Fara í efni
Pistlar

Fallin grös

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 43

Tvennt var það sem afmarkaði upphaf og endi akureyska sumarsins á síðustu öld; fyrsti sláttur og fallin grös. Sá var þó munurinn að háir sem lágir gátu ekki beðið eftir því fyrra, en óttuðust ekkert meira en það síðara.

En þannig leið allur ágústmánuður. Ár fram af ári. Ungdæmið á enda. En það var tönnlast á því í hádegismatnum og það var tuðað um það í kvöldmatnum hvort grösin myndu halda fram í september. Og þar var aldrei nokkurri einustu bjartsýni fyrir að fara í tali heimilisfólksins, heldur var þrúgandi svartagalsrausið svo bölmóðsþrungið fram eftir öllum mánuðinum að sem barnungur snáðinn fékk maður snert af kvíða og þunglyndi.

Því dimmum rómi var spurt fram undir myrkur: Skyldu þau falla í nótt?

En uppskeran yrði bara ekki sjón að sjá ef stilkarnir stæðu ekki ágúst á enda, kváðu þeir fullorðnu upp úr, fölir í framan. Vaxtarkippurinn væri nefnilega mestur síðsumars. Og fengju blessaðar kartöflurnar að spretta fram á haust yrðu þær náttúrlega hvað bragðbestar og matarmestar. Altso, ef allt gengi að óskum. Sem væri nú raunar sjaldnast. Og varla orð á því gerandi. Norðannepjan legðist alla jafna yfir byggðir og bala svo snemma sumars að búsifjarnar væru svo að segja fyrirséðar.

Þessi uppskerukvíði var ekki bara bundinn við mömmu og pabba. Afar manns og ömmur gátu heldur ekki á heilum sér tekið þegar hásumarið var á enda. Því eina hugsunin sem komst að í höfði þeirra var hvort þetta yrði bara bölvað smælki í ár. Sjálfur gat ég ekki annað séð en þetta væru trúarbrögð í minni ætt. Því ekkert væri verðugra á matardiski stórfjölskyldunnar en rauðar íslenskar sem væru jafn bústnar og gildnar og þær ættu að heita fullar af bætiefnum.

En þá mættu grösin ekki falla of fljótt.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: KAUPFÉLAG VERKAMANNA

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00