Fara í efni
Pistlar

Búddalíkneskið

Hildur Eir Bolladóttir flutti þetta ávarp á 70 ára afmælisfagnaði Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis í menningarhúsinu Hofi í gær.
_ _ _

Ég ætla ekki að hafa mjög mörg orð um sjúkdómssögu mína hér heldur leggja áherslu á annað. En ykkur til upplýsingar get ég þó sagt frá því að ég greindist með endaþarmskrabbamein vorið 2020 og fór í sex vikna geislameðferð á Landspítalanum og töflumeðferð samhliða og eina lyfjainndælingu. Síðan fór ég aftur norður til að gróa sára minna því að geislar á slímhúð í grindarholi og nárasvæði er auðvitað töluverð áskorun sem þurfti góðan tíma til að gróa. Ég tók aftur til starfa um áramót 2021 en í lok mars sama ár greindist ég með meinvarp í lifrinni og undirgekkst þá aðgerð á Landspítalanum þar sem partur af lifrinni er innihélt meinsemdina var skorinn burt og við tók sex mánaða lyfjameðferð hér á Akureyri sem lauk fyrir um ári síðan.

Það sem hins vegar skiptir meira máli að mínu mati að tala um hér í dag eru allir bragðarefirnir sem ég borðaði á meðan ég var í lyfjameðferðinni. Þeir hvíla dálítið þungt á mér. Ég hugsaði reyndar oft um að gera mér grænan sjeik á morgnana með spínati, avókadó og sellerí en endaði nánast alltaf með bragðaref í hönd sem innihélt Snickers, Mars og Þrist. Þegar maður er í lyfjameðferð þá líður manni oft eins og maður sé þunnur og þá verður græni drykkurinn einhvern veginn ekki nógu huggunarríkur, bragðarefur nær hins vegar að dekka bæði líkamlega og andlega líðan en vondu fréttirnar eru þær að maður fitnar dálítið ef maður borðar bragðaref á hverjum einasta degi og ég lenti einmitt því. Ég leit ekki út eins og krabbameinssjúklingarnir í bíómyndunum, grindhoruð með stór útstandandi döpur augu og áberandi kinnbein, ég var meira svona eins og búddalíkneski, feit, sköllótt og þegar ég brosti voru augun á mér bara tvær þráðbeinar línur, það vantaði bara að ég væri með svona óvenju síða eyrnasnepla og í þeim stóra og þunga gullhringi. En svo lauk lyfjameðferðinni og bragðarefunum fór fækkandi og matarlystin breyttist og á nýju ári sagði ég loks skilið við sykurinn og fór bara að borða eins og venjuleg manneskja enda gat ég ekki lengur skýlt mér á bak við lyfjameðferð sem var náttúrlega stórkostlegt því það eina jákvæða við þessa meðferð voru auðvitað bragðarefirnir og þar með er það nú upptalið.

Lyfjameðferðir og aðrar krabbameinsmeðferðir eru auðvitað ekki góð skemmtun en þær hafa mjög ríkan tilgang sem að læknarnir hér í dag eru nú reyndar betur til þess fallnir að útskýra. Mig langaði hins vegar mjög mikið til að koma þessu að með bragðarefinn ef ske kynni að einhver hér inni væri í miðri lyfjameðferð eða hefja lyfjameðferð og þá vil ég að viðkomandi viti að þetta er bara tímabundið og maður má ekki hefja hrísvöndinn á loft þótt mataræðið sé ekki alltaf lífrænt og samkvæmt bókinni How to starve cancer. Ókei, maður þarf kannski ekki að borða bragðaref á hverjum einasta degi eins og sumir en almáttugur minn, þið vitið, bragðarefur með Snickers, Mars og slatta af þjáningu er alveg geggjuð blanda, næst skiptið þið út kökudeginu eða Þristinum fyrir þjáningu og prófið. En nú er ég hætt í sykrinum bara svo það sé á hreinu. Í krabbameinsmeðferð skiptir hins vegar mestu máli að reyna að hreyfa sig, helst eitthvað á hverjum degi því það bætir andlega líðan og styrkir beinin og viðheldur vöðvamassa.

En að öðru, ég var spurð um daginn hvað hefði hjálpað mér mest í mínum veikindum og svarið við því er litla orðið með mikla kraftinn og það er orðið VON. Í Rómverjabréfinu segir „Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.“

Þegar ég tala um von þá er ég að tala um trú. Það sem hefur hjálpað mér mest er að hafa átt foreldra sem ólust bæði upp (og ég veit að þetta mun hljóma undarlega í eyrum sumra) við töluvert óöryggi. Pabbi minn ólst upp við að eiga móður sem var með ólæknandi hjartasjúkdóm og var oft flutt í snatri á spítala og yfir heimilinu grúfði í mörg herrans ár grár skuggi óttans um að hún myndi ekki snúa aftur heim af spítalanum. Hún náði hins vegar sextugsaldri sem var jafnvel meira en búist var við. Mamma mín ólst hins vegar upp við að eiga föður sem var loftskeytamaður og sigldi alla seinni heimsstyrjöldina milli landa á skipum Eimskipafélagsins. Afi minn var sem sagt fæddur árið 1901 sem er kannski pínu merkilegt af því ég er nú bara rétt nýfermd. En sem sagt mamma ólst líka upp við það að annað foreldrið væri í stöðugri lífshættu enda varð afi vitni að því að skip voru skotin niður í kringum hann og lifði það tráma að geta ekki komið mönnum sem svömluðu í sjónum til bjargar, hann sagði okkur barnabörnunum frá þessu öllu saman þó við hefðum nú kannski mis mikinn þroska til að meðtaka þetta. Sjálfur var hann í Petsamóförinni frægu og svo átti hann að vera um borð í Goðafossi sem var skotinn niður af þýskum kafbáti rétt utan við Reykjavíkhöfn þann 10. nóvember árið 1944. Amma hafði hins vegar grátbeðið hann um að taka frí úr þeirri siglingu því fríið átti hann inni og hana hafði dreymt svo illa nokkrum nóttum áður en lagt var af stað. Þetta er hins vegar lengri saga sem ekki er tími til að segja frá hér.

Foreldrar mínir voru sem sagt manneskjur sem bæði ólust upp við visst öryggisleysi og ytri vá en áttu engu að síður góða foreldra og fjölskyldu en þetta mótaði þau samt. Og þegar þau hefja sína samfylgd og stofna heimili og eignast okkur krakkana var það þeim mikið kappsmál að skapa okkur öryggi og festu. Pabbi átti mjög einlæga trú sem hafði styrkst undir handarjaðri séra Péturs Sigurgeirssonar í æskulýðsfélaginu í Akureyrarkirkju, elsta æskulýðsfélagi landsins. Ég ólst upp við það að hann sat við rúmstokkinn hjá mér á hverju einasta kvöldi og fór með bænirnar með mér, spennti sínar þykku hendur saman og þuldi guðsorðið með hljómmikilli röddu. Ég ólst sem sagt upp við að hvíla í trú og í von. Ég sá samt oft að pabbi var kvíðinn og mamma í raun líka, ég sá stundum börnin sem þau eitt sinn voru brjótast fram í andlitsdráttum þeirra, augum eða holningu. Ofar öllu ríkti samt trú. Ég ólst ekki upp við að lífið væri alltaf auðvelt, hvorki hjá okkur né öðrum en það var hins vegar alltaf von, mikið vonarríkidæmi. Þannig að, þegar ég greinist með krabbamein þá varð ég auðvitað hrædd eins og örugglega allir sem fá þær fréttir að þeir séu með alvarlegan sjúkdóm, ég varð líka kvíðin og mér fannst ákveðin stjórn skyndilega hrifsuð freklega út úr höndunum á mér. Æðruleysi er ekki að vera óhræddur, æðruleysi er að mæta ótta sínum og skora hann á hólm. Ég skoraði óttann minn á hólm á hverju einasta kvöldi í heil tvö ár. Kvöldið fyrir stóra lifraruppskurðinn bað ég bænirnar mínar eins og öll önnur kvöld, lagðist á koddann óttaslegin og kvíðin en sofnaði samt innan fárra mínútna og svaf alla nóttina án þess að rumska, ég hef aldrei á ævinni þurft að taka inn svefnlyf. Morguninn eftir vaknaði ég og mundi aftur eftir því að ég væri að fara í stóran uppskurð og fann auðvitað þá fyrir kvíða . Á hverju kvöldi segi ég við sjálfa mig „á morgun kemur nýr dagur og hann getur hæglega orðið betri en sá sem er liðinn.“ Af því að það eru bara töluvert miklar líkur á því og það hef ég nefnilega oft reynt á eigin skinni, ekki bara í krabbameinsveikindum heldur öðrum veikindum líka og í annarri sorg og skilnaði og allskonar mannlegu sjitti eins og maður segir á góðri íslensku. Von sem við sjáum fram komna er ekki lengur von. Von er að trúa því að hið góða sé máttugra en allt og það finni sína leið og sinn farveg í lífi þínu og að yfir þér sé vakað og almættið sé máttugra en þú og þinn ótti. Og þar liggur minn styrkur, ég VONA, þar hvílir mitt líf.

Hildur Eir Bolladóttir er prestur í Akureyrarkirkju

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00