Fara í efni
Pistlar

Þegar lífinu lýkur

Einhvern tíma var sagt að það eina sem væri öruggt og óhjákvæmilegt í lífinu væri að maður myndi á endanum deyja. Skáld hafa ort um dauðann og rithöfundar skrifað um hann sögur, án þess að hafa reynslu af honum sjálfir. Einhverjir segjast hafa vitneskju sína um dauðann af sambandi við framliðna, það er víst svo, en aðrir hafa staðið við dauðans dyr og komist til baka, og það er annað mál. Kannski hafa fáir lýst ferlinu að deyja betur en ónefndur höfundur Sólarljóða, sem eru sérkennilegt kristilegt fornkvæði, varðveitt í þeim mikla flokki heiðins kveðskapar sem er hvergi betur geymdur en í handritum að því sem við köllum venjulega Eddukvæði og eru að öðru leyti úr heiðnum sið, norrænn goðfræðilegur kveðskapur sem Íslendingar hafa skrifað á skinn.

Í kaflanum Líf og dauði í Sólarljóðum segir skáldið frá lífsþorsta sínum í fögrum heimi, en ólukkan hafi komið og bundið hann dauðans reipum og Heljar meyjar hafi fyllt hann sorg og sút. Síðan lýsir hann því hvernig hann sá sólina annars vegar og hlið Heljar á hina höndina. Þá tekur sólin að síga, geislar hennar eru blóðlitaðir, honum finnst hann sjái göfugan guð. Sólargeislarnir glöddu um leið og blóð litaði hrikalegt hafið framundan. Hann sér því næst sólina tindra við hafsbrún og við þar fyllist hann sorg og kvíða, enda kvalinn á hjarta og mjög úr heimi hallur, eins og hann segir, og tekinn að stirðna. Síðan sá hann sólina ekki meir, vötnin luktust yfir honum og kvalirnar hurfu. Sálin flaug frjáls úr brjósti hans og hann var fæddur til annars lífs. Lífið var sólin og dauðinn sólarlagið, en annað líf beið handan þess.

Við getum auðvitað leyft okkur að velta fyrir okkur hvernig skáldið hefur getað upplifað þetta allt og sett það á blað/skinn sem við höfum síðan varðveitt um aldir. En Sólarljóð eru afskaplega fallegur kveðskapur, mun fegurri en þessi stutta endursögn um dauðann.

En við deyjum og hvað svo? Við vitum ekki með vissu annað en að þá taki við þetta sem við þekkjum, útför og greftrun, athafnir sem geta verið mismunandi eftir því hvort og þá hvaða menningarhópi eða trúfélagi við tilheyrum. Sumir telja að dauðinn sé einungis dyr að öðru og betra lífi og fólk endurfæðist þessa heims eða annars. Um það get ég ekki sagt, en ég er með hugann við hinn veraldlega þátt, hvað gerist þegar einstaklingur deyr. Mér er til dæmis sagt að það sé dýrt að deyja og vinur minn sagði að það væri ekki á færi annarra en þeirra sem ættu digra sjóði. Svo mörg voru þau orð.

Kirkjugarðar eru í hverju byggðarlagi og grafreitir víða í sveitum. Í útvarpsviðtali við Þórstein Ragnarsson forstöðumann Kirkjugarða Reykjavíkur kom fram að garðar borgarinnar eru óðum að fyllast. Það er ekki ólíkt þvi sem gerist í öðrum byggðarlögum. Það hillir undir að kirkjugarður Akureyrar verði fullnýttur á næstu fáum árum og hugmyndir eru uppi um nýjan greftrunarstað, nýi kirkjugarðurinn í botni Siglufjarðar er sömuleiðis að verða fullnýttur og þarf að auka við hann landi. Svona er þetta víða í þéttbýlinu. En í viðtalinu við Þórstein Ragnarsson kom jafnframt fram að hefðbundin gröf í kirkjugarði tæki 6 sinnum meira rými en í duftgarði. Með bálförum sparaðist því mikið land í kirkjugörðum. Það er auðvitað atriði út af fyrir sig.

Þórsteinn sagði bálförum fjölgaði með hverju ári sem liði, þær hefðu til dæmis vaxið um 30% á síðustu 5 árum og ekki fyrirsjáanlegt annað en að sú þróun héldi áfram. Hins vegar væru takmarkanir á bálförum og einhverjar tafir þar af leiðandi. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur leyfði bálfarir frá klukkan 9 á morgnana til klukkan 15. Engar skýringar væru á þessum takmörkunum, og vonir stæðu til að þessi tímarammi yrði rýmkaður. Hins vegar væri einungis ein bálstofa á landinu og fyrirsjáanlegt að hún annaði ekki áætluðum bálförum næstu ára. Hugmyndir væru um að kaupa nýja bálstofu í stað þessarar gömlu, fullkomnari og betur virka, en til þess hefði ekki fundist fé. Þetta væri mjög dýrt dæmi.

Í ljósi þess hver bálförum hefur fjölgað og sífellt fleiri velja þess háttar útför má velta fyrir sér hvort ekki sé nauðsynlegt að hafa fleiri en eina bálstofu á landinu. Væru þær fleiri myndu trúlega fleiri velja þann kost. Þess munu dæmi að fólk velji frekar hefðbundna jarðarför og greftrun í kistu, vegna þess viðbótarkostnaðar sem fylgir því fyrir þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins að senda kistu suður til brennslu. Þess vegna mætti velta fyrir sér hvort ekki væri æskilegt að bálfarir gætu einnig farið fram annars staðar en í Reykjavík. Önnur blástofa væri úti á landi, til dæmis á Akureyri. Með tveim bálstofum yrði álagið jafnara og fleirum gæfist kostur á að velja bálför í stað hefðbundinnar jarðarfarar.

Nú er alls ekki víst að allir séu þessu sammála, en þetta er þó kostur sem skoða mætti vandlega. Og ég enda þennan pistil á orðum Halldórs Laxness, sem segir á einum stað: „Þegar öllu er á botninn hvolft, þá fer allt einhvernveginn, þótt margur efist um það á tímabili.“

Sverrir Páll Erlendsson kenndi íslensku við Menntaskólann á Akureyri frá 1974 til 2018.

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00