Fara í efni
Pistlar

Akureyri var eins og draugabær í þrjá mánuði

Ekki er langt síðan samkomubann var í gildi hér á landi vegna kórónuveirunnar og því er áhugavert að skoða hlutina í sögulegu samhengi og rifja upp ástandið þegar Akureyrarveikin geisaði um miðja síðustu öld. Þá, líkt og nú, var sett á samkomubann og var Akureyri líkt við hálfgerðum draugabæ. Öll íþróttastarfsemi var t.a.m. lögð niður og skólum var lokað.

Í 5. bindi um Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason er rifjað upp ástandið hér á svæðinu þegar veikin gekk yfir. Við grípum hér niður í texta Jóns Hjaltasonar.

„Þessi torkennilega veiki kom upp í september 1948, fyrst í sveitinni en í október lagði hún til atlögu við bæjarbúa og sýkti 465 þeirra en 1948 voru Akureyringar tæplega 6.800 talsins. Aðeins 15% þeirra sem tóku veikina náðu fullum bata en fjórðungur þeirra sem veiktist stríddi allar götur síðan við veruleg eftirköst Akureyrarveikinnar en um hana segir meðal annars á Vísindavef Háskóla Íslands: „Telja má víst, þótt ekki verði það sannað, að Akureyrarveikin var veirusjúkdómur og sennilegast tilkomin af veiru skyldri polioveirunni sem veldur lömunarveiki.“

Sverrir Pálsson, sem lengi var skólastjóri Gagnfræðaskólans, lýsti Akureyrarveikinni svo: „Ég fékk háan hita, mikinn höfuðverk og þoldi ekki birtu ... Ég var lengi að ná mér upp úr þessu, var alveg ómögulegur lengi á eftir. Mér fannst þetta undarlegt. Lengi eftir að ég veiktist mátti ég ekki við nokkru mótlæti, þá bara beygði ég af, grét eins og barn af minnsta tilefni.“ (Vikudagur 20. desember 2007)

Fleiri hafa borið um hin andlegu áhrif veikinnar. Skapti Áskelsson í Slippnum tók svo djúpt í árinni að segja veikina hafa lagst einna verst á geðið. Vanstilling skapsmuna kom í stað jafnaðargeðs, ekki aðeins á meðan veikindum stóð heldur lengi á eftir. Þó missti Skapti máttinn meira og minna í báðum fótum og eitthvað í hægri handlegg og náði sér aldrei til fulls aftur.

Skólar bæjarins urðu afar hart úti. Í Barnaskólanum veiktust flestir kennaranna, skólahjúkrunarkonan, skólastjórinn og rúmlega 100 börn eða eitt af hverjum sjö er stunduðu þar nám. Og í tíu vikur, eða frá 19. nóvember til 15. febrúar, lá skólahaldið niðri. Þannig féllu niður 57 skóladagar af þeim 159 sem ætlaðir voru til náms þennan vetur. Ástandið var keimlíkt í öðrum skólum bæjarins, kennsla lá niðri í Gagnfræðaskólanum frá 20. nóvember til 9. desember og aftur frá 4. janúar til þess 14. Svipaða sögu mátti segja af Menntaskólanum og raunar öllu bæjarlífinu. Í nóvember, þegar ljóst varð að læknavísindin réðu ekki við hinn dularfulla sjúkdóm, var sett á samkomubann í kaupstaðnum. Messur féllu niður, bíóum var lokað, leikhúsinu líka, engir dansleikir voru haldnir eða aðrar opinberar skemmtanir. Íþróttahúsinu var skellt í lás og íþróttaæfingar bannaðar. Skíðafólk mátti ekki einu sinni efna til hópferða í skíðalendur bæjarins. Í dagbók Jónasar Jónssonar, formanns íþróttafélagsins Þórs, kemur berlega fram við hvað var að etja. „Öll íþróttastarfsemi er lögð niður“, skrifaði Jónas í nóvember 1948, „vegna mænuveikifaraldurs í bænum.“ Þó var lítið eitt farið á skíði um helgar enda gerðu menn það upp á eigin spýtur en ekki í skipulögðum hópum.

Ekki mátti halda jólatrésskemmtun félagsins og eftir áramótin féll álfadansinn líka niður. Í lok janúar 1949 skrifaði Jónas: „ ... bannið er enn framlengt um óákveðinn tíma.“

Loks hinn 15. febrúar 1949 var samkomubanninu aflétt. Bærinn hafði þá í tæpa þrjá mánuði minnt helst á „dauðs manns gröf“ – svo vitnað sé til orða Íslendings. Fjaraði svo sóttin út en engin lést af hennar völdum.“

  • Meira um Akureyrarveikina og COVID-19 á Akureyri.net í morgun:

Hvað getur Akureyrarveikin kennt okkur um eftirköst COVID-19?

Fyrsti faraldurinn af þessum torkennilega sjúkdómi sem lýst var á vísindalegan hátt og niðurstöður birtar í alþjóðlegum vísindaritum eins og Lancet

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00