Fara í efni
Pistlar

Hitakompa

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 7

Á tímum eftirstríðsáranna þurfti að byggja ósköpin öll af húsnæði fyrir stóru fjölskyldurnar sem urðu til á tímum kaupstaðaflutninga og kjarabóta.

Það voraði í veskjum venjulegs fólks.

Og enda þótt höft og skömmtun væru enn þá vanabiti almúgans á þessum tíma var vongleðin slík að menn mokuðu fyrir grunni og steyptu vegg í glannabítið, áður en mætt var til vinnu. Og svo var slegið utan af í dagslok.

En þannig risu heilu hverfin í heimabænum. Með handafli feðra og mæðra þessa lands sem naglhreinsuðu með nestisboxið við hliðina og kaffibrúsann nálægan. Og krakkaskarinn í pössun allan tímann, hjá afa og ömmu.

Annars hafðist þetta ekki.

En ég var alinn upp í hurðalausu húsi í Álfabyggðinni. Og stiginn upp á loft var lengi vel til bráðabirgða. Gott ef teppin voru ekki sett á gólfið í þann mund sem við fluttum um hverfi af því að krógunum fjölgaði full til mikið.

Húsnæðið var hrátt. Það var viðkvæðið. Enda varð að safna fyrir því sem átti að eyða. Og spreða ekki um efni fram. En eignast svo hlutina hægt og rólega.

Því var hitakompan lengi vel án handriðs. Og ég hef líklega ekki verið nema fjögurra ára, búinn að læra full til vel á pedalana á þríhjólinu svo að ekki væri hægt að halda aftur af því.

Og þegar ég sveif fram af brúninni hefur einhver gæfa verið yfir mér. Því ég lifði fallið af – og lendinguna líka, en lítið eitt hnjaskaður á öxl og herðablaði.

En það var ekkert sérstaklega rætt um atvikið, hvorki hvunndags né í fjölskylduboðunum. Því svona væri þetta bara. Hættur væru víða.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: HAGKAUPSSLOPPUR

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00