Fara í efni
Pistlar

Auðvelt að hrífast með í álfanna heimi

Komdu nú með inn í álfanna heim þar sem ekkert er eins og það sýnist, eru upphafsorðin í upphafslaginu í barna- og fjölskyldusýningunni Benedikt búálfi, sem frumsýnd var snemma dags laugardaginn 6. mars í Samkomuhúsinu á Akureyri. Og það var auðvelt að hrífast með inn í þennan litríka og fjöruga heim sem fyrir augu bar á sviðinu. Þetta var nú gaman.

Marta Nordal leikhússtjóri segir í ávarpi sínu í upphafi leikskrár, sem er öll á vefnum mak.is að sjaldan hafi verið eins gleðilegt að frumsýna og núna, þegar leikhúsin eru að vakna af löngum dvala. Hún segir ennfremur að það sé einnig gott að bæta Benedikt búálfi í hóp metnaðarfullra leiksýningar fyrir börn, framtíðaráhorfendurna. Barnaleikhús sé mikilvægt grasrótarstarf, sem tengi börn við leikhúsið, og þau eigi það skilið.

Benedikt búálfur er ekki nýr og óþekktur heldur kannski dálítið eilífur, segist sjálfur í sýningunni vera meira en 150 ára, en sagan um hann var fyrst gefin út 1999 og höfundurinn Ólafur Gunnar Guðlaugsson. Sögunni var síðar snúið í söngleik með tónlist eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson og hefur frá því verið í hópi vinsælustu söngleikja fyrir börn – og börnin sem gleðjast við þennan leik geta reyndar verið býsna fullorðin.

Þegar Benedikt búálfur og allt hans lið dúkkar hér upp á Akureyri í byrjun ár 2021 er hann verulega viðamikill, sviðsmynd og ljós allt saman ákaflega litríkt og búningarnir líka, leikgleðin skín af hverjum leikara og söngvarar taka á því allra fínasta, sviðshreyfingar og dansar eru eins og smurð vél og allt kunnáttusamlega gert, og undir leikur rúmlega fjörutíu manna hljómsveit, sem, ég leyfi mér að segja betur fer, er ekki á sviðinu, þá væri ekki pláss fyrir fleiri. En undirleikurinn vandaður eins og allt hitt. Á þriðja bekk, þar sem undirritaður sat, var þó stundum eins og hljóðfæraleikurinn væri of sterkur og yfirgnæfði söng, en hljóðið er alls ekki alls staðar eins í þessu góða leikhúsi. Það veit ég.

Ljósmyndir: Auðunn Níelsson.

Leikstjóri Benedikts hér er Vala Fannell, tónlistarstjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og stjórnandi danshreyfinga galdramaðurinn Lee Proud. Reyndar má segja að á bak við sýninguna sé valinn maður eða kona í hverju rúmi.

Ævintýrið um Benedikt búálf fjallar meðal annars um það að bjarga gleðinni og heilindunum frá því að lenda í myrkrinu vonda. Þetta er gamalt og gott þema sem við þekkjum úr ævintýrum og sögum, til dæmis úr Bláa hnettinum, en það er önnur saga. Álfaheimurinn er dálítið öðruvísi en mannaheimurinn, en álfarnir verða að nýta sér eiginleika mannabarns til að bjargast frá myrkrinu í ljósið og það er ekki svo einfalt mál. En eins og í öðrum ævintýrum flestum fer nú allt vel að lokum og allir lifa hamingjusamir meðan þeim endist aldur.

Leikarar og söngvarar eru sjö talsins og dansarar þrír. Mest mæðir á titilpersónunni Benedikt búálfi og vinkonu hans Dídí mannabarni, sem Árni Beinteinn og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir leika og syngja af miklum krafti og innlifun og oft mjög heillandi. Í lið með þeim slæst Daði dreki, sem Birna Pétursdóttir túlkar bráðskemmtilega og uppsker hláturköst úr salnum. Kristján Óli, Króli, sýnir og sannar að hann er miklu meira en bara rappari úr Hafnarfirði, hann er líka prýðilegur söngvari og efnilegur leikari. Hjalti Rúnar Jónsson bregður sér á milli heima ljóss og myrkurs í gervi Jósafats og Sölvars súra og konungshjónin í ljósálfabyggð, hinn veikgeðja kóngur og hin staðfasta drottning eru í höndum Björgvins Franz Gísalsonar og Valgerðar Guðnadóttur, og ég leyfi mér að segja að söngur hennar bar af öðrum. Dansstúlkurnar ungu stóðu sig með prýði og féllu inn í hópinn svo úr varð afar heilleg mynd.

Benedikt búálfur er bráðskemmtileg söngleikjasýning fyrir börn á öllum aldri. Sumar mæður hlógu jafnvel hærra og meira en börnin, en stúlka sem var mér samferða út úr leikhúsinu sagði að þetta væri langflottasta leiksýning sem hún hefði séð. Hún hefði alveg gleymt því að hún væri í leikhúsi. Og kannski er litlu við þetta að bæta nema: Komdu nú með inn í álfanna heim þar sem ekkert er eins og það sýnist.

Miklu meiri og ítarlegri upplýsingar um sýninguna, aðstandendur hennar, fólkið að baki því sem sést á sviði, hljómsveitina og stjórnendur alla eru í leikskránni sem er á mak.is – og þar eru líka allir söngtextarnir. Skoðið það endilega.

svp

„Mest mæðir á titilpersónunni Benedikt búálfi og vinkonu hans Dídí mannabarni, sem Árni Beinteinn og Þórdís Björk Þorfinnsdóttir leika og syngja af miklum krafti og innlifun og oft mjög heillandi,“ segir Sverrir Páll.

„ ... sviðsmynd og ljós allt saman ákaflega litríkt og búningarnir líka, leikgleðin skín af hverjum leikara og söngvarar taka á því allra fínasta, sviðshreyfingar og dansar eru eins og smurð vél og allt kunnáttusamlega gert.“

Dídí mannabarn (Þórdís Björk Þorfinnsdóttir), Daði dreki (Birna Pétursdóttir) og Benedikt búálfur (Árni Beinteinn). 

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00