Fara í efni
Pistlar

Persónur og leikendur

Fræðsla til forvarna - XXXI

Það er áhugavert að velta fyrir sér hve mikilvægt afl persónuleikinn er í heiminum. Hvernig við erum gerð og hvaða þættir eru mest áberandi í persónugerðinni hefur mjög mikil áhrif á það hvernig við skilum hlutverkum okkar í lífinu, hvort sem hlutverkið er í hjónabandinu, við störfin eða við stjórnun. Já líka ef við sækjumst eftir að vera í æðstu embættum. Og jafnvel svo að persónuleikinn, framkoman og stíllinn í samskiptum ráði meiru en málefnin.

Vísindarannsóknir sýna að við fæðumst með ákveðna samsetningu af eiginleikum, hegðunarmynstri og varnarháttum sem fylgja okkur alla ævi en eru þó mótanlegir bæði til góðs og ills, á heimilinu, í skólanum, í nánu samböndunum og með hollustu í líferni.

Stundum áttar fólk sig líka á því að það sem það sjálft taldi kost í fari sínu virðist vera til trafala og öfugt. Það sem hefur valdið áhyggjum og vandamálum getur líka reynst styrkur. Margir átta sig ekki á þessu fyrr en þeir hafa öðlast mikla lífsreynslu og eru farnir að eldast. Dæmi um þetta er þegar maður skilur að of mikil samviskusemi getur verið skaðleg. Eða þegar sterk löngun til að gera vel, jafnvel svo sterk að maður vill bjarga öllum heiminum, er alls ekki alltaf gagnleg. Bestu persónuþættirnir stuðla að gæðasamskiptum þar sem ríkir gagnkvæm virðing, samkennd, hvatning og raunhæfni.

Geðlæknar og sálfræðingar búa yfir þekkingu til að greina það sem nefna mætti afbrigðileg persónuleikagerð eða Persónuleikaröskun (Personality Disorder). Í grófum dráttum má segja að ef að einhver mælist á því stigi þá hafa nokkrir eða margir þættir í persónugerð hans svo mikil neikvæð áhrif að það hefur skemmandi áhrif á hamingju og heilsu viðkomandi eða þeirra sem umgangast hann. Þeir sem hafa sjúklega afbrigðilega persónugerð eru í miklum vanda því líf þeirra er erfitt, þeir klúðra sífellt hlutum, eiga í vandræðum með samskipti, kunna ekki á mörk og skortir eiginleika til að skilja tilfinningar annarra. Þeir hafa líka oft skerta innsýn í hvernig þeir eru víraðir og hvernig þeir virka á aðra og kenna því öðrum um það sem miður fer og fara í fórnarlambshlutverkið. Það verður líka að segjast að þá sjaldan sem þeir leita sér aðstoðar þá getur verið erfitt og tímafrekt að veita þeim áhrifaríka aðstoð. Það eru samt til aðferðir til þess, en þessi vinna er eiginlega aðeins fyrir sérstaklega þrautseiga meðferðaraðila. En stundum, oft eftir langan meðferðatíma, birtir til og breytingar koma í ljós.

Í nýjustu útgáfu sjúkdómsgreiningarkerfisins er sú nýjung að hægt sé að setja greiningu um að vera á rófinu hvað þetta varðar. Að einstaklingurinn sé með þætti í persónugerð sinni sem líkist sjúklegri persónugerð en ekki svo sterka eða alvarlega að það uppfylli greininguna. Þetta er mjög gagnlegt því þá getur maður í meðferð og ráðgjöf öðlast betra innsæi, lært að stjórna sér eða vera besta útgáfan af sjálfum sér og náð betri árangri. Þannig verður til dýrmæt forvarnahugsun. Svo dæmi sé tekið: Ungur einstaklingur með litla menntun og stuðning sem fer í neyslu. Ef hann er á rófinu með neikvæða persónuþætti er nokkuð öruggt að hann þróar með sér truflandi persónugerð og honum mun að öllum líkindum farnast illa í lífinu. Aftur á móti er nokkuð víst að sá sem fær stuðning og menntun, skilning og hvatningu, lærir að nota þá persónuþætti, sem þó gætu talist á rófinu, til góðs. Þessir máttugu áhrifaþættir til forvarna, bættrar heilsu og hamingju eru í okkar eigin höndum, hvort sem við erum í hlutverkinu að mennta okkur, vanda okkur í starfi eða í foreldrahlutverkinu og sem fyrirmyndir.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00