Fara í efni
Pistlar

Kartöflur og kjallarar

Saga úr Innbænum - VI

Fljótlega eftir páska fór langamma að huga að kartöflunum. Hún breiddi þær á segl á gólfinu í kjallaranum til spírunar. Hún fór höndum um hverja einustu kartöflu og kom svo aftur reglulega og fylgdist með spíruninni, snéri þeim svo þannig að hvert auga kæmist í birtuna sem hún stýrði líka af mikilli kúnst með gluggatjöldunum. Þarna voru Íslenskar rauðar, Gullauga og svo gömul tegund að vestan sem var næstum blá að lit og nýrri tegundir eins og Bintje og Helga. Gömlu mennirnir hnussuðu yfir þessum nýju og framandi kartöflum en létu sig samt hafa það að setja þær niður því þær spruttu fljótt.

Samkvæmt gamallri hefð í Innbænum átti helst að setja niður þann 20. maí. Sögusagnir voru til af mönnum sem voru svo staðfastir í þessu að þeir settu niður einmitt þann daginn, sama hvernig veðrið var, jafnvel í snjókomu og vorhreti. Lang flestir töldu ekki koma til greina annað en setja í rásir og margir áttu sérsmíðuð rásajárn. Þeir fáu sem settu niður í beð voru taldir sérkennilegir. Hefðin fyrir að leggja kartöflurnar í rásir var gömul, sennilega alveg frá upphafi kartöfluræktar í brekkunum ofan við Innbæinn. Þessi aðferð hentaði vel í malargörðunum í bröttum brekkunum og sumir aðhyllast þá kenningu að kartöflurásirnar hafi átt sinn þátt í nafngiftinni Akureyri. Því þegar Danir komu af sjó síðsumars, fyrr á öldum og lögðu kaupskipum sínum við akkeri á Pollinum þá litu vel hirtir kartöflugarðar Innbæinganna í Búðargilinu og brekkunum fyrir ofan Fjöruna út eins og akrar og því kom nafnið Akureyri. Þessi kenning er ekkert verri en sú um nafnið Anköröre, sem síðar er talið hafa breyst í Akureyri eftir akkerum og legustað skipa dönsku kaupmannanna fram undan litlu eyrinni.

Kartöflugarðarnir voru mjög lengi áberandi norðanmegin í Búðargilinu. Ljósmynd: Minjasafnið á Akureyri.

Kartöflurnar áttu að vera 100 daga í jörð. Þegar þær voru teknar upp að hausti vildu menn helst ekki að grösin væru fallin og frost í jörðu eyðilagði uppskeruna. Það ríkti oft mikil spenna um gæði og magn uppskerunnar og margir stóðust ekki mátið og fóru nokkrum dögum áður en tekið var upp og kíktu undir grösin eins og sagt var. Gáðu að stærð og fjölda kartafla hjá hverri móðurplöntu. Uppskeran var oftast mæld í fötum og margir skráðu magnið hjá sér, hvað fór niður og hvað kom upp. Og það gat verið mikið verk að bera pokana niður brattar brekkurnar og koma þeim á vagna eða í bíla. Þegar heim var komið breiddu flestir kartöflurnar á segldúk og þurrkuðu vandlega áður en þeim var komið fyrir í strigapokum og settar í geymslu. Farið var með uppskeruna í kartöfluhús bæjarins í Grófargili eða Kaupfélagsgili eins og það var oftast nefnt. Þetta var jarðhýsi, grafið inn í barðið undir skólalóð Barnaskóla Akureyrar. Í geymslunni réð ríkjum afi minn Jóhann Björn Jónasson, fæddur Húnvetningur, síðar bóndi í Lýtingsstaðahreppi. Hann var stór maður og óvenju þrekinn. Hann veiktist ungur af lömunarveiki, miklum skaðvaldi sem nú er nánast gleymdur, þökk sé nútíma læknisfræði. Þetta breytti draumum unga bóndans. Yfir nótt missti hann heilsu og krafta en náði sér að hluta eftir löng veikindi þannig að hann varð göngufær en gat hins vegar lítið notað handleggina því þeir, ásamt axlavöðvum höfðu rýrnað. Hann var ótrúlega duglegur að bjarga sér og uppfinningasamur að finna verklag sem hentaði honum og hans burðum. Hann þjálfaði sveiflu í afllitlum handleggjunum og gat kastað þeim upp í þá hæð sem hann þurfti t.d. upp á borð til að skrifa eða alla leið upp á höfuð til að taka ofan hattinn sem hann oftast bar. Hann hafði litla kompu, fyrir sig, í miðjum kjallaranum og á fjöl á milli veggja lá stílabók þar sem allt var skráð með digrum rauðum blýanti. Hver kartöflubóndi átti sína kassa sem voru vel merktir. Þannig gat hann fylgst með öllu sem kom inn eða fór út úr stórum trékössunum. Og vei þeim sem kom með illa þurrkaðar kartöflur. Sá fékk langa lesningu og skammir, hvort sem hann var hár eða lágur í samfélaginu. Illa þurrkuð uppskera í geymslukassa gat jú skemmt út frá sér og eyðilagt matbjörg annarra. Menn af hans kynslóð þekktu mikilvægi þess að fara vel með björg í bú. Þarna var líka útsæðið geymt og það var auðvitað afar mikilvægt að það skemmdist ekki. Þarna lauk hringrásinni á haustin og málin voru í bið þar til næsta vor og sett var í spírun á ný.

Kartöflugarðarnir í Búðargili eru áberandi þar sem þeir gnæfa yfir kaupstaðinn árið 1820.

Þeir sem ekki geymdu kartöflurnar í Kartöflugeymslunni, geymdu þær í bakhúsum eða dimmum þurrum kjöllurum sem voru og eru enn undir mörgum húsunum í Innbænum. Í sumum húsunum voru þessar geymslur hálfgerð jarðhýsi, svöl og dimm og draugaleg. Í kjöllurunum voru líka kyndiklefar. Þeir voru aftur á móti hlýir og notalegir. Þar voru venjulega geymd garðáhöld og dekk, veiðarfæri, skíði og sleðar. Kyndingin sjálf sem sá húsinu fyrir hita var stór sívalningur sem stóð á miðju gólfinu. Leiðsla fyrir eldsneytið lá frá veggnum en eldsneytisgeymirinn var utan hússins. Upp úr hitaranum gengu svo pípur og rör sem fluttu kalt vatnið að en upphitað í burtu og um húsið til hitunar. Framan á eldstæðinu var lítill gluggi og inn um hann sást í brennarann og logandi eldinn. Okkur strákunum stóð nokkur ógn af þessu ferlíki og það drundi í frá brunanum. Það kom oft fyrir að við hlýjuðum okkur fyrir framan heitan ofninn, tækjum af okkur útifötin, húfur og vettlinga og þurrkuðum. Það var líka dálítið gaman að pissa á ofninn því það kvissaði svo skemmtilega í út frá hinum mikla hita. Þessari athöfn var þó haldið leyndri því hún var ekki vinsæl hjá mæðrum okkar sem þurrkuðu þvottinn í varmanum frá ofninum.

En aftur að kartöflunum. Við ólumst upp við þann skilning að engar væru kartöflur betri í heiminum en einmitt þessar sem við ræktuðum sjálf í brekkunum niður af Höfðanum, í Gilinu eða Fjörunni. Og kynslóðirnar voru samtaka í að burðast með pokana í garðana á vorin, setja niður, bera á, reita arfa, taka upp og koma uppskerunni í hús að hausti. Ekki er ég viss um að okkur hafi alltaf þótt þetta gaman þá, en minningarnar um þessi sameiginlegu störf allrar fjölskyldunnar sitja nú löngu síðar eftir með mjög jákvæðum blæ í hugskotum heilans. Og fátt er betra í munni en nýupptekið snöggsoðið smælki með salti og smjöri.

Ólafur Þór Ævarsson er Akureyringur, fæddur og uppalinn í Innbænum. Hann er geðlæknir og starfar einnig að forvörnum og fræðslu hjá Streituskólanum.

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00