Fara í efni
Pistlar

Heilbrigðiskerfið – II

Góður ásetningur og glötuð tækifæri - II

Í framhaldi af grein 1 um hugmyndafræði og fé til heilbrigðismála.

Fram hefur komið í fjölmiðlum að sérfræðilæknar hafa verið samningslausir í nokkur ár en þeir reka sjálfstætt starfandi þjónustueiningar eða læknastofur eins og sagt var áður fyrr. Afleiðingar þessa eru miklar og líka fleiri en komið hefur fram áður.

1 Kjör lækna versna.

2. Kostnaður sjúklinga hefur aukist.

3. Sjúklingatryggingar almennings hafa rýrnað þar sem sjúklingar greiða nú aukagjöld.

4. Ungir læknar vilja ekki koma til starfa í slíku kerfi þar sem óvissa og samningsleysi ríkir og mikilvæg nýliðun hættir þar með. Minna má á að ungu læknunum sem eru að koma úr sérnámi erlendis fylgja oftast mikilvægar úrbætur og nýjungar í meðferð.

5. Stýring heilbrigðisþjónustu glatast. Í samningaviðræðum milli Læknafélags Reykjavíkur sem sá um samningagerð lækna (veitendur heilbrigðisþjónustu) og samninganefndar Sjúkratrygginga (fyrir hönd kaupenda þjónustunnar) var samið um kaup og kjör. En þar fór líka fram samtal um hvaða nýjungar væru í boði, hvernig hagkvæmast væri að veita ákveðna þjónustu, hvaða sérþekking væri nauðsynleg fyrir ákveðin verkefni og hvernig best væri að sinna landsbyggðinni. Þetta og ýmislegt fleira ræddu og sömdum um sérfræðingar í lækningum og fjármálum beint og milliliðalaust. Og þó að oft væri tekist á þá ríkti traust yfir samningaborðið. Þess konar samvinna hefur ekki farið fram á tímabili samningsleysisins sem er orðið nokkur ár. Þar hafa glatast mikilvæg tækifæri til úrbóta og eflingar. Sá hluti starfssemi heilbrigðiskerfisins sem tilheyrir sjálfstætt starfandi starfssemi er sveigjanlegri en stóri Landspítalinn og getur rekið starfssemina hagkvæmara og það eru til góðar rekstrarupplýsingar um það. Slíkur sveigjanleiki getur líka að hluta leyst fráflæðivanda Landspítala. Aukin samvinna milli ríkisrekinna og sjálfstætt starfandi stöðva væri góð leið. Hún er farin í flestum löndum í kring um okkur sem hafa öflugt heilbrigðiskerfi. En hérlendis hefur verið mikil mótstaða gegn þessu. Sú mótstaða er ekki á faglegum grunni heldur pólitískum. Ef reynt er að rýna í pólitíska ábyrgð á umræddu samningsleysi hér þá hefur naumskömmtunarstefna fjármálaráðuneytis Sjálfstæðisflokks veitt of litlu fjármagni til Sjúkratrygginga til að hægt væri að semja og það hentaði Vinstri Grænum sem stýrðu heilbrigðiskerfinu þar til nýlega. Þeir sáu rautt í öllu sem talið var líkjast einkavæðingu og virtust nánast leggja fæð á sjálfstætt starfandi lækna. Heilbrigðisþjónusta veitt af sjálfstætt starfandi stöðvum á Íslandi hefur ekki verið veitt í formi einkarekinnar starfsemi heldur er um að ræða sjálfstæðar, hagkvæmar og sveigjanlegar rekstrareiningar sem keppst hafa um að veita vel skilgreinda, hagkvæma þjónustu greidda af ríkinu, sem allir hafa jafnan aðgang að. En samningsleysið hefur valdið því að nú er að myndast ný rekstrarform og segja má að einkavæðing heilbrigðiskerfisins sé hafin. Flestum læknum sem ég ræði við er alveg sama um stjórnmál. Þeir vilja bara fá að veita sjúklingunum faglega og hagkvæma þjónustu og þiggja eðlilega þóknun fyrir. Næsta stig í einkavæðingunni er handan við hornið og þá verða starfsstöðvarnar ekki lengur í eigu læknanna sjálfra heldur fjármagnseigenda.

  • Hagsmunayfirlýsing: Höfundur rekur starfsstöð í heilbrigðiskerfinu sem þjónustar geðsjúka og sinnir forvörnum og streituráðgjöf.

Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30