Fara í efni
Pistlar

Ástin á tímum kórónaveirunnar

Þessi titill er nú kannski safaríkari en umræðuefnið hér en mikilvægt er það. Það má með sanni segja að lífi okkar flestra hafi verið snúið á hvolf eftir að fyrsta kórónuveirusmitið greindist hér á landi í lok febrúar. Samkomutakmarkanir og hvers kyns skerðingar á skólastarfi, þjónustu, tómstundum og sífelld heimavinna eru sem betur fer veruleiki sem hefur verið okkur fjarlægur. Fyrir okkur langflest hefur þetta þýtt enn meiri viðveru á heimilunum, og auk þess að reyna að sinna vinnunni að heiman þá hefur þetta einnig haft í för með sér að ýmis verkefni sem við höfum útvistað hafa komið inn á heimilin. Foreldrar hafa þurft að setja sig í hlutverki leik-, grunn- og tónlistakennara, þjálfara, skólakokka, skólaliða og frístundastarfsfólks og þegar við erum svona mikið heima verður utanumhald heimilislífsins mun yfirgripsmeira en áður. Matseld og tiltekt er farið að taka óþarflega mikinn tíma í daglegu lífi. Margir foreldrar hafa þannig upplifað mikið álag tengt faraldrinum þegar kemur að heimilislífi. Einkum mæður.

Bæði innlendar og erlendar rannsóknir benda til þess að ólaunuð vinna mæðra hafi aukist í kórónaveirufaraldrinum. Það er nefnilega þannig í jafnréttisparadísinni Íslandi að mæður bera enn meiri ábyrgð á heimilisstörfum og barnauppeldi. Íslenskir feður hafa sannarlega tekið sig á í að sinna börnum sínum á síðustu árum en heimilisstörfin virðast að einhverju leyti sitja eftir og einnig skipulagsvinnan, sem kölluð hefur verið hugræn byrði (e. mental load), bæði hvað varðar heimilishaldið og börnin. Þegar heimilin fá svo skyndilega í fangið alla þá vinnu sem venjulega fer fram utan heimilis þá lendir sú vinna frekar á mæðrum.

Þessum pistli er ætlað að vera hvatningapistill til karla að taka enn meiri þátt inni á heimilunum. Ekki bara á tímum faraldursins heldur alltaf. Ekki bara að elda eða henda sneiðum á grillið heldur að taka þátt í skipulagningu heimilishaldsins. Að hafa frumkvæði að tiltekt, þrifum og þvotti. Halda líka utan um dagatalið, kaupa í skóinn, sjá um jólagjafainnkaup. Panta tíma í klippingu og hjá lækni fyrir börnin. Ef vettlinga, húfu eða nýja kuldaskó vantar að bæta úr því. Við erum nefnilega flest meðvituð um að verkstjórn á vinnustöðum krefst mikillar vinnu og fyrir það fá verkstjórar greitt sérstaklega. Það er líka heilmikil vinna að skipuleggja heimilishald fjölskyldu, en það er bæði ólaunuð og oft ósýnileg vinna en svakalega lýjandi. Það er til mjög mikils að vinna fyrir íslenskar fjölskyldur að dreifa slíku vinnuálagi á milli fullorðinna sambýlinga, svo ekki sé talað um vinnumarkaðinn. Hlutverk í fjölskyldunum eru félagslega lærð sem er svo frábært því þá er hægt að breyta þeim. Tímarnir sem við lifum núna eru sannarlega krefjandi en gefa okkur líka tækifæri til að endurhugsa hlutverk okkar og skipulag í fjölskyldugerðinni. Sumar rannsóknir benda til þess að jafnari verkaskiptingu fylgi meira ástríki í parasamböndum. Sannarlega til mikils að vinna.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir er félagsfræðingur (og gullsmiður) og lektor við Félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Fuglaskógar

Sigurður Arnarson skrifar
22. janúar 2025 | kl. 10:00

Davíð Stefánsson

Haraldur Þór Egilsson skrifar
21. janúar 2025 | kl. 13:30

Selshreifar

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
20. janúar 2025 | kl. 11:30

Ódi

Jóhann Árelíuz skrifar
19. janúar 2025 | kl. 06:00

Sambýlið á Ásbraut 3 í Kópavogi

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
17. janúar 2025 | kl. 06:00

Minjasafnsgarðurinn á Akureyri

Sigurður Arnarson skrifar
15. janúar 2025 | kl. 16:00