Ellefu bækur í jólagjöf
EYRARPÚKINN - 8
Ein jólin fékk ég ellefu bækur í jólagjöf og var metið. Þau jól gaf Nonni mér vörubíl úr plasti og gröfu úr sama efni og var ég framkvæmdalegur við kyndingargrindina í holinu.
Plastið ruddi sér rúms í leikfangagerð og voru bíllinn og grafan sunnan úr Reykjalundi þar sem Kalli frændi bjó og vann.
Ég fékk Nonnabók frá Borgu að venju enda þóttu dáðir Nonna og Manna á Skipalóni hollur lestur. Og frændfólk og systkini gáfu mér Óla og Magga, Salómón svarta og Bláu bækurnar endurútgefnar.
Þessi jól eignaðist ég Ellefu strákar og einn köttur og las aftur og aftur. Lánaði ég Stebba litla bókina og ætíð áhöld um hjá hvorum kjölurinn losnaði á meistaraverkinu.
Svo las ég Bob Moranbækur Simma, sögur Böðvars frá Hnífsdal og bækurnar um Baldur og bekkjarliðið.
Þyngri báran í bókum Eysteins unga um Tóa sem fór með varðskipi til borgarinnar við flóann. Virtist Tói einmana á lunningunni með hvolpinn sinn í fanginu og langaði mig ekki til Reykjavíkur.
Jóhann Árelíuz er rithöfundur og skáld.
- Ellefu bækur í jólagjöf er kafli úr Eyrarpúkanum, gáskafullu skáldverki sem gerist á Eyrinni á Akureyri um miðja síðustu öld. Bókin kom út 2003.