Fara í efni
Pistlar

Kenndi fyrir framan annan kennara

ORRABLÓT - XXVI

Hann gekk hröðum skrefum inn í stofuna, tók sér stöðu við kennaraborðið, reif upp Hamlet fóstra sinn og byrjaði að kenna. Eins og ekkert væri sjálfsagðara. Eftir smá stund komu þó vöflur á hann enda áttaði hann sig á því að við vorum eitthvað undarleg á svipinn. Varð honum þá litið aftur fyrir sig og komst þá að því sér til mikillar undrunar að annar kennari beið þar átekta. „Nú, hver röndóttur. Er ég í rangri stofu?“

Já, karlinn minn. Þú átt að vera annars staðar.

Rafn Kjartansson, enskukennarinn minn í MA, var ekki bara frábær kennari, heldur ekki síður stórskemmtilegur náungi. Hver kennslustund með honum var ígildi veislu. Rafn leiddi okkur með sér inn í undraheima Shakespeares, Orwells, Wildes, Dickens, Poes, Frosts og hvað þeir nú hétu, allir þessir gaurar. Og það var slétt sama hvað við hlustuðum á marga leiklestra á Hamlet, nú eða horfðum á margar sjónvarpsupptökur, svipurinn á Rafni var alltaf með þeim hætti að það var eins og hann væri að heyra þetta allt eða sjá í fyrsta skipti. Hafði hann þó kennt kappann í allmarga áratugi.

Þetta var bráðsmitandi og hvatti okkur til dáða.

Að ekki sé talað um öll orð dagsins, sem við þekktum yfirleitt aldrei við fyrstu sýn en fórum orðinu ríkari heim. Eftirminnilegast er orðið antidisestablishmentarianism en það á víst við um þá sem eru á móti þeim sem eru á móti kerfinu. Eða bara „hrukkudýrasafnið í Moskvu,“, eins og Karl Jónsson, vinur minn og bekkjarfélagi, íslenskaði það.

Þeir eru fleiri eftirminnilegir, kennararnir í MA á ofanverðum níunda áratugnum. Stefán Þorláksson, sem kenndi mér stærðfræði, var eins og persóna úr Dickensævintýri. Númeri of stór fyrir lífið, að því er virtist. Og ástríðan var eftir því. Ungur hafði Stebbi lært höfundarverk Einars Ben utan bókar og í síðasta tímanum fyrir ein jólin fór hann blaðlaust með Einræður Starkaðar fyrir okkur. Flutningurinn var fumlaus og mergjaður en þegar Stebbi var kominn langleiðina á enda varð einum nemandanum á að loka skólatöskunni sinni heldur harkalega. Þetta sló okkar mann að vonum út af laginu með þeim afleiðingum að í hann fauk og hann rauk út með hurðaskellum. Eftir sátum við. Agndofa.

Fræg er (þjóð)sagan af því þegar Stebbi á að hafa komið á kassann í kjörbúð, skömmu eftir að greiðslukort voru tekin í notkun, og spurt afgreiðandann hvort vísa dygði. Það hélt hann nú. Stebbi á þá að hafa bunað úr sér eins og einni ferskeytlu, gripið vörurnar og yfirgefið samkvæmið. Afgreiðandinn sat víst eftir og starði inn í tómið.

Annars var stærðfræði aldrei minn tebolli og ykkur að segja þá kolféll ég í fyrsta áfanganum, 102. Alfarið mín sök en kennarinn, sem við skulum ekkert vera að nafngreina, hjálpaði ekki til. Hann var mikið ljúfmenni en kengfeiminn og trúði töflunni fyrir mun meiri upplýsingum alla önnina en okkur nemendunum.

Þá var ég ásamt hinum tossunum settur í hendurnar á stórmerkilegri enskri konu, Janice Dennis. Hana hafði þá nýlega rekið á fjörur skólans en Janice sérhæfði sig í að kenna fólki stærðfræði sem engan áhuga hafði á faginu. Og viti menn, við risum upp á afturfæturnar, eitt af öðru, og mössuðum helvítis 102 um vorið. Eftir það hélt ég sjó í stærðfræðinni.

Eftir þriðja bekk (sem í raun og sann var þá orðinn þriðji bekkur) slógum við á málabrautinni upp veislu enda laus við stærðfræðina fyrir fullt og fast. Nema hvað, um sumarið kom ný tilskipun frá menntamálaráðuneytinu þess efnis að málabrautarnemar á lokaári hefðu gott af því að kljást áfram við stærðfræði. Þetta er dagsatt enda skáldar enginn upp svona vitleysu.

Á svæðið mætti maður að nafni Guðmundur Magnússon, raunar þrælskemmtileg týpa, og lét okkur diffra fram á vor – eins og enginn væri morgundagurinn. Þvílík steypa. Diffrun hefur ekki orðið á vegi mínum síðan.

Þetta barst einmitt í tal í steypibaðinu eftir bumbubolta í Safamýrinni fyrir nokkrum árum. Allir höfðu sömu sögu og ég að segja nema einn, Sigurður R. Ragnarsson, verkfræðingur og forstjóri Íslenskra aðalverktaka. Hann veðraðist allur upp og mælti glaðlega: „Já, já, já, ég diffra reglulega.“

Á einhvern undarlegan hátt þá gladdi þetta mig inn að beini. Og mér varð hugsað til Guðmundar Magnússonar.

Sverrir Páll Erlendsson er líka ógleymanlegur en hann kenndi mér íslensku fyrsta árið – með öllum líkamanum. Okkur leið meira eins og að við værum stödd í leikhúsi en kennslustund. Einu sinni dró Sverrir Páll okkur upp í pontu og lét okkur hafa framsögu. Í næsta tíma á eftir fengum við umsögn frá honum og kappinn hér um bil drap bekkinn úr hlátri þegar hann lék Karl Gústaf Gústafsson vin minn með slíkum tilþrifum að sjálfur Óskarinn hefði ekki verið oflof. Kalla þótti það ekki eins fyndið. Sé Sverri Pál ennþá fyrir mér halla sér fram á púltið og mæla: „Svo lagði hann sig í smá stund.“

Maður þurfti hvorki að fara í bíó né leikhús á þessum árum. Fékk þetta allt beint í æð í Gamla skóla og á Möðruvöllum. Ókeypis.

Jón Már Héðinsson kenndi mér íslensku hin þrjú árin. Hófstilltari maður en engu síðri kennari og alltaf tilbúinn að taka spjallið. Við áttum margar góðar stundir með honum. Eins með Erlingi Sigurðarsyni sem kenndi okkur tjáningu. Þar gekk oft ekki lítið á. Enn ein eftirminnilega týpan, Erlingur.

Jón Már varð vitaskuld seinna skólameistari MA. Tryggvi Gíslason átti að heita það á þessum tíma en var í löngu orlofi í útlöndum og Jóhann Sigurjónsson leysti hann af árin fjögur sem ég var þarna. Tryggva sá ég aldrei. Jóhann var farsæll stjórnandi og fínn náungi. Við kynntumst ágætlega, meðal annars á vettvangi skólanefndar, þar sem ég var fulltrúi nemenda á lokaári mínu. Nefndinni veitti formennsku Guðný Sverrisdóttir, sem um langt árabil var sveitarstjóri Grýtubakkahrepps. Jóhann naut í starfi sínu góðs stuðnings Gunnars Frímannssonar konrektors og Valdimars Gunnarssonar kennslustjóra. Þétt teymi, þeir þrír.

Þýskukennarinn, Gísella Rabe Stephan, var dásamleg og bjó að mikilli móðurlegri hlýju. Hún kom frá Þýskalandi og talaði íslensku með skemmtilegum þýskum hreim og sagði til að mynda „alz ekki“. Við leystum ýmsar gátur á hennar vakt, eins og til dæmis hvers vegna elgirnir þurftu að vera með gasgrímur. Þá verður Der Hirbel mér alla tíð ógleymanlegur en lífið fór ekki mjúkum höndum um hann. Der Hirbel var til dæmis með stöðugan höfuðverk allt sitt líf, karlanginn. Það er „kopfschmerzen“.

Grípandi mörg af þessum þýsku orðum.

Ekki var leikfimiskennarinn, Bryndís Þorvaldsdóttir, síðri. Alltaf kát og hlý og með bros á vör enda þótt kropparnir létu auðvitað misvel að stjórn. Þau Ormarr Örlygsson eru líklega einu mæðginin sem hafa kennt mér. Hann á Þelamörk.

Ragnheiður Gestsdóttir dönskukennari var virðuleg og hnarrreist týpa, kennari af gamla skólanum. Flest söknuðum við hennar mun meira en dönskunnar sjálfrar, sem við útskrifuðumst úr eftir annað árið.

Jón Árni Jónsson kenndi mér líka dönsku en hann hafði verið þarna áratugum saman og m.a. kennt föður mínum. Og afa. Nei, nú fer ég aðeins fram úr mér. Yndislegur maður, Jón Árni.

Bárður Halldórsson var meðal sögukennara. Djúpur pælari og mikill nákvæmnismaður. Einu sinni rifjaði hann upp merkan viðburð frá því herrans ári 1673. Sá hafði nánar tiltekið átt sér stað 24. mars sem var þriðjudagur. Eða var það miðvikudagur? „Hvernig stendur á því að ég man þetta ekki?“ gall í aumingja Bárði – sem gat ekki á sér heilum tekið.

Einu sinni var Bárður eitthvað illa fyrirkallaður og stóð upp eftir um tíu mínútur af tveimur samliggjandi sögutímum og sagði: „Æ, krakkar, vitiði hvað, ég nenni þessu ekki!“ Svo gekk hann út. Við sátum áfram sem fastast í um korter, til öryggis, ef ske kynni að þetta væri gabb. Svo var ekki.

Bragi Guðmundsson var líka frábær sögukennari og stórjók áhuga manns, ekki síst á sögu tuttugustu aldarinnar. Ritgerðirnar hjá Braga voru einatt með allra skemmtilegustu verkefnum. Eitt vorið hvarf ég til dæmis á bólakaf í Kúbudeiluna.

Tómas Ingi Olrich kenndi mér lengst af frönsku, strangur en mjög góður kennari. Það flögraði ekki að nokkrum manni að mæta ólesinn í tíma til Tómasar. Það var ígildi námslegs sjálfsvígs. Með tímanum kveikti hann líka hjá manni mikinn áhuga á Frakklandi og franskri menningu og sögu.

Löngu seinna lágu leiðir okkar Tómasar aftur saman. Hann var þá menntamálaráðherra og bauð okkur hjónunum til hátíðarkvöldverðar í Ráðherrabústaðnum í tilefni af því að Lesbók Morgunblaðsins hafði hlotið viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu. Þröstur Helgason, umsjónarmaður Lesbókarinnar, átti raunar allan heiður af því en ég fékk að fljóta með út af því að ég var á þessum tíma ritstjórnarfulltrúi menningar á blaðinu. Þetta var ljúffengur málsverður með mínum gamla lærimeistara, Spaugstofunni og fleira góðu fólki. Það fór þá aldrei svo að maður næði ekki að lyfta glasi með þeim kumpánum Boga og Örvari.

Já, maður lendir á undarlegustu stöðum í þessu lífi.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00