Fara í efni
Pistlar

Hvað getur Akureyrarveikin kennt okkur um eftirköst COVID-19?

Friðbjörn Sigurðsson og Jonas Bergquist, til hægri, ræða við tíðindamann Akureyri.net. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Jonas Bergquist, mikils metinn læknir og vísindamaður frá Uppsölum í Svíþjóð, hefur beint sjónum sínum að langtíma eftirköstum COVID-19 með sérstakri áherslu á hliðstæður og tengsl við Myalgic encephalomyelitis, betur þekkt sem ME-sjúkdómurinn, en hann er í stuttu máli krónískur þreytusjúkdómur sem getur valdið mikilli skerðingu á lífsgæðum. Um ræðir flókinn sjúkdóm sem á sér margs konar birtingarmyndir og getur valdið mörgum og mismunandi einkennum hjá sjúklingum.

Akureyrarheimsókn ekki ástæðulaus

Jonas hélt erindi á Læknadögum í Reykjavík um langtíma eftirstöðvar sýkinga. Hann gerði sér ferð norður, hélt erindi á Sjúkrahúsinu á Akureyri, hitti kollega og kíkti við á heimavist Menntaskólans, svo eitthvað sé nefnt. Það var reyndar ekki að ástæðulausu. Rannsóknir hans tengjast Akureyri og sú saga er í senn einföld og flókin.

Tíðindamaður Akureyri.net notaði tækifærið og hitti Jonas yfir kaffibolla, ásamt akureyrskum kollega hans, Friðbirni Sigurðssyni, lækni á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Friðbjörn er tíðindamanni til halds og trausts og við leitum einnig í viskubrunn hans.

Jonas Bergquist á gömlu heimavist Menntaskólans, á Suðurlofti Gamla skóla. Helmingur nemenda á heimavistinni fékk Akureyrarveikina.

Jonas hefur nefnilega skoðað Akureyrarveikina í tengslum við rannsóknir á langtíma eftirköstum COVID-19. Akureyrarveikin geisaði á Akureyri og víðar um Norðurland 1948-1949, stundum einnig nefnd Íslandsveikin. Það eru ýmis líkindi með þessum fyrirbærum, afleiðingum Akureyrarveikinnar, ME-sjúkdómnum og langtíma eftirköstum COVID-19. Akureyrarveikin lagðist meðal annars á marga nemendur Menntaskólans á heimavistinni. Orsök Akureyrarveikinnar er enn ekki ljós en margt bendir til að um veirusjúkdóm hafi verið að ræða.

Í mjög einfaldaðri mynd má segja að Akureyrarveikin, ME og langtíma afleiðingar COVID-19 séu að öllum líkindum taugasjúkdómar sem koma í framhaldi af veirusýkingum. En málið er vitaskuld flóknara en svo að hægt sé að lýsa þessum sjúkdómum á þennan hátt. Mögulega er þessi tenging þó einmitt það sem mun, með þeim rannsóknum sem Jonas og fleiri vinna að, verða til þess að vísindasamfélagið finni svör, finni aðferðir til að ráðast að rót vandans í stað þess að fást stöðugt við einkennin eins og gert er í dag. Um leið munu þessi fyrirbæri vonandi öðlast viðurkenningu fyrir fullt og allt.

Akureyri mikilvæg í þessu sambandi

„Ég fékk tækifæri til að fara með Friðbirni til Akureyrar. Af hverju, þetta er fallegur staður, en bærinn er okkur líka mikilvægur hvað varðar taugasjúkdóminn sem við erum að rannsaka,“ segir Jonas og vísar þar til Myalgic encephalomyelitis, ME-sjúkdómsins, sem einnig hefur verið nefndur Chronic Fatigue Syndrome (CFS), stundum nefnt síþreytufár eða þreytusýki á íslensku, sbr. grein Friðbjarnar í Morgunblaðinu, Hvað er eiginlega þessi ME-sjúkdómur?, þann 12. maí 2021 í tilefni af alþjóðlega ME-deginum.

„Við sérhæfum okkur í taugafræði með fylgikvillum eftir veirusýkingar. Þetta er sjúkdómur sem hefur áhrif á miðtaugakerfið, heilinn verður fyrir áhrifum vegna bólgu. Við viljum nota ME sem styttingu á heitinu því það er líkt Multiple Sclerosis, MS, sem er vel þekktur og vel rannsakaður sjúkdómur í taugakerfinu,“ segir Jonas.

Segja má að nafngift sjúkdómsins sé hluti af stærra vandamáli, nefnilega því hve erfiðlega hefur gengið að fá ME viðurkenndan sem alvöru sjúkdóm. „Já, það hefur verið vandamál,“ segir Jonas. „Það er ekki það að fólk hafi ekki haft áhuga á að skilja þetta, heldur er það skortur á upplýsingum, skortur á þekkingu sem gerir það erfitt að finna út úr því hvað þetta er, erfitt að ákveða greiningarviðmiðin og erfitt að skilja sjúkdóminn.“ Í sumum tilvikum hafa læknar verið hikandi við að nota orðið krónískur í þessu sambandi, en Jonas kveðst telja að hindranir við viðurkenningu sjúkdómsins muni breytast með langtíma eftirköstum COVID-19 þar sem sjúklingum mun fjölga hratt.

ME-sjúklingar hafa ekki einungis þurft að berjast við sjúkdóminn sjálfan og afgerandi áhrif hans á daglegt líf þeirra heldur gátu þeir í mörg ár ekki treyst á að sjúkdómurinn sjálfur væri viðurkenndur sem raunverulegur sjúkdómur. Viðurkenning á honum, greiningarforsendunum og einkennum hans hefur þó smátt og smátt verið að ná fótfestu. Enn eru þó til efasemdarraddir. Hluti vandans er að hvorki ME né langtíma eftirköst COVID-19 verða greind með blóðprufu heldur byggist greiningin á öðrum þáttum sem við víkjum að síðar.

Sögulega áhugaverður faraldur á Akureyri

En aftur að tengingunni við Akureyri og ástæðum þess að Jonas ákvað að heimsækja Akureyringa.

„Sögulega séð er faraldurinn 1948-49 mjög áhugaverður. Sjúklingar fengu svipuð einkenni og við sjáum hjá ME-sjúklingum. Þetta gerðist hérna í Menntaskólanum og á fleiri stöðum í bænum. Sjúkdómurinn var því nefndur Akureyrarveikin eða Íslandsveikin, en svo var því breytt yfir í meira læknisfræðilegt heiti – myalgic encephalomyelitis, ME var heitið sem var notað.“

Í grein Sverris Bergmann um Akureyrarveikina á doktor.is segir að telja megi víst þótt það verði ekki sannað að Akureyrarveikin hafi verið veirusjúkdómur og sennilegast tilkomin af veiru skyldri mænusóttarveirunni sem veldur lömunarveiki (e. Polio). „Það styður þetta að þeir sem fengu Akureyrarveikina svöruðu sterkar við bólusetningu gegn lömunarveiki en þeir sem ekki höfðu veikst,“ skrifar Sverrir. Bólusetning við lömunarveiki hófst 1956 og segir Sverrir að engin hliðastæða Akureyrarfaraldursins hafi komið upp hér eftir 1956. „Hafi bólusetningin gert fólk ónæmt ekki einungis fyrir lömunarveiki heldur einnig Akureyrarveikinni bendir það til þess að um skyldar veirur sé að ræða,“ skrifar Sverrir.

Jonas var spurður út í þetta atriði, tengsl á milli þess að hafa veikst af Akureyrarveikinni, sterkari svörun við bóluefni gegn mænusóttarveirunni og svo bólusetningu við COVID-19.

„Ég veit ekki hvort það eru til upplýsingar um það. Það eru margar mismunandi ástæður fyrir því að fólk bregst sterkar við bóluefni, en ef við tölum almennt um þetta má segja að ein augljós ástæða sé að ef þú ert með viðvarandi bólgur eða sýkingu ætti það að efla ónæmiskerfið eða ýta við því að bregðast við. Auðvitað gæti það leitt til aukinnar virkni, eða viðbragða við bóluefni. Það gæti verið almenn ástæða.“

Friðbjörn Sigurðsson og Jonas Bergquist

Hverfist um ónæmiskerfið

Hvað ME-sjúklinga og bólusetningar varðar virðist sem þriðjungur sjúklinga taki ekki eftir neinu við bólusetningu, og bregðist við eins og hver annar einstaklingur sem er bólusettur, fái kannski í mesta lagi eymsli í handlegginn. Einn þriðji sjúklinga upplifi betri líðan hvað einkenni ME-sjúkdómsins varðar, eins og ónæmiskerfið hafi fengið um annað að hugsa í einhvern tíma og þá verði að minnsta kosti einkenni frá ME-sjúkdómnum mildari um tíma, en einn þriðji sjúklinga finni fyrir versnun á einkennum.

Er ónæmiskerfið þá miðpunktur í þessu?

„Við fylgjum þeirri línu,“ segir Jonas. „Það er margt sem tengist þessu. Við erum með hvatbera (mitochondria) sem eru líffæri innan frumunnar sem koma að orkuframleiðslu fyrir frumuna. Hvatberarnir starfa óeðlilega hjá ME-sjúklingum, við vitum það. Við getum mælt það. ME-sjúklingar geta framleitt orku, en geta ekki framleitt nóg af henni og eiga í erfiðleikum með að endurheimta orku eftir andlega og líkamlega virkni, það er vitað. En ónæmiskerfið er einnig í ólagi hjá ME-sjúklingum. Við vitum það líka,“ segir Jonas.

Væri gott að hafa lífsýni tengd Akureyrarveikinni

Er skyldleiki með orsökum Akureyrarveikinnar, lömunarveikinnar og COVID-19, eru þetta ef til vill allt kórónuveirur?

„Við vitum það ekki. Við þekkjum ekki tegund veirunnar sem mögulega orsakaði Akureyrarveikina. Það voru nokkrar mismunandi tegundir útilokaðar, en ekki prófað fyrir Epstein-Barr veirunni, svo ég nefni dæmi. Það gæti hafa verið Epstein-Barr veiran, sem er mjög algeng.“

Aðspurður segir Jonas að því miður vitum við ekki allt sem þarf til að komast að óyggjandi niðurstöðu í dag. Það væri til dæmis áhugavert að rannsaka vefjasýni þeirra sem fengu Akureyrarveikina. „Fræðilega séð væri hægt að fara til baka með nútíma DNA-tækni, en ef hægt hefði verið að safna sýnum í lífsýnabanka hefði það verið mun auðveldara. En því miður vitum við ekki hvort einhver lífsýni voru tekin eða geymd,“ segir hann.

Í hverju felst mikilvægi Akureyrarveikinnar fyrir rannsóknir þínar og vinnu með langvarandi eftirköst COVID-19?

„Mér finnst mikilvægt að við lærum af sögunni, bæði af mistökum sem við gerum með tímanum, en líka með þeirri þekkingu sem safnað hefur verið. Þegar farið er yfir þær skrár sem lýsa Akureyrarveikinni passa þær vel við það sem við vitum í dag um ME og líka við langtímaafleiðingar COVID-19. Íslenskir læknar með Björn Sigurðsson á Keldum í fararbroddi eiga mikinn heiður skilinn. Akureyrarveikin var ekki fyrsti faraldurinn í heiminum af þessum torkennilega sjúkdómi en hann var sá fyrsti sem lýst var á vísindalegan hátt og sjúklingum var fylgt eftir og niðurstöður birtar í alþjóðlegum vísindaritum eins og Lancet. Svo strax á þessum tíma, á fimmta áratugnum, gat fólk lýst fyrirbærinu mjög vel. Þessir læknar höfðu ekki mjög flott tæki eða greiningarbúnað, en þeir voru mjög athugulir og skráðu og gáfu út með réttum lýsingum, sem er mjög mikilvægt fyrir okkur. Við getum lært af því. Auðvitað á það við um aðra faraldra, alveg frá svarta dauða til spænsku veikinnar og svo framvegis.“

Kemur spænska veikin þá líka við sögu í þinni vinnu?

„Hún kemur stundum upp því það eru ýmis líkindi. Ég rannsaka líka annan sjúklingahóp samhliða, með sjúkdóm sem kallast Herpes Simplex Ecephalopathy, heilabólga, það er herpes-veira sem orsakar áblástur sem er mjög algeng í samfélögum. Um 1% allra sjúklinganna sem eru með endurteknar herpes-simplex sýkingar verða fyrir einkennum í miðtaugakerfinu einnig. Mjög lítill hluti þeirra fær raunverulega heilabólgu (encephalopathy). Það er mjög alvarlegur sjúkdómur, ef þú færð hann ertu í vandræðum, þarft á gjörgæslu að halda og sumir sjúklingar látast af völdum hennar. Það er mjög sjaldgæft. En við fylgjumst líka með þessum sjúklingum, getum lært af þeim, hvernig þeir bregðast við meðferð, hvernig uppbyggingin að baki sjúkdómnum er, hvernig veiran kemst alla leið í gegnum blóðrásina og inn í miðtaugakerfið og veldur vanda þar. Við reynum að safna upplýsingum frá sögunni, frá hliðstæðum sjúkdómum, með svipaða einkennamynd og byggjum á þeim lærdómi hvað gera skuli og hvernig eigi að greina,“ segir Jonas.

Gríðarlegur fjöldi lífsýna

Jonas rannsakar núna langtíma eftirköst COVID-19, meðal annars með hliðsjón af Akureyrarveikinni, ME-sjúkdómnum og langtíma afleiðingum þeirra. Á meðan á heimsfaraldrinum stóð þurftu hann, sem var aðallega vísindamaður, og margir aðrir að stíga inn og sinna alvarlega veikum sjúklingum á bráðadeildum og víðar.

„En það sem við fengum tækifæri til að gera þegar við áttuðum okkur á þeim gríðarlega fjölda sem sýktist, hinum alvarlegu áhrifum á marga einstaklinga, sérstaklega eldra fólk, þá notuðum við tækifærið til að safna lífsýnum, einmitt það sem við hefðum gjarnan viljað sjá varðandi Akureyrarveikina.“ Í Uppsölum þar sem Jonas starfar var tekinn gríðarlegur fjöldi lífsýna á stuttum tíma, til dæmis af öllum sjúklingum sem lentu á gjörgæslu. „Við tókum einnig sýni úr mænuvökva og getum skoðað hann varðandi bólgusvörun í miðtaugakerfinu. Við höfum gert það við alvarlega veika covid-sjúklinga, en við höfum einnig safnað mænuvökva hjá ME-sjúklingum og sem stendur erum við að safna sýnum hjá minna veikum sjúklingum, en með langtíma veikindi, sjúklingum með eftirköst vegna covid. Við erum að reyna að læra af heimsfaraldrinum. Flest af því sem hefur fylgt honum hefur verið hræðilegt, en mögulega getum við lært sitthvað sem mun hjálpa okkur til lengri tíma við að vita meira um ME-sjúkdóminn og hvað Akureyrarveikin var.“

Eins og með Akureyrarveikina, eða ME-sjúkdóminn, er hið sama uppi á teningnum með langtíma eftirköst COVID-19. Ekki er vitað nákvæmlega hver meingerðin er og þá einbeita læknar sér að því að reyna að stilla einkenni. „En að því sögðu þá erum við að hefja og það eru klínískar rannsóknir í gangi þar sem reynt er að hafa áhrif á bólgur í heilanum og einnig er reynt að útiloka endurvakningu veirusýkingar með meðferð gegn veirunni sjálfri. Margt bendir til að hvatberar sem framleiða orku fyrir frumurnar séu ekki að virka sem skyldi. Mikill áhugi er nú á að skoða það mál frekar. Margt bendir til ákveðinnar óstjórnunar í ónæmiskerfinu sem beinist að frumum í miðtaugakerfinu.“

Jonas segir að þegar allt kemur til alls sé mikilvægast fyrir sjúklinginn að viðurkenna sjúkdóminn og að halda aftur af sér, eða að fara varlega varðandi orkustigið. Það er mjög einstaklingsbundið. Í hvað hefurðu efni á að verja orkunni án þess að lenda í hruni, þetta snúist um virkniaðlögun.

Mikilvægar upplýsingar

„Fólk þarf að vita um þetta, ekki bara hér á Akureyri,“ segir Jonas um alvarleika þess sem við er að etja vegna afleiðinga COVID-19.

„Þessar upplýsingar verða mjög mikilvægar fyrir fjölda fólks um allan heim,“ segir hann og bendir á að um ræði milljónir um allan heim. Staðfest er að 55% Íslendinga hafi sýkst af COVID-19, og sennilega eru þeir mun fleiri. Vitað er að um 10% af þessum fjölda kann að eiga við langtíma eftirköst í lengri tíma, sem verði jafnvel að krónískum sjúkdómum – og vitað er að um 1% COVID-19 smitaðra munu eiga við alvarleg langíma einkenni að stríða. Þó prósentutalan sé ekki há þá er um gríðarlega marga sjúklinga að ræða. Íslendingar standi ef til vill vel að vígi fjárhagslega til að taka á því tjóni en það mun hafa afleiðingar fyrir sjúklinginn og fyrir fjölskyldu hans. Önnur samfélög eiga ef til vill erfiðar með að höndla þennan vanda með víðtækum samfélags- og efnahagslegum afleiðingum. Því er það svo mikilvægt að skilja sjúkdómsferlið betur. Ef til vill mætti kalla þetta uppreist æru fyrir þá sjúklinga sem hafa þjáðst mjög lengi af Akureyrarveikinni eða ME-sjúkdómnum og hafa ekki fengið nægjanlega góða meðferð af samfélaginu eða heilbrigðiskerfinu,“ segir Jonas.

Greining ME-sjúkdómsins og langtíma eftirkasta COVID-19 á enn við þann vanda að etja að ekki er hægt að taka bara einfalda blóðprufu til greiningar.

„Það sem er gert fyrst er að reyna að útiloka aðra sjúkdóma og allt annað sem gæti verið hægt að fást við og ástæður fyrir einkennum. Þú reynir að útiloka eins mikið af því og hægt er. Þegar það hefur verið gert eru spurningalistar, þú sest niður með sjúklingnum, skoðar sjúkrasöguna og spyrð líka nákvæmra spurninga, skoðar alvarleika hvers atriðis, hversu illa sjúklingnum líður í raun. Það eru spurningar sem eru lykilatriði fyrir þennan sjúkdóm. Ef sjúklingurinn svarar vissum atriðum neitandi yrði hann ekki greindur með ME eða langtíma eftirköst COVID-19. Þetta eru frekar strangar forsendur. En samt, sjúklingar sem detta út, eru ekki greindir með ME, þeir þurfa engu að síður hjálp við sínum kvilla,“ segir Jonas.

Aðspurður um greiningu á ME-sjúkdómnum og langtíma eftirköstum COVID-19 og vandkvæðum varðandi greininguna segir Jonas að beita þurfi ströngum forsendum við greiningu, sérstaklega þegar kemur að uppbygginu rannsókna á þessum sjúklingum. Í þessu skyni eru notaðar ákveðnar spurningar og greiningarlistar, en nú sé líklegt að nákvæmari greiningarpróf verði til. „Rannsóknir á lífefnafræðinni, skoða áhrif á hvatberana, skoða merki um bólgur sem finna má í blóði eða í mænuvökva, ef hann er til staðar, ásamt öllu öðru sem tengist efnaskiptum og lífefnafræði. Það styður einnig greininguna. Það er einnig mikilvægt að hafa þetta í huga,“ segir Jonas.

Verða segulsneiðmyndir bjargvætturinn?

Notkun sneiðmyndatækja við greiningu á bólgum gæti vakið vonir um að einhvers konar lausnir séu í sjónmáli varðandi greiningu fyrir þessa sjúklinga.

„Við erum núna að vinna að aðferðum við heilamyndatökur, sem beinist sérstaklega að bólgum í heilakerfinu, svipað og við notum á MS-sjúklinga, en þessi aðferð sem við beitum núna beinist að sérstakri tegund frumna í heilanum, sem tengist uppbyggingu ónæmiskerfisins, örtróðsfrumur (microglia). Með þessari myndatökutækni getum við rannsakað sjúklinginn án þess að íþyngja honum um of. Teknar eru segulsneiðmyndir (magnetic resonance imaging, MRI), og þá er hægt að sjá hvort það séu viðvarandi bólgur í heilanum. Ég held að slíkar mælingar verði mjög mikilvægar fyrir staðfestingu á sjúkdómnum, og fyrir okkur að geta fylgst með framgangi sjúkdómsins, batahorfum og líka til að fylgjast með hvað gerist þegar viðeigandi meðferðum er beitt. Hvort við getum snúið bólgunum við eða ekki,“ segir Jonas.

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30

Ódi

Jóhann Árelíuz skrifar
19. janúar 2025 | kl. 06:00

Sambýlið á Ásbraut 3 í Kópavogi

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
17. janúar 2025 | kl. 06:00

Minjasafnsgarðurinn á Akureyri

Sigurður Arnarson skrifar
15. janúar 2025 | kl. 16:00