Fara í efni
Pistlar

Hús dagsins: Hafnarstræti 107

Útvörður Hafnarstrætis í norðri er hið mikla stórhýsi, sem löngum hefur verið kennt við Útvegsbankann. Stendur það við rætur Brekkunnar norðan megin neðan Skátagils, en þeim megin gerist brekkan ávalari en sunnan giljanna, Skáta- og Grófargils. Líkt og á öllum lóðum við þennan ysta hluta Hafnarstrætis að vestanverðu er ekki um að ræða upprunalegt hús á lóðinni.

Fyrst reis hús á þessari lóð árið 1897, en það reistu þau Júlíus Sigurðsson bankastjóri og Ragnheiður Benediktsdóttir (systir Einars Benediktssonar, skálds og athafnamanns). Stundaði Ragnheiður eins konar búskap og átti túnblett á bak við, þar sem nú eru Bjarmastígur og Oddeyrargata en þetta var löngu fyrir tíma þéttbýlis á neðri Brekkunni. Júlíus lést 1936, en Ragnheiður gerði sér lítið fyrir, orðin 78 ára, og reisti sér nýtt hús örlítið ofar í Brekkunni, Bjarmastíg 7, árið 1938. Í febrúar 1953 mátti sjá umrætt hús auglýst í Degi, til niðurrifs eða brottflutnings . Til allrar lukku var hið síðarnefnda raunin og stendur hús þeirra Júlíusar og Ragnheiðar enn – nefnilega á Ránargötu 13 á Oddeyri. Það er ætíð gleðilegt – og að áliti höfundar æskilegra en hitt – ef hús verða nauðsynlega að víkja, að þau séu flutt og öðlist þannig „framhaldslíf“ á nýjum slóðum.

Núverandi hús á Hafnarstræti 107 reisti Útvegsbankinn árið 1954, og hefur húsið löngum verið kennt við hann. Enda þótt húsið sé eitt af stærstu húsum Miðbæjarins hafði bygginganefnd ekki mörg um orð um byggingarleyfið til bankans, í júní 1954. Efnislega segir einfaldlega að bankinn fái að byggja á lóðinni fjögurra hæða hús á kjallara, fullnaðarteikningar fylgi, og skuli því lokið á fimm árum. Teikningarnar að húsinu gerði Bárður Ísleifsson, en hann starfaði m.a. með Guðjóni Samúelssyni, Húsameistara ríkisins og á heiðurinn af mörgum opinberum byggingum víða um land. Upprunalegar teikningar Bárðar eru ekki aðgengilegar á kortasjá Akureyrar, en þar má finna teikningar Stefáns Reykjalín frá 1961, með lítils háttar breytingum sem gerðar voru á húsinu.

Húsið er fjögurra hæða steinsteypuhús á lágum kjallara og með háu valmaþaki. Efsta hæð er örlítið inndregin á framhlið og eru þar svalir. Bárujárn er á þaki og veggir múrsléttaðir og þverpóstar í flestum gluggum, stórir „verslunargluggar“ á fyrstu hæð. Gluggar 2. og 3. hæðar eru inndregnir og afmarkaðir í ramma og breiðir stöplar á milli gluggapara en mjórri súlur á milli stakra glugga. Á miðri framhlið og bakhlið eru þrír gluggar í ramma í miðju en þrenn gluggapör hvoru megin við. Á norðurstafni hússins eru hins vegar fáir gluggar þar er húsið áfast viðbyggingu við Brekkugötu 1.

Sem fyrr segir var húsið um árabil aðsetur Útvegsbankans, en þarna voru einnig verslanir og veitingastaðir í norðurenda fyrstu hæðar, m.a. Verslunin Vísir sem fluttist í húsið 1961, en fram að því var þarna veitingastofa sem nefndist einfaldlega Matur og kaffi. Síðustu áratugi hefur húsið verið aðsetur Sýslumannsins á Akureyri. Þá eru einnig í húsinu Héraðsdómur Norðurlands, Tollstjóri, Sjúkratryggingar og Tryggingastofnun. Hefur húsið oft tekið hinum ýmsu breytingum að innan, síðast um 2017. Þá mun á tímabili hafa verið búið í húsinu; húsvarðaríbúð á efstu hæð.

Hafnarstræti 107 er reisulegt og traustlegt hús og eitt af helstu kennileitum Miðbæjarins og Ráðhústorgs. Húsið er að mestu lítið breytt frá upphaflegri gerð að ytra byrði. Í Húsakönnun 2014 er það ekki talið hafa varðveislugildi sem slíkt en er hluti húsaraðar, sem hefur nokkurt gildi. Eiginlega má segja, að húsið sé einnig þátttakandi í syðstu húsaröðinni í „Miðbæjarhluta“ Brekkugötu. Þar er hins vegar um að ræða mun eldri og yfirleitt lágreistari hús. Myndirnar eru tvær, annars vegar sú hlið hússins sem blasir við þegar horft er til SV frá Ráðhústorgi, þ.e. framhliðin. Hins vegar mynd af suðurstafn og bakhlið, en hún er tekin neðst í Skátagili. Myndirnar eru teknar þ. 17. ágúst 2020.

Heimildir:

Byggingarnefnd Akureyrar. Fundargerðir 1948-57. Fundur nr. 1193, 4. júní 1954. Óprentað, óútgefið; varðveitt á Héraðsskjalasafninu á Akureyri.

Steindór Steindórsson. 1993. Akureyri; höfuðborg hins bjarta norðurs. Reykjavík: Örn og Örlygur

_ _ _

  • Í síðustu grein nefndi höfundur, að sér væri ekki kunnugt um að búið hefði verið í Landsbankahúsinu. Svo mun hafa verið um árabil, en þar var lengi vel húsvarðaríbúð. Þakka Jóni Þ. Þór kærlega fyrir ábendinguna.

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30