Fara í efni
Pistlar

Að varðveita menningarefni

Í fréttum nú á dögunum kom fram að Ríkisútvarpið er að senda 12.000 segulbandsspólur til Belgíu til að láta færa þær yfir á stafrænt form til öruggari varðveislu en talið er að böndin ein dugi. Fréttinni fylgdi að í safni Ríkisútvarpsins væru a.m.k. 70.000 segulbönd og það samsvaraði um það bil jafnmörgum klukkutímum af efni.

Ríkisútvarpið varðveitir efni og í lögum þess frá 2013 segir m.a. í II. kafla, 6. grein: Ríkisútvarpið skal varðveita hljóðritanir, filmur, myndefni og aðrar sögulegar minjar sem ætla má að hafi menningarlegt og sögulegt gildi fyrir íslensku þjóðina og heyra ekki sérstaklega undir lög um skylduskil til safna [...] Heimilt er að fela viðurkenndum söfnum varðveislu framangreindra menningar- og söguminja en óheimilt er að selja þær, gefa eða farga nema að fenginni umsögn safnaráðs samkvæmt safnalögum.Eitthvað mun að vísu hafa farið forgörðum af sjónvarpsefni og ef til vill líka útvarpsefni þegar spólur og bönd voru endurnýtt áður en allt varð stafrænt. Ekki veit ég til þess að öðrum útvarpsstöðvum sé gert skylt að varðveita efni, jafnvel þótt það geti talist ekki síður menningarlega merkilegt en það sem birtist hjá Ríkisútvarpinu. Vísast er þó talsvert varðveitt af efni þar án þess að það sé kerfisbundið.

Í þessari lagagrein er nefnt það sem hefur menningarlegt gildi og fellur ekki undir skylduskil. Í því sambandi er rétt að rifja upp að prentskil eru mjög ströng, allt sem prentað er, hversu merkilegt eða ómerkilegt sem það kann að teljast, á að varðveita hjá Landsbókasafni og Amtsbókasafninu á Akureyri. Þannig á að vera hægt að fletta upp og kanna hvaðeina sem til er og hefur einhvern tíma komið á prent. En spurning er hvort sama ætti ekki að gilda um efni sem varðveitt er með öðru móti en prentsvertu á pappír. Ætti ekki líka að varðveita upptökur af útvarps- og sjónvarpsefni á einhverjum tilteknum stað eða miðli? Varla er hægt að segja í alvöru að prentað efni sé merkilegra eða hafi meira menningarlegt gildi en talað mál eða myndmál útvarpa og sjónvarpa.

Eins og segir í útvarpslögunum er Ríkisútvarpinu gert að skyldu að varðveita efni og í fréttinni, sem ég nefndi í upphafi, felst að verið er að leggja í kostnað og fyrirhöfn til að tryggja varðveislu þess. Eðlilegt mætti telja að öðrum útvarps- og sjónvarpsstöðvum væri sett einhver varðveisluskylda. Það væri ekki síst nauðsynlegt í þeim tilfellum þar sem miðlar af þessu tagi eru ekki eilífir. Hvað verður um efni útvarpa og sjónvarpa sem af einhverjum sökum hætta störfum?

Þess er skemmst að minnast að tvær sjónvarpsstöðvar hérlendis hafa nýverið lagt upp laupana, hætt útsendingum fyrirvaralítið. Hér á ég við N4, sem gerði út frá Akureyri, og Hringbraut í Reykjavík. Í safni þessara stöðvar er margvíslegt efni sem hefur bæði menningar- og fræðslugildi. Starfsemin var lögð niður af einhverjum sökum og fyrirtækin blásin af, en hvað verður um efnið? Ég held að á þessum tveimur stöðvum, svo ekki séu fleiri taldar, sé/hafi verið til gríðarlega mikið merkilegt efni sem synd er að glatist. Þarna eru landshlutabundnar þáttaraðir með myndefni og viðtölum við fjölda fólks sem hefur frá merku að segja, fræðslu- og náttúrulífsþættir og námskeið, tónleikar og upptökur frá margvíslegum hátíðum og uppákomum. Þannig mætti lengi telja. Hvað verður um þetta? Verður þetta varðveitt? Hver gerir það? Er þetta þá aðgengilegt þeim sem vilja fá að gægjast aftur í tímann? Og þannig má lengi spyrja.

Svo eru það nýrri miðlarnir, svokallaðir samfélagsmiðlar, eins og þessi, akureyri.net. Er tryggt að menningar- og fræðsluefni sem birtist á þessum vefmiðlum fyrir vestan, norðan, austan og sunnan varðveitist? Er það ekki jafnmerkilegt og það sem Ríkisútvarpinu er gert skylt að varðveita? Eða glatast það ef vefurinn leggst af og verður eytt?

Þetta er mikilvægt því í erli nútímans er svo hætt við að margt sem skiptir máli falli í tímans gleymskubrunn. Og þess vegna er nauðsynlegt að settar séu einhverjar einfaldar og aðgengilegar reglur um þetta allt saman. Rétt sé að varðveita fræðslu- og menningarefni hvort sem það er gert af ríkisreknum miðlum eða öðrum. Þetta verði svo varðveitt einhvers staðar í öryggi, rétt eins og allt sem prentað er á pappír.

Við eigum að vernda menninguna og málið og það gerum við með því að geyma vandlega það sem sagt hefur verið, ritað og myndað. Um þetta þarf að setja lög og reglur. Það má ekki bíða til endaloka veraldar.

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00