Fara í efni
Pistlar

Einn af 411

Þegar handboltastrákunum okkar gengur illa á stórmótum er sjaldan skortur á sérfræðingum sem kunna bæði skýringar á óförunum og eiga óbrigðul ráð til að vinna næsta leik.

Ekki er nema eðlilegt og sjálfsagt að fólk hafi sitt að segja um knattleiki og annað sem skiptir máli í lífinu. Fólki er vel treystandi til að mynda sér skoðanir, líka þótt þær séu vitlausar. Frelsið til að taka til máls og láta að sér kveða er einn af hornsteinum lýðræðisins.

Því frelsi fylgir ábyrgð. Orð okkar geta haft áhrif á fólk. Orð eru til alls fyrst. Þau hrinda af stað rás atburða og geta orðið til bæði blessunar og bölvunar.

Öllu valdi fylgir ábyrgð. Þau sem eru í aðstöðu til að hafa áhrif á líf annarra þurfa aðhald, hvort sem um er að ræða handboltaþjálfara, pólitíkusa eða aðra. Þau þurfa gagnrýni og notkun þeirra á valdinu þarf að standast skoðun. Vald er vandmeðfarið og það er hægt að misnota eins og saga mannsins sýnir.

Gagnrýni okkar á þau sem gegna ábyrgðarstöðum í okkar þágu verður samt að vera málefnaleg. Hún þarf að byggjast á ákveðinni lágmarksþekkingu. Til að gera okkur borgarana það mynduga að okkur sé kleift að taka þátt í lýðræðislegri umræðu þurfum við bæði vandaða fjölmiðla sem kynna okkur hin ýmsu sjónarmið og þroskaða umræðumenningu.

Í Grikklandi hinu forna, þar sem vagga lýðræðisins á að hafa staðið, greindi sagnaritarinn Polybios á milli lýðræðis annars vegar, demókratíu, og múgræðis hins vegar, ochlókratíu. Múgræði ríkir þar sem æstur og illa upplýstur múgur hefur síðasta orðið. Fari landsliðið í handbolta að haga leik sínum eftir reiðilestrum sjálfskipaðra og misviturra handboltasérfræðinga hefur múgræðið náð yfirhöndinni. Það sama hefur gerst ef ráðamenn treysta sér ekki til að taka óvinsælar en nauðsynlegar ákvarðanir af ótta við hneykslun hins æsta múgs.

Þegar ég var að byrja prestsskap úti í Ólafsfirði á sínum tíma var vinur minn og kollegi í sömu sporum í litlu sjávarplássi úti á landi. Nokkrum dögum fyrir fyrstu jólin okkar í embættum áttum við símaspjall um jólaræðurnar. Vinur minn bar undir mig eftirfarandi upphaf á jólaprédikun – sem ég man enn nánast orðrétt:

„Gleðileg jól, kæri söfnuður! Hér í þorpinu búa 412 manneskjur. Þar af hafa 411 vit á því hvernig eigi að moka snjó. Það væri náttúrlega alveg frábært ef ekki kæmi til sú staðreynd, að þessi eini íbúi hér sem ekki kann að moka snjó, einmitt hann sér um að moka snjó í þorpinu.“

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00