Fara í efni
Pistlar

Hvers vegna er streita að aukast?

Fræðsla til forvarna - IX

Svo virðist sem streita sé að aukast og streitutengdir lífsstílssjúkdómar sömuleiðis. Að minnsta kosti er streita orðin meira umtöluð og afleiðingar hennar sýnilegri. Við gerum miklar kröfur um að geta unnið flókið starf samhliða því að sinna vel fjölskyldu og heimili og margir gefa ekkert eftir í lífsgæðakapphlaupinu. Enn er til að stjórnendur ali á þeim starfsanda að bestu starfsmenn vinni lengstan vinnudag og að eðlilegt sé að trufla megi starfsfólk utan vinnutíma. Aukningin er ekki eingöngu hérlendis því svipuð þróun á sér stað í öðrum löndum. Sums staðar er aukningin svo hröð og áberandi að talað er um faraldur. Orsakir þessa eru ekki vel þekktar en setja má fram kenningar og sem gætu nýst í forvarnastarfi:

1) Miklar breytingar hafa orðið í samfélaginu og álagsþáttum hefur fjölgað. Nútíma samskiptækni og miðlun gerir auknar kröfur um að vera alltaf til staðar og það veldur stöðugu áreiti og skerðir möguleika á nauðsynlegri hvíld og endurhleðslu.

2) Samskiptamáti hefur í kjölfarið breyst mjög mikið og stundum virðist sem einstaklingurinn vilji fremur vera í sambandi við sem flesta í einu í stað þess að slaka á í manneskjulegri tengingu við einn eða fáa á góðri stund.

3) Fjölvirkni (multi-tasking) er talin dyggð en sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að slík hegðun er orkufrekari en þegar við einbeitum okkur að einu í einu.

4) Miðaldra kynslóðin sem er á hátindi starfsferils síns með tilheyrandi álagi og ábyrgð í starfi, er með áhyggjur af unglingum sem eru að verða ungt fólk en komast ekki að heiman og á sama tíma sér hún einnig um aldraða foreldra sem eru í heimahúsum með takmarkaða þjónustu. Þessir álagsþættir eru afleiðing ónógs stuðnings við að ungt fólk geti eignast sitt fyrsta húsnæði og vegna þess að þjóðin er að eldast og fjöldi þeirra sem nær háum aldri vex hratt og langt umfram það sem mætt er með viðeigandi stuðningi og þjónustu.

5) Á yngri kynslóðunum hvílir aukin krafa um fegurð, frískleika og skjótan frama og þeim liggur svo sannarlega á í lífskjarabaráttunni. Sumir rannsakendur benda á meiri sjálfmiðun þúsaldarkynslóðarinnar. Til eru sálfélagslegar kenningar um að of mikil sjálfmiðun í stað heildstæðrar sýnar og félagslegs þroska dragi úr samkennd og auki hættu á kulnun.

6) Tími fyrir hvíld, kyrrun hugans og endurhleðslu heilans er minni. Slíkt er nauðsyn eðlilegs þroska og endurnýjun í taugakerfinu. Minni tími er til hvíldar í skólanum eða á heimilinu og börn og unglingar hafa nú oftar en áður einkenni um streitu, kvíða og depurð eða líkamleg óþægindi og hegðunar- og einbeitingarvandamál.

7) Margt bendir til að trúariðkun sé á undanhaldi í vestrænum löndum en í trúnni eru fólgin mörg úrræði sem verja gegn álagi og kulnun. Áhersla á íhugun, sjálfsskoðun og kyrringu hugans eru í boðskap trúarinnar. Mildi í samskiptum, skilningur, fyrirgefning og umhyggja fyrir náunganum sömuleiðis, en mörgum finnst vera aukin harka í samskiptum nú til dags. Einnig er sterkur boðskapur í trúnni um nauðsyn hvíldar.

8 ) Stundum teljum við mennskuna í hættu á kostnað vélrænna vitsmuna og ef til vill erum við þegar komin lengra í því ferli en við gerum okkur grein fyrir. Þó ekki þannig að vélmenni með gervigreind hafi tekið yfir, heldur að við sjálf hugsum og hegðum okkur í auknum mæli vélrænt.

9) Bent hefur verið á að of mikil peningahyggja á kostnað mannlegra og menningalegra eða listrænna gilda hafi of mikil áhrif og fullnægi ekki mannlegum þörfum til hvíldar og uppbyggilegra samskipta nema á takmarkaðan hátt.

10) Falsfréttir og neikvæðir sleggjudómar á netmiðlum hafa aukist í stað agaðs umtals manna á meðal og faglegs fréttaflutnings og þetta hefur neikvæð áhrif og getur dregið úr trausti og von.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir.

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00