Fara í efni
Pistlar

Listnám í Barnaskóla Akureyrar

Saga úr Innbænum - VIII

Það fylgdi því alveg sérstök spenna og eftirvænting að koma upp á efstu hæðina í reisulegu húsi Barnaskóla Akureyrar. Þessi eftirvænting og jákvæði taugatitringur entist mér eiginlega öll barnaskólaárin. Þarna uppi var einhver önnur stemming og andi listagyðjunnar ríkti. Ætli ég noti ekki bara orðið hátíðleiki yfir þessa tilfinningu. Þarna var kenndur söngur og myndlist. Kennslustofurnar voru öðru vísi en á hinum hæðunum því þær voru undir hárri súð og gangurinn styttri.

Aðalsteinn Vestmann kenndi okkur að teikna og mála. Hann var stór og þrekvaxinn maður en ljúfur við okkur og menningarlegur. Hann byrjaði tímana á að lesa sögu og við áttum svo að túlka hana með því að teikna eða mála mynd. Oftast máttum við líka teikna aðra mynd að eigin vali og smekk. Óli Baddi vinnur minn, sem var með ólæknandi bíladellu, teiknaði alltaf bíla í frjálsa tímanum og Aðalsteini fannst það nokkuð einhæft myndefni. En það fór sérstaklega í fínar taugar kennarans þegar Óli teiknaði Mjallhvít í sportbíl eða Ingólf Arnarson tígulegan með atgeirinn á vörubílspalli. Ég man líka eftir atviki þegar Aðalsteinn hafði skoðað mynd eftir mig og sagði svo kurteislega við mig eitthvað á þessa leið: Viltu laga þessa mynd. Ég held þú gætir gert betur. Það var svo mikil hvatning fólgin í því að kennarinn hefði trú á hæfileikum mínum.

Söngleikur settur upp í Barnaskóla Akureyrar. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri.

Fyrir enda gangsins opnuðust háar dyr að stóra salnum þar sem tónlistarkennslan fór fram. Þar var hátt til lofts og vítt till veggja. Á suðurhlið salarins voru háir gluggar sem veittu birtu inn í salinn og á norðurveggnum voru gamlar myndir af virðulegum kennurum og ströngum skeggjuðum skólastjórum í svart hvítu. Þarna voru líka spennandi hljóðfæri af ýmsum gerðum. Mest áberandi var þó stóri svarti flygillinn sem stóð uppi á upphækkuðum palli. Tónlistarkennarinn Birgir Helgason var alltaf klæddur á vandaðan og virðulegan hátt í dökk jakkaföt, hvíta skyrtu og með bindi. Hann var einstaklega kurteis við okkur krakkana og ávarpaði okkur dálítið eins og fullorðið fólk. Svo gekk hann alvörugefinn og einbeittur að hljóðfærinu og settist. Svo leit hann yfir salinn á okkur nemendur og byrjaði að leika á hljóðfærið. Þegar hann hóf að syngja birti yfir andliti hans og svo salnum öllum. Tónlistin streymdi fram. Hvert fegurra lagið á eftir öðru: Vorvindar glaðir glettnir..., Mér um hug og hjarta nú..., Nú er vetur úr bæ... og mörg fleiri yndisleg lög sem ég uppgötvaði löngu síðar að voru mörg hver mjög þekkt og upprunnin úr norræna menningararfinum mikilvæga. Eða þá lögin eftir hann sjálfan: Vorið kom á vængjum ljósum og lagið hans góða: Það glampar á fannir til fjalla... við texta eftir Tryggva Þorsteinsson skólastjóra. Þetta eru allt perlur sem sitja kyrfilega vel geymdar í betri skúffum heilans. Og munið þið eftir „H“- ljóðinu. Þvílík snilld að einhverjum kæmi í hug að láta semja lag um breytingar á umferðarreglum. Við skipti yfir hægri umferð á H-deginum 26. maí 1968. Og Birgi fórst það einstaklega vel úr hendi. Þvílík markaðssetning. Það er rúm hálf öld síðan þetta var og lagið hans Birgis við texta Kristjáns frá Djúpalæk hljómar enn skýrt í huga mér: „Bókstaf þann er heitir H, hafa skal í minni…“

Ingimar Eydal kenndi líka tónlist um tíma. Hann var sérlega laginn að hvetja okkur sem vorum að læra á hljóðfæri og sýndi náminu okkar mikinn áhuga. Okkur fannst líka flott að hafa kennara sem var frægur tónlistarmaður. Það var líka skemmtilegt þegar hann rauk út úr miðri kennslustund og spólaði á brott á Skódanum á leið í útkall er kveiknað hafði í húsi í bænum. Hann var held ég í varaslökkviliðinu eða a.m.k. mjög áhugasamur um slökkvistarf.

Við fengum svo útrás fyrir sköpunargáfuna síðar á önninni því þegar leið að Jólum hófst svo undirbúningur að jólakortasendingum sem fóru á milli skólasystkininna. Heima gerðum við kortin, límdum glansmyndir með glimmer á spjöld og skrautrituðum á jólakveðjur til allra í bekknum og vina í öðrum bekkjum. Síðan var gengið á milli kennslustofanna á litlu-jólunum og kortunum stungið í viðeigandi jólapóstkassa sem komið var fyrir framan við hverja stofu. Það þótti mikill heiður að fá að skreyta kassana. Í því fólst svipuð virðing og að vera falið að teikna jólaskreytinguna á kennaratöfluna með litkrítum.

Þegar ég lít til baka eftir langa skólagöngu verð ég í einlægni að segja að ég tel þessar kennslustundir vera meðal þess dýrmætasta sem skólakerfið bauð strák úr Innbænum upp á og efldi með honum áhuga á að njóta tónlistar, myndlistar og virðingar í samskiptum.

Ólafur Þór Ævarsson er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. Hann er geðlæknir og starfar einnig að forvörnum og fræðslu hjá Streituskólanum.

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00