Fara í efni
Pistlar

Mygla

Fræðsla til forvarna - X

Mygla í húsum er þekktur áhættuþáttur sem getur haft mikil áhrif á líðan og heilsu. Oftast eru orsakir vatnsskemmdir eða ónóg loftræsting og geta komið fyrir í gömlum húsum sem og nýjum.

Áhrif á heilsu geta verið eftir fjórum leiðum:

  • 1) Sem ofnæmisviðbrögð við ryki og óæskilegum efnum. Ef dvalið er lengi í sýkta húsinu ræsir það stöðugt sterkari ofnæmisviðbrögð sem að lokum verða viðvarandi.
  • 2) Sveppasýkingar í húð og loftvegum.
  • 3) Eitranir, þegar eiturefni, m.a. frá myglu og sveppagróum komast inn í líkamann og blóðrásina og heilann.
  • 4) Truflun á ónæmis- og varnarkerfum líkamans ekki ósvipað og við sjálfsofnæmissjúkdóma.

Áhrif á heilsu geta verið mismunandi og stundum mjög alvarleg. Helstu einkenni eru frá hálsi og lungum með hósta, ræskingum og hæsi. Oft eru einkenni frá augum. Sumum líður eins og þeir séu að fá flensu og verkir frá höfði og liðum eru algengir. Eitt algengasta einkennið er þó þreyta sem er bæði andleg og líkamleg. Margir nota orðið heilaþoka til að lýsa líðan sinni og það vísar ekki bara til þreytunnar heldur og einbeitingartruflana og þeirrar tilfinningu að heilinn virki ekki rétt. Því má segja að áhrif á geðheilsu geti einnig verið mjög mikil og til viðbótar með framtaksleysi, depurð, kvíða og svefntruflunum.

Á alvarlegum stigum er vanlíðanin svo mikil að truflun verður á náms- og starfsgetu.

Einkennin eru líka einstaklingsbundin og geta líkst einkennum frá öðrum sjúkdómum. Þetta hefur haft þau áhrif að talsvert langan tíma þurfti til að sannfærast um að húsasótt, eins og þetta var nefnt áður, gæti raunverulega valdið heilsutapi. Og þó að rannsóknir hafir aukið þekkingu á þessu sviði mjög á undanförnum árum þá eru nafngiftir enn ekki nægilega vel skilgreindar. Hér kemur því næst stutt umfjöllun um hugtök og nöfn á sjúkdómum sem hafa mjög lík einkenni en orsakast ekki af myglu:

  • ME (Myalgic Encephalomyelitis) er skilgreint sem taugasjúkdómur þar sem af óljósum ástæðum er talin verða bólgubreytingar í heila sem valda örmögnun og heilaþoku.
  • CFS (Chronic Fatigue syndrome) er skilgreint sem taugasjúkdómur af óþekktum orsökum með langvinnri óeðlilegri þreytu og úthaldsleysi og fleiri truflandi einkennum og er oft nefnt síþreyta á Íslensku.
  • ED (Exhaustion Disorders) er flokkað sem geðsjúkdómur með óeðilegri þreytu, einbeitingartruflunum og minnistruflunum í kjölfar álags og mætti kalla alvarlega kulnun (Burn-out) eða sjúklega streitu

Sameiginleg einkenni allra þessarra fyrirbæra eru fjölmörg sem gerir erfitt að aðgreina þau og birtingarmyndin getur verið mjög lík með blöndu af almennum andlegum og líkamlegum einkennum s.s. örmögnun, úthaldsleysi, svima, verkjum og flensulíkum óþægindum ásamt einkennum frá nánast öllum líffærum. Til að flækja málin enn frekar eru þessi einkenni einnig lík því sem stundum sjást eftir alvarlegar sýkingar og eru þá margir lengi að ná sér. Þetta á einmitt við um sýkingar af völdum Covid. Þetta gerir að greining veikinda vegna myglu er stundum býsna flókin.

Greining fer fram, eins og alltaf í læknisfræðinni, með söguskoðun þar sem reynt er að leiða líkum að tengslum einkenna við orsaka- og áhættuþáttinn. Læknisskoðun þarf að fara fram og framundan er að mögulegt verði að mæla amk sum af eiturefnunum í blóðsýnum.

Meðferð felst fyrst og fremst í að taka fólk úr aðstæðunum þar sem myglan er og svo forvörninni að fjarlægja mygluna eða koma í veg fyrir að hún myndist sem er auðvitað almikilvægast.

Þeir sem veikjast mest eru því miður oft lengi að ná sér og verða ofurviðkvæmir fyrir myglu hvar sem þeir koma nálægt henni og þróa jafnvel með sér ofurnæmi fyrir áreiti af ýmis konar efnum sem algeng eru í umhverfinu, heima eða á vinnustaðnum. Mikilvægt er að þeir fái stuðning og einnig skilning. Oftast næst árangur með tímanum.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir og ráðgjafi í sálfélagslegri vinnuvernd.

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00