Fara í efni
Pistlar

Heilsukvíði

Fræðsla til forvarna - XXIV

Heilsukvíði er það nefnt þegar einhver hefur ýktar og óeðlilega miklar áhyggjur af heilsunni. Hver minnstu óþægindi valda ótta um að framundan séu alvarleg veikindi og heilsutap og ef læknirinn bregst ekki strax við áhyggjunum, fær sá kvíðni á tilfinninguna að veikindin séu falin eða svo dularfull og óvenjuleg að læknirinn finni ekkert við athuganir. Bæði lækninum og sjúklingnum getur liðið illa í samvinnunni því sjúklingurinn er kominn með heilsuna á heilann og þó að vel takist til að losna við eitthvert sjúkdómseinkennið kemur fjótt nýtt í staðinn og heimsóknum til læknisins fjölgar með kröfum um enn fleiri rannsóknir. Læknirinn getur líka smitast af óttanum um að missa af einhverjum sjúkdómi því það er það versta sem læknar vita. Og ef læknirinn, í tilraun til að róa sjúklinginn, missir út úr sér að þetta sé nú ekkert alvarlegt, þá finnst sjúklingnum hann ekki fá nægilegan skilning og snýr sér að öðrum lækni og nýjar rannsóknir og tilheyrandi áhyggjur taka við. Blóðprufur og myndgreiningar eru orðnar svo nákvæmar að stundum finnast breytingar, skuggar eða hækkuð gildi, sem hafa í raun ekkert með einkennin að gera en valda enn meiri áhyggjum og kröfum um fleiri og flóknari rannsóknir og mikil hætta er á vítahring og sjúkdómsvæðingu og í kjölfarið enn meiri kvíða og áhyggjum.

Orðið heilsukvíði er ekki sjúkdómsgreining heldur lýsing á líðan. Allir þekkja það að fá heilsukvíða og oftast tekst að ná tökum á honum hvort sem maður gerir það einn eða með lækni sínum. En þeir sem eru með svo sterkan og sjúklegan kvíða tengdan heilsunni, að hann verður truflandi, óeðlilegur og langvinnur, fá oftast eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

  • Kvíðablandin depurð (Depressive Anxiety Disorder)
  • Áráttu-þráhyggju röskun (Obsessive Compulsive Disorder, OCD)

eða

  • Sállíkamlegur sjúkdómur (Somatization Disorder).

Hugtök eins og ímyndunarveiki eða histería eru núorðið ekki notuð og eiga ekki lengur við hér. Á þessu sviði eru til mjög örugg greiningartækni sem geðlæknar og heimilislæknar kunna vel og hér skiptir miklu máli að samvinna sjúklings og læknis sé góð og að traust ríki. Ágætar meðferðir eru í boði sem eru fræðsla, stuðningur, sérhæfar samtalsmeðferðir og stundum lyfjameðferðir. Horfur á bata eru oftast góðar en þó verður að segjast að í alvarlegustu tilfellum geta slík veikindi orðið langvinn og afar truflandi bæði fyrir sjúklinginn og aðstandendur hans þegar hugsun og tal snýst að mestu um upplifanir frá líkamanum eða minnstu breytingar á húð.

Stundum er upplifun sjúklingsins svo sterk og afbrigðileg og hugmyndaflugið takmarkalaust um hvaða líkamlega sjúkdóm geti verið að ræða að þetta verður sterkara en þráhyggja og líkist meira ranghugmyndum.

Það er athyglisvert að sjúklingar sem þjást af heilsukvíða hafa oftast áhyggjur af því að þeir hafi alvarlegan líkamlegan sjúkdóm, eins og krabbamein, taugasjúkdóm eða hormónatruflun en það kemur þó fyrir að þeir óttist að veikjast af geðsjúkdómi en það er sjaldgæft.

Í þeim tilfellum sem heilsukvíði fer úr böndum og þörf er fyrir markvissa meðferð þá skiptir samvinna og traust milli sjúklings og læknis miklu máli. Þess vegna er mikils virði að sjúklingurinn eigi auðvelt með að komast að hjá læknunum, fái nægan tíma til að ræða við hann og þurfi ekki að hitta nýjan lækni í hverri heimsókn.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00