar er líka síðasti fyrirlestur Þorvaldar á þingi Bandalags íslenskra listamanna, sem hann flutti fáeinum dögum fyrir andlát sitt.

Eins og stundum þegar settar eru upp yfirlitssýningar saknar maður þess sem vantar til að gefa rétta mynd af listamanninum. Þeim sem ekki þekkja til annarra verka hans kann að þykja æviverk hans talsvert snauðara er það í veruleikanum er. Þess vegna var sú hugsun efst í kollinum á mér, þegar ég hélt heim á opnunardaginn, að nú þyrfti að setja upp sýningu á verkum Þorvaldar. En þessi sýning er góð svo langt sem hún nær. Einkennandi fyrir Þorvald, sem fór óútreiknanlegar leiðir. Og það hefði líka verið yndi líkast ef hægt hefði verið á fá hingað norður sýninguna Engilinn, sem sett var á svið í Þjóðleikhúsinu í fyrra. Þar fann maður fyrir Þorvaldi í öllu sem sagt var og sýnt.

Sverrir Páll

Þorvaldur Þorsteinsson í aðdraganda frumsýningar leikrits hans, Lífið - notkunarreglur árið 2007. Þorvaldur lést 2013. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

Takk elsku kennari!

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
08. nóvember 2024 | kl. 13:15

Meðhjálparinn

Svavar Alfreð Jónsson skrifar
07. nóvember 2024 | kl. 10:30

Alaskasýprus og hringlið með nöfnin

Sigurður Arnarson skrifar
06. nóvember 2024 | kl. 12:45

Kótilettur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
04. nóvember 2024 | kl. 11:30

Beggja skauta byr

Jóhann Árelíuz skrifar
03. nóvember 2024 | kl. 11:11

Nenni ekki þessu kennaravæli

Stefán Þór Sæmundsson skrifar
01. nóvember 2024 | kl. 14:00