Fara í efni
Pistlar

Hrossakjöt í þriðja hvert mál

ORRABLÓT - XXIII

Þegar ég hóf nám við Þelamerkurskóla haustið 1980 réðu sómahjónin Sæmundur Bjarnason og Guðrún Jónsdóttir þar ríkjum. Hann var skólastjóri og hafði verið lengi og hún kenndi yngstu börnunum af alúð og almennum elskulegheitum.

Sæmundur var úrræðagóður. Hann var í hestum og um haustið felldi hann bikkju eða tvær, sem höfðu séð betri daga, og fyrir vikið var hrossakjöt í matinn alla vega þriðja hvern dag í skólanum fram á vorið. Bæði í hádeginu fyrir alla nemendur og á kvöldin fyrir elstu þrjá bekkina sem voru á heimavist. Sjálfur var ég aldrei á vistinni og naut því aðeins meiri fjölbreytni í fæðuvali.

Sómahjónin Sæmundur Bjarnason og Guðrún Jónsdóttir. Hann var skólastjóri og hafði verið lengi þegar Orri Páll kom í skólann og hún kenndi yngstu börnunum af alúð og almennum elskulegheitum. Myndin birtist í Morgunblaðinu í maí 1979 eftir að fréttaritari blaðsins kom í heimsókn.

Enda þótt Rósa ráðskona Randversdóttir, sem síðar varð tengdamóðir Þorvaldar Örlygssonar, formanns KSÍ, matreiddi kjötið af listfengi þá var maður alveg kominn með upp í kok um vorið og get varla sagt að ég hafi lagt mér hrossakjöt til munns síðan. Rósa frænka mín var eldklár í eldhúsinu og bjó til dæmis til fantagott brauð með mysingi, svo eitthvað sé nefnt. Blessuð sé minning hennar!

Sæmundur settist í helgan stein eftir þennan fyrsta vetur og við tók Sturla Kristjánsson, áður fræðslustjóri. Honum fylgdi sonurinn, Snorri Sturluson, síðar útvarps-, íþróttafrétta- og verslunarmaður.

Fámennt en góðmennt var í kennaraliðinu. Sigurgeir Guðmundsson leit út fyrir að hafa stigið beint út úr kvikmyndinni Útlaganum, vörpulegur maður á velli og þéttskeggjaður. Enginn vogaði sér að standa í hnútukasti við hann.

Ljúfmennið Guðmundur Lárus Helgason var í miklu uppáhaldi hjá okkur krökkunum enda frábær kennari. Samt greindi okkur á um það hvort vaff væri í nafninu hans. Ég meina, það er jú vaff í Gvuð, er það ekki?

Guðmundur Lárus Helgason kennari og knattspyrnumennirnir Eric Gates, Bruce Grobbelaar – Skrú Skrúbbelú – og Bryan Robson auk Arsenal hetjunnar Michael Thomas og stjóra liðsins George Graham, eftir að Arsenal varð Englandsmeistari 1989.

Kristján á Blómsturvöllum kenndi mér mest fyrsta árið, fínn kennari en leit út fyrir að vera uppi á rangri öld. Það var engu líkara en að almættið hefði sótt hann til 1850 og fleytt honum fram um 130 ár. Raunar er alls ekki hægt að útiloka að þetta hafi raunverulega gerst. Vegir almættisins eru sem kunnugt er órannsakanlegir.

Kjartan Heiðberg var ungur maður og ferskur, altalandi á dönsku. Kona hans, Ósk Ársælsdóttir, var líka við hirðina og börn þeirra, Anna María og Ársæll, vermdu skólabekkina með okkur hinum. Það gerðu líka Haraldur og Davíð, synir leikfimikennarans, Halldórs Sigurðssonar, sonar sr. Sigurðar Guðmundssonar á Grenjaðarstað og síðar vígslubiskups á Hólum.

Sjálfur var ég reyndar líka kennarasonur en pabbi kenndi við Þelamerkurskóla frá 1980-83.

Saumakennarinn hét Bergþóra, eldri kona og mikið ljúfmenni. Hún fékk stundum far með okkur pabba úr bænum á morgnana og laumaði þá iðulega að mér brjóstsykri. Saumar áttu ekki við mig og þegar ég var búinn að vera með sömu pínulitlu útsaumuðu myndina alla önnina greip Bergþóra inn í og kláraði hana fyrir mig, af aðdáunarverðu fumleysi og fagmennsku. Mamma varð ægilega stolt af þessum duldu hæfileikum sonar síns þegar ég gaf henni myndina um vorið.

Við höfum þetta okkar á milli, lesandi góður, alls ekki segja mömmu frá þessu!

Fallegur útsaumur, reyndar ekki listaverkið sem Orri gerði (ekki) og færði móður sinni, þótt það virðist reyndar ekki óhugsandi þegar verkið er skoðað gaumgæfilega ... Vísindavefurinn segir að á myndinni til hægri séu þeir Grettir og Glámur.

Yfirleitt fór ég fram og til baka með pabba en þó kom fyrir að ég fékk far með Dodda á skólabílnum, Þóroddi Gunnþórssyni. Það var eldhress náungi og lengi á eftir mælikvarði á hressleika í mínum huga. Jafnvel enn. Annars eru Doddar alla jafna mjög ferskir menn og kotrosknir. Finnst ykkur það ekki?

Doddi átti marga bræður sem flestir voru bílstjórar. Eins greip Ómar sonur hans í stýri.

Gríðarlegur áhugi var á ensku knattspyrnunni meðal nemenda og áttu allir, strákar og stelpur, sitt lið og þekktu ekki bara alla leikmenn með nafni heldur líka ömmur þeirra. Ég get svo svarið það.

Flestir fylgdu Manchester United að málum og eitt haustið voru nær allir strákarnir í unglingadeildinni komnir með kindakrullur (e. permanent) að hætti átrúnaðargoðsins Bryans Robsons. Meeeee! Mergjuð tíska sem mætti mín vegna alveg snúa aftur.

Liverpool naut líka lýðhylli, ekki síst gaurinn sem tók við hönskunum af Ray Clemence sumarið 1981, Skrú Skrúbbelú. Hann reyndist að vísu heita Bruce Grobbelaar, þegar betur var að gáð. En Gúgúll frændi var vitaskuld ekki fæddur á þessum tíma. Ekki einu sinni orðinn hugmynd.

Ég held að ég hafi verið eini Arsenal-maðurinn í skólanum og gott ef Pétur í Grjótgarði studdi ekki Ipswich Town; alltént pantaði hann alltaf að vera Eric Gates þegar við fórum út í fótbolta í frímínútum. Eftirminnileg týpa, Pétur. Spyrnt var í öllum frímínútum og helst líka fyrir og eftir skóla.

Nemendur voru ekki síður tónelskir og vissu flestir hverjir allt um nýjustu stefnur og strauma í poppinu og rokkinu. ELO, Electric Light Orchestra, þótti svalasta bandið, þá komu bönd eins og Yazoo, Orchestral Manoeuvres in the Dark, öðru nafni OMD og Human League en Abba og Kiss þóttu gamlar lummur. Hvað þá Bítlarnir og Rolling Stones. Þetta var sumsé áður en poppið fór að fara í hringi.

Menn músíseruðu líka sjálfir, ekki síst synir Ingólfs húsvarðar, Trausti Már og Jón Kjartan, iðulega kallaður Jón spæjó. Þeir urðu síðar landsfrægir með Stuðkompaníinu, ásamt öðrum bræðrum, Karli og Atla Örvarssonum, og Magna Gunnarssyni gítarleikara, sem einnig stundaði nám á Þelamörk. Á árshátíðum og skólaskemmtunum áttu þessir menn sviðið.

Trausti hlóð einu sinni í ógleymanlegt atriði með bekkjarfélögum sínum á skólaskemmtun. Þá mæmuðu þeir Catcher Comin' með Baraflokknum með miklum tilþrifum og Hallur á Brávöllum, ákaflega físískur fír, plokkaði bassann eins og enginn væri morgundagurinn. Óborganlegt stöff.

Ekki var minna lagt upp úr leiklist og metnaður mikill á árshátíðum, hvert meistarastykkið rak annað. Ég man eftir Deleríum Búbónis, Nakinn maður og annar í kjólfötum og svo færði pabbi einu sinni upp glímuna milli Grettis og Gláms með tilheyrandi ærslum og draugagangi. Ég svaf illa í margar nætur á eftir.

Mínir nánustu menn á Þelamörk voru bekkjarbræðurnir, Fúsi á Einarsstöðum, Arnar í Vindheimum og Steini spekingur. Afbragðspiltar, allir með tölu. Ingólfur fóstri minn Jónsson var með okkur fyrsta árið en var fluttur í bæinn og færði sig yfir í Glerárskóla. Síðar bættist í hópinn Bóbó frá Fagraskógi. Stelpurnar í bekknum voru líka fínar, Dóra á Blómsturvöllum, dóttir Kristjáns, og Maja í Lönguhlíð sem var svo aftur með mér í bekk í MA.

Aðeins eldri var meinfyndinn gaur sem heitir Jón Kornelíus Magnússon, kallaður Korni. Honum var margt til lista lagt en ekki endilega á sviði tungumála. Einn daginn var verið að vinna með sagnir í enskutíma og Korni fékk það verkefni að nota sögnina „to be“ í setningu. Þungt var yfir okkar manni í fyrstu en síðan skíðlogaði hann skyndilega eins og jólasería. Lausnin var fundin:

„I fuck you to be!“

Kennarinn varð alveg klumsa.

En kannski var það bara út af öllu hrossakjötsátinu.

Orri Páll Ormarsson er fæddur 1971. Hann ólst upp á Akureyri, er Þorpari, Þórsari, og blaðamaður á Morgunblaðinu. Pistlar hans fyrir Akureyri.net birtast hálfsmánaðarlega, á föstudögum.

Gosdrykkjan

Jóhann Árelíuz skrifar
26. janúar 2025 | kl. 11:00

Seldi upp án þessa að missa úr skref

Orri Páll Ormarsson skrifar
24. janúar 2025 | kl. 13:00

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30

Ódi

Jóhann Árelíuz skrifar
19. janúar 2025 | kl. 06:00