Jesús og Júróvisjón

Hugsa sér að á næsta ári eru fjörutíu ár liðin frá því Gleðibankinn, okkar fyrsta framlag í Júróvisjón með þeim Helgu Möller, Pálma Gunnars og Eiríki Haukssyni í fararbroddi fór út í aðalkeppnina. Þau voru ekki Iceguys heldur Icy og þau voru sko með möllet sem er komið aftur í tísku því tískan fer jú í hringi. Síðan voru þau með risastóra herðapúða sem voru í raun eins og spariútgáfa af íshokkíbúningi en þessa púða lét maður sig hafa árið 1986 því tískan er harður húsbóndi og sýnir sjaldnast sitt rétta andlit fyrr en liðin eru sirka tíu ár frá því hún réði ríkjum. Glöggt dæmi um slíka afhjúpun eru snjóþvegnu gallabuxurnar og There's Something About Mary hártoppurinn, já og sebra strípurnar sem voru mjög vinsælar um síðustu aldamót. Í fljótu bragði man ég ekki hvort að púðarnir áttu að grenna á manni mittið, blekkja augað þannig að mittið virkaði grennra í samanburði við axlirnar sem voru sirkabát sjötíu og fimm tommu flatskjár. Burtséð frá því þá var þetta mikið öryggistatriði því ef einhver hefði skyndilega kýlt þig mjög fast í öxlina, sem auðvitað gerist mjög oft á förnum vegi, þá hefðirðu ekkert meitt þig. Fátt er svo með öllu illt, ekki satt?
En að Gleðibankanum. Mikið óskaplega vorum við spennt, öll þjóðin, svo peppuð og sigurviss. Þá höfðum við nefnilega ekki reynsluna af því að vinna alls ekki júróvisjón og þegar staðið er á þeim tímapunkti í lífinu þá er ekkert sem mælir gegn því að gera ráð fyrir sigri. Gleðibankinn var líka gleðisprengja, skemmtilegt lag sem hefur lifað með okkur og elst vel og þríeykið þau Helga, Pálmi og Eiríkur voru alveg frábær, lifandi og glöð á sviðinu. Síðan þá höfum við verið þrisvar sinnum nokkuð nálægt sigri, þegar Sigga og Grétar fluttu Eitt lag enn og við lentum í fjórða sæti, Selma með All out of luck í öðru sæti og svo auðvitað Jóhanna Guðrún með Is it true en hún lenti einnig í öðru sæti. Við höfum sem sagt aldrei unnið á þessum fjörutíu ára þátttökuferli okkar í júróvisjón. Eða hvað? Er hægt að tapa og vinna í tónlist?
Júróvisjón er fyrirbæri sem sprettur upp skömmu eftir lok seinni heimsstyrjaldar þegar Evrópa er enn í áfalli og sárum og eflaust ríkt töluverð tortryggni á milli landa. Júróvisjón var líka fyrsta alvöru tilraun evrópska sjónvarpssambandsins til að senda út viðburð í beinni sem hefur á þeim tíma verið heilmikið mál því þrátt fyrir miklar tæknibyltingar síðan þá hljóta svona útsendingar alltaf að vera mikil adrenalínsprauta fyrir þá sem að þeim koma.
Tónlistin er það tungumál sem getur fært fjöll heftra tilfinninga og krefst ekki þekkingar á málfræði, beygingum og orðtökum. Vissulega er dýrmætt að geta skilið söngtextann en það er ekki frumforsenda þess að geta notið tónlistar og heillast af henni. Sem textakona er ég auðvitað upptekin af fallegum söngtextum, þeir ljá laginu miklu dýpri blæ og eru í sumum tilvikum það eina góða við lagið. Tónlist getur engu að síður sagt margt án orða og það að hlusta á tónlist er svo margt, það er skemmtun, það er íhugun, listræn vakning, sálgæsla í sorg, tjáning gleði og sigurs samanber 150. Davíðssálm sem var lesinn hér áðan: Lofið hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju, lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með flautum og strengjaleik. Tónlistin er líka hvatning við hreyfingu og stemningsauki við rómantískar stundir og svo má ekki gleyma þætti hennar í bíómyndum til að tjá betur það sem þó augu okkar sjá. Já tónlist er svo margt og í henni getur fólk sameinast þótt það skilji ekki tungmál hvert annars eða menningu.
Þið þekkið eflaust söguna af Sakkeusi sem segir frá í Lúkasarguðspjalli. Sakkeus var yfirtollheimtumaður í Jeríkó og hélt samfélaginu þar í heljargreipum með græðgi sinni og óheiðarleika. Jesús var væntanlegur til Jeríkó og borgarbúar höfðu safnast saman við borgarhliðið til að taka á móti honum en Sakkeus var lítill vexti og langaði að sjá Jesú svo hann klifraði upp í Mórberjatré þar sem mannfjöldinn byrgði honum sýn. Þegar Jesús kom inn í borgina og fólkið fagnaði honum leit hann upp í tréð og sagði Sakkeusi að koma niður því hann vildi gjarnan snæða málsverð í hans húsi. Fólkið brást illa við, fannst það svikið af Jesú að hann skyldi velja að eyða tíma sínum með manninum sem var akkúrat að gera þeim lífið svo erfitt og leitt. Þegar Jesús hafði dvalið um stund í húsi Sakkeusar fór sá síðarnefndi út á meðal fólksins og baðst fyrirgefningar á framgöngu sinni um leið og hann gerði grein fyrir því hvernig hann hygðist bæta fyrir brot sín. Jesús velur sem sagt að vera í návígi við þann hataða og mæta honum eins og sá hataði hafði aldrei upplifað og bjóst ekki við að nokkur myndi gera. Sakkeus var nefnilega búinn að skapa sér líf hins hrædda og útskúfaða og hugðist lifa því til hinstu stundar, sér og öðrum til bölvunar.
Ég segi ykkur þessa sögu til að velta því upp án þess að svara, hvað réttast, skynsamlegast og mannvænlegast er að gera í keppni eins og Júróvisjón þar sem upp koma reglulega þær aðstæður að þátttökulönd standa í stríði með þeim skelfilegu afleiðingum sem við höfum séð allt frá seinni heimsstyrjöld. Ég sjálf hef ekki lokasvarið en ég veit hins vegar eitt og það hef ég lært af Jesú að hættulegasta aðferðin gagnvart hræddu fólki er að útiloka það. Þá fyrst er illskunni gefið meira rými.
Júróvisjón er á margan hátt merkilegt fyrirbrigði. Stundum er eins og keppnin hafi enga merkingu og vigt en í annan stað er hún hinn stóri ásteytingarsteinn þjóðanna, ekki síst á ófriðartímum. Sumum finnst hún óttalega mikil lágmenning á meðan aðrir elska hana og hlakka til hennar og taka henni einmitt fyrir það sem hún er. Hvað lágmenningarhliðina varðar þá minni ég bara á orð Þorsteins Gylfasonar heimspekings sem sagði „menning er að vanda sig“ af þeim orðum getum við dregið þá ályktun að ekkert sé til sem heiti lágmenning eða hámenning heldur er menning allt sem við gerum af vandvirkni og ástríðu. Með þeim orðum lýk ég þessari hugleiðingu um Júróvisjón og viðurkenni um leið að ég hef afskaplega gaman af þessari keppni.
Hildur Eir Bolladóttir er sóknarprestur í Akureyrarkirkju. Hún flutti þessa hugleiðingu í Júróvisjónmessu á sunnudaginn.


Dýrtíð

Kári og Skúli

Borð og stólar upp kirkjutröppurnar

Formlegar og óformlegar núvitundaræfingar
