Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Munkaþverárkirkja

Sunnarlega við neðstu rætur Staðarbyggðarfjalls stendur hið valinkunna höfuðból Munkaþverá. Eins og nafnið gefur til kynna dregur bærinn nafn sitt annars vegar af munkum og Þverá efri, sem rennur í Eyjafjarðará þar steinsnar frá, hins vegar. Í daglegu tali margra er nafn bæjarins yfirfært á ána og jafnframt hið hrikalega hamragil, sem hún fellur um, kallað Munkaþverárgil. Að Munkaþverá standa reisuleg bæjarhús, m.a. ríflega aldargamalt steinsteypt íbúðarhús en litlu norðar og vestar er kirkja staðarins, timburkirkja frá árinu 1844. Er hún umlukin ræktarlegum trjálundi sem prýðir kirkjugarðinn umhverfis hana. Frá Munkaþverá eru um 18 kílómetrar til Akureyrar.

 

Sögu jarðarinnar Munkaþverár má rekja til landnámsaldar en þar mun fyrstur hafa búið Ingjaldur sonur Helga magra. Hét bærinn framan af Þverá efri, en það segir sig sjálft að engir voru hér munkarnir fyrr en eftir kristnitöku. Þó á helgihald sér lengri sögu á Þverá efri, en þar reisti téður Ingjaldur hof til heiðurs frjósemisgoðinu Frey. Kirkja mun hafa risið á Þverá efri fljótlega eftir kristnitöku árið 1000. Nokkuð öruggt mun teljast, að klaustur hafi verið stofnað að Þverá efri árið 1155. Mögulega hefur heitið Munkaþverá fest sig í sessi við, eða skömmu eftir, klausturstofnun. Var það Björn Gilsson Hólabiskup sem stóð fyrir stofnun klaustursins. Öldum saman var starfrækt klaustur að Munkaþverá og var það löngum vellauðugt, líkt og klaustrin voru almennt. Um miðja 15. öld átti Munkaþverárklaustur um 40 jarðir og á öndverðri sextándu öld voru þær um 60 (sbr. Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007:199). Klaustrið var starfrækt til siðaskipta eða í tæp 400 ár en klausturhúsin og klausturkirkja munu hafa staðið áfram þó ástand þeirra hafi nokkuð hnignað. Sveinn nokkur Torfason sem átti Munkaþverá á 18. öld gerði endurbætur á klausturhúsunum og endurbyggði klausturkirkju, sem fauk 1706. Síðasta klausturbyggingin mun hafa staðið fram yfir aldamótin 1800 en margar eyddust í eldsvoða um 1772. Munu byggingar klaustursins hafa staðið framan við þar sem þáverandi bæjarhús, nokkurn veginn þar sem nú er trjálundurinn sunnan kirkjunnar og klausturkirkjan á svipuðum stað og núverandi kirkja. Það er hins vegar ekki fullljóst, hvort miðaldabyggingarnar hafi staðið á sama stað og byggingarnar á 18. öld. Fyrir áhugasama um ítarlegri umfjöllun um sögu Munkaþverárklaustur bendir höfundur á 10. bindi bókaflokksins Kirkjur Íslands en einnig er saga klaustursins rakin nokkuð ítarlega í Eyfirðingabók sr. Benjamín Kristjánssonar. En víkjum nú að núverandi Munkaþverárkirkju, sem byggð er aðeins fáeinum áratugum eftir að síðustu klausturbyggingar Munkaþverár hurfu sjónum.

Forveri núverandi Munkaþverárkirkju var timburkirkja sem Sveinn Torfason reisti árið 1706 eða 1707 eftir að klausturkirkja frá miðöldum skemmdist í óveðri. Sú var orðin ansi hrörleg í nóvember árið 1843, svo mjög, að prestur neitaði að messa þar lengur en til næsta vors af því ástand hennar væri hreinlega orðið hættulegt (sbr. Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007:203). Og næsta vor, nánar tiltekið í lok maí var kirkja þessi rifin og um sumarið reis ný kirkja og byggingameistari var hinn valinkunni timburmeistari, Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni.

Þorsteinn Daníelsson var fæddur þann 17. nóvember 1796 á Skipalóni í utanverðum Hörgárdal og bjó þar lengst af. Hann nam snikkaraiðn í Kaupmannahöfn undir handleiðslu meistara að nafni Jónas Isfeldt og lauk prófi um vorið eftir. Prófstykki hans var saumakassi úr mahogany með inngreiptum skreytingum, póleraður og spónlagður. Þegar ævisaga Þorsteins var rituð, fyrir rúmum sextíu árum síðan, var sá gripur enn til og varðveittur á Iðnminjasafninu sem svo var nefnt (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:199). Þorsteinn var mikilvirkur smíðameistari á Eyjafjarðarsvæðinu og nærsveitum á 19. öldinni en fékkst einnig við útgerð og jarðrækt, brautryðjandi á báðum sviðum. Þorsteinn reisti margar kirkjur og íbúðarhús, auk þess að smíða báta og skip. Á Akureyri standa a.m.k. tvö hús Þorsteins, Minjasafnskirkjan við Aðalstræti (upprunalega reist á Svalbarði árið 1846) og Eyrarlandsstofa í Lystigarðinum (talin byggð 1844 eða ´48) en Þorsteinn reisti einnig Möðruvallakirkju í Hörgárdal. Á Hofi í fyrrum Arnarneshreppi stendur tæplega 200 ára gamalt hús Þorsteins, sem kallast Hofsstofa, byggð 1828, og á Skipalóni reisti Þorsteinn smíðahús árið 1843 sem enn stendur. Eitt fyrsta hús Þorsteins var Lónsstofa á Skipalóni, byggð árið 1824 og á því 200 ára afmæli í ár! Mun það annað hús Eyjafjarðarsvæðisins á seinni öldum (klukknaport framan Möðruvallakirkju frá 1781 er hæpið að flokka sem hús) til þess að ná 200 ára aldri en nærri þrír áratugir eru síðan Laxdalshús náði þeim mjög svo virðulega aldri. (Það verður svo ekki fyrr en 2035 að fjölgar í hópi tveggja alda gamalla húsa á Akureyrarsvæðinu er Gamli Spítalinn og Skjaldarvíkurstofa (talin hluti Gránufélagshúsanna) fylla 200 árin).

Það er til nokkuð skilmerkilega skrásett hvenær byggingaframkvæmdir hófust á Munkaþverárkirkju en svo vill til, að það var nánast upp á dag 100 árum fyrir lýðveldisstofnun; grunnurinn var hlaðinn 18. og 19. júní 1844 og hann frágenginn um miðjan júlí. Fullbúin var kirkjan síðsumars og var vígð sunnudaginn 15. september. Þetta þótti nokkuð mikill byggingarhraði enda sagt að „vinnuharka Danielsen [en svo var Þorsteinn Daníelsson jafnan nefndur] og eftirrekstur hafi keyrt fram úr öllu hófi, og unni hann hvorki sér né öðrum svefns né matar” (Kristmundur Bjarnason 1961:261). Munu smiðir hafa skotið á fundi þegar þeim ofbauð svefnleysið og vinnuharkan og rætt hvað þeir gætu gert til þess að fá stundarhvíld. Segir sagan, að einn hafi tekið upp á því að látast sofna og þegar Þorsteinn kom að honum, hafi hann sprottið upp og sagt hafa dreymt að andskotans amtmaðurinn þeysti að Lóni á Rauð sínum. Við þetta hafi Þorsteini brugðið og riðið þegar í stað heim að Lóni, en af þessu mætti ráða, að Þorsteinn hafi verið trúaður á drauma og mjög var hann hræddur um konu sína gagnvart Grími amtmanni (sbr. Kristmundur Bjarnason 1961:262). En væntanlega hafa smiðir geta slakað á meðan Þorsteinn var í burtu þann daginn. Þorsteinn hefur pískað sína menn grimmt áfram við smíði Munkaþverárkirkju, enda þekktist ekkert sem hét vinnulöggjöf, lögboðin matarhlé eða hvíldartími. Annað var þó aldeilis uppi á teningnum hjá Ólafi Briem við byggingu Saurbæjarkirkju hálfum öðrum áratug síðar, þar sem þess var gætt, að kirkjusmiðir fengju nóg af brennivíni til hressingar við vinnuna!

Munkaþverárkirkja er einlyft timburhús með háu risi og stendur á hlöðnum grunni. Veggir eru klæddir slagþili og bárujárn er á þaki. Á mæni er ferstrendur turn með innsveigðu pýramídalaga þaki og er það klætt skarsúð. Á turninum er ekki kross, heldur vindhani með fangamarki Kristjáns konungs áttunda. Þrír gluggar eru á hvorri hlið, fjórir á kórbaki og þrír á framhlið; tveir sitt hvoru megin við inngöngudyr og einn undir rjáfri. Í flestum gluggum eru sexrúðupóstar. Þá er smár gluggi á turni. Á suðurhlið er kvistur, nokkurn veginn á miðri þekju. Samkvæmt vefsíðu Minjastofnunar er grunnflötur Munkaþverárkirkju 13,33x6,94m og Kristmundur Bjarnason segir hana 6,10 m á hæð að mæni. (Greinarhöfundur giskar á, að hæð upp að toppi turns sé eitthvað nærri 9 metrum).

Tveimur mánuðum eftir vígslu kirkjunnar, 16. nóvember 1844 vísiterar prófastur, H. Thorlacius kirkjuna og lýsir henni m.a. á eftirfarandi hátt: Hún er að lengd 20 ¼ alin þar af er lengd framkirkjunnar inn að kórs skilrúmi 13 álnir. Breidd hennar er 10 ¼ alin, hæð hennar frá gólfi upp á efri bitabrún 4 álnir, 10 þumlungar, frá efri bitabrún upp í sperrukverk 5 álnir, 10 þumlungar. Í framkirkjunni eru, fyrir utan krókbekk og þverbekk framan við kórs skilrúmið 18 sæti, eins og í kórnum er umhverfis tilhlýðilegir bekkir. […] Húsið er umhverfis að bindingsverki, klætt utan með slagborðum og panel, standþil grópað að innan með tvöföldu þaki, súðþak að innan. Í kirkjunni allri er vel lagt þilgólf á þéttum aurstokkum, festum í fótstykki á hvörju [svo] húsið hvílir. […] Upp af fremri burst kirkjunnar er byggður upp fagur turn með stöng þar upp af, á hvörri [svo] leikur vindhani úr látúni, járnbryddur, gagnhöggvinn með fangamerki vors allra mildasta konungs Kristjáns áttunda. Uppi í turninum eru kirkjunnar tvær góðu, gömlu klukkurnar á nýjum rambhöldum með nýjum járnumbúnaði (Guðrún, Stefán, Gunnar 2007:204). Vísitasíulýsingin er auðvitað mikið lengri og ítarlegri en hér er stiklað á því stærsta. Hún tekur þó af öll tvímæli um það, að turninn hefur verið á kirkjunni frá upphafi svo og vindhaninn en turnbyggingar voru ekki algengar á íslenskum kirkjum fyrir miðja 19. öld.

Fljótlega virðist sem borið hafi á leka í kirkjunni, nánar tiltekið í gegnum turn meðfram turnstöng, en árið 1849 var „duglegur timburmaður” sagður að störfum að gera við lekann og kirkjan bikuð ásamt neðri hluta turnsins. Árið 1861 var kvisturinn settur á þak suðurhliðar. Leki virðist hafa verið nokkuð þrálátt vandamál á tjörguðum kirkjuþökum (og væntanlega öðrum slíkum þökum) 19. aldar. Þegar áratugirnir líða virðast fúi og leki fara að verða nokkuð til vandræða, en árið 1887 var þakið, að turninum undanskildum járnvarið. Í vísitasíu árið 1900 er ytra byrði kirkjunnar sagt „stórgallað af fúa, sömuleiðis turninn, en [kirkjan] að öðru leyti vel stæðileg“ (Guðrún, Stefán, Gunnar 2008:209). Um 1911 var ofn settur í kirkjuna en á næsta áratug er mikið rætt um framtíð kirkjunnar á Munkaþverá. Skal gert við hana eða einfaldlega byggð ný kirkja? Um 1920 leggur prófastur til að klæðning sé endurnýjuð og um leið skuli vindhani fjarlægður og járnkross settur í staðinn. Mögulega hefur það þótt stinga í augu, að nýfengnu fullveldi og sjálfstæði í bígerð, að á kirkjunni væri merki Danakonungs. En vindhaninn prýðir kirkjuna enn! Árið 1924 er skráð í vísitasíu, að söfnuður hafi beinlínis gefist upp á hinu áttræða guðshúsi og vilji byggja nýtt á „hentugri og fallegri stað“. Felur biskup þá húsameistara að gera teikningu að nýrri 170-180 manna kirkju en fátt um svör. Það vildi nefnilega svo til, að Munkaþverárkirkja átti hauk í horni þar sem var Guðjón Samúelsson, húsameistari ríkisins. Guðjón Samúelsson vildi nefnilega endilega halda í hina gömlu timburkirkju og bauð fram ráðgjöf sína til viðgerðar kirkjunni, svo hún yrði „söfnuðinum fyllilega samboðin”. Söfnuðurinn samþykkti þetta, en vildi þó eiga teikningar að nýju kirkjunni í bakhöndinni. Viðgerð fór fram um 1932 og tveimur árum síðar var lagt rafmagn í kirkjuna til lýsingar (sbr. Guðrún, Stefán, Gunnar 2007:212). Sama ár, þ.e. 1934, var kirkjan einnig virt til brunabóta og segir í matslýsingu m.a. að í kirkjunni, sem mælist 13,3x6,9m að grunnfleti og 6,3m há, sé kolaofn með járnpípu í steinsteyptri kápu og leirrör uppúr þakinu í stuttri múrpípu. Haft er á orði, að vel sé um þetta búið og hafi svona verið í mörg ár og ekki komið að sök (sbr. Björn Jóhannsson, 1934). Sjálfsagt er þarna átt við hvort tveggja brunavarnir og leka.

Á aldarafmælinu 1944 fóru einnig fram gagngerar endurbætur á kirkjunni, sem hafði nokkuð látið á sjá þrátt fyrir viðgerðirnar áratug fyrr. Steypt var utan um grunnhleðslu og kirkjan máluð að innan hátt og lágt auk nokkurra breytinga og endurnýjunar að innanverðu. Til málningarvinnunnar var ráðinn hinn valinkunni málarameistari Haukur Stefánsson. Nokkrum árum fyrr hafði prófastur mælt með því, að ekki aðeins yrði sökkullinn múrvarinn heldur kirkjan öll múrhúðuð (forsköluð) að utan (sbr. Guðrún, Stefán, Gunnar 2007:212). Til allrar lukku varð ekkert úr því, en nú er vitað að „forskölun” er einn versti óvinur gamalla timburhúsa. Hins vegar var kirkjan klædd asbestplötum árið 1955 en þeirri klæðningu var skipt út fyrir slétt járn skömmu síðar. Árið 1985 fóru fram gagngerar endurbætur á Munkaþverárkirkju eftir forskrift arkitektanna Stefáns Jónssonar og Grétars Markússonar en sá síðarnefndi mældi upp kirkjuna og gerði að henni teikningar. Umsjón með þessum framkvæmdum, sem færðu hina þá 140 ára kirkju nokkurn veginn til upprunalegs horfs sá Tryggvi Hjaltason á Rútsstöðum II. Fjórum áratugum síðar virðist kirkjan, sem í sumar á 180 ára afmæli, í prýðis góðu ásigkomulagi, hefur eflaust hlotið fyrirtaks viðhald alla tíð síðan.

Munkaþverárkirkja var friðlýst skv. ákvæði þjóðminjalaga árið 1990. Hún er elst kirknanna sex í Eyjafjarðarsveit og mun þriðja elsta varðveitta timburkirkja landsins (sbr. Guðrún, Stefán og Gunnar 2007:216), á eftir Knappsstaðakirkju í Stíflu (1840) og Bakkakirkju í Öxnadal, sem aðeins er árinu eldri, eða byggð 1843. Munkaþverárkirkja mun rúma um 160 manns í sæti og í henni er reglulega helgihald og athafnir. Líkt og allar hinar fimm kirkjur Eyjafjarðarsveitar er hún sérleg prýði og perla í umhverfi sínu. Þá er umhverfi hennar einstaklega geðþekkt, en umhverfis hana er nokkuð víðlendur og vel hirtur kirkjugarður, prýddur miklum trjágróðri. Skammt norðan kirkjunnar stendur áhaldahús, sem byggt hefur verið í stíl við kirkjuna. Sunnan kirkjunnar, þar sem talið er að klaustrið hafi staðið á miðöldum er stytta af Jóni biskupi Arasyni eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal. Styttan var gerð 1954 og vígð formlega í ágúst 1959. Kirkjan, gróskumikill kirkjugarðurinn og bæjarhús Munkaþverár mynda sérlega fallega, órofa heild í fagurri sveit. Myndirnar eru teknar þann 7. október 2023.

Hér með lýkur yfirferð undirritaðs um kirkjur Eyjafjarðarsveitar. Greinum þessum er auðvitað aðeins ætlað að stiklað á stóru og kannski vildu einhverjir sjá meira kjöt á beinum” þessara umfjallana. Þeim skal bent á 10. bindi bókaflokksins Kirkjur Íslands (sjá heimildaskrá). Þar er rakin ítarlega byggingarsaga kirknanna, auk þess sem sagt er frá innra skipulagi þeirra, gripum, munum og -öðru slíku.

Heimildir: 

Björn Jóhannsson. 1934. Brunavirðingar húsa í Öngulsstaðahreppi. Handskrifuð minnisbók, varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Guðrún Harðardóttir, Stefán Örn Stefánsson, Gunnar Bollason 2007. Munkaþverárkirkja. Í Jón Torfason og Þorsteinn Gunnarsson (ritstj.): Kirkjur Íslands. 10. bindi. bls. 197-241. Reykjavík: Þjóðminjasafn í samvinnu við Húsafriðunarnefnd, Fornleifavernd, Biskupsstofu, Minjasafnið á Akureyri og Byggðasafn Dalvíkur.

Benjamín Kristjánsson. 1968. Eyfirðingabók I. Akureyri: Bókaforlag Odds Björnssonar.

Guðmundur Páll Steindórsson, Jóhannes Sigvaldason, Kristján Sigfússon. 1993. Byggðir Eyjafjarðar 1990. Akureyri: Búnaðarsamband Eyjafjarðar.

Kristmundur Bjarnason. 1961. Þorsteinn Daníelsson á Skipalóni. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs.

Ýmsar upplýsingar af vef m.a. minjastofnun.is, esveit.is o.fl.

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30