Fara í efni
Pistlar

Ætlaði sko ekki að verða hjólakona!

Evrópska samgönguvikan

Hrönn Brynjarsdóttir, gæða- umhverfis og öryggisstjóri Norðurorku, hjólar til og frá vinnu allt árið um kring – vegna þess hve gaman hún  hefur af því.

Hrönn hóf störf hjá fyrirtækinu fyrir fimm árum. Þá vildi svo til að hópur starfsfólks hugðist kaupa sér rafmagnshjól, unnið var að því að fá magnafslátt því hópurinn var nokkuð stór, og stjórnendur Norðurorku höfðu ákveðið að greiða fólki styrk vegna hjólakaupa. 

„Ég frétt að þetta væri í gangi þegar ég byrjaði hjá Norðurorku en ætlaði samt ekki að taka þátt. Ég ætlaði sko ekki að verða hjólakona!“ segir Hrönn við Akureyri.net.

Hló upphátt!

Norðurorka átti á þeim tíma þrjú rafmagnshjól sem starfsfólk gat prófað og Hrönn ákvað að láta slag standa. „Þegar ég hafði verið hjá fyrirtækinu í þrjá mánuði mætti ég með hjálm í vinnuna, ákvað að skilja bílinn eftir og prófa hjólið. Þegar ég hjólaði heim hló ég nokkrum sinnum upphátt eins og hálfviti af því það var svo skemmtilegt að hjóla á rafmagnshjóli! Ég hafði aldrei þrófað það áður. Ég er ekki morgunhress manneskja en morguninn eftir fór ég á hjólinu í vinnuna og hló aftur upphátt nokkrum sinnum af því það var svo gaman. Svona snemma morguns – það var ótrúlegt!"

Þá var ekki aftur snúið.  „Ég varð að eignast svona hjól,“ segir hún.

Hrönn keypti sér hjól um sumarið, en hugðist setja það inn í geymslu um haustið. „Ég ætlaði ekki að hjóla um veturinn en ákvað samt að prófa að kaupa mér nagladekk, hafði heyrt að það væri enn öruggara að hjóla á nöglum en að ganga á broddum en taldi það algjört rugl.“

Þegar Hrönn kom út einn morguninn var svo mikil hálka að hún taldi sér trú um að ekki væri hægt að hjóla við þær aðstæður. Skellti mannbroddum undir skóna og hélt af stað til vinnu, „en eftir að hafa gengið fimm metra frá húsinu sneri ég við, sótti hjólið og fór á því í vinnuna. Fann að það var miklu stöðugra og síðan hefur hjólið verið mitt farartæki allt árið.“

Hrikalega skemmtilegt

Þau hjón, Hrönn og Pálmi Óskarsson, eiga bíl en hann er sáralítið notaður. „Við notum hann til ferðalaga innanlands á sumrin og einstaka sinnum innanbæjar. Ég hef kannski farið fimm sinnum á honum í vinnuna af einhverri sérstakri ástæðu og alltaf upplifað það þegar ég mæti, að vera ekki vel vöknuð og sakna þess þá að hafa ekki farið á hjólinu.“

Hrönn kveðst hafa mikinn áhuga á umhverfismálum og þykir frábær tilfinning að leggja ekki mikið á umhverfið; að taka ekki með sér eitt og hálft tonn knúið með jarðefnaeldsneyti í vinnuna „heldur fara um á þessu fislétta farartæki sem notar smávegis rafmagn. Þrátt fyrir allt er ástæðan fyrir því að ég hjóla samt ekki sú að ég vilji gera vel fyrir umhverfið og ekki sú að ég vilji vera í góðu formi – ég hjóla bara vegna þess að það er svo hrikalega skemmtilegt! Ég var svo heppin að Norðurorka átti hjól, fólki bauðst að fá það lánað til að prófa og ég þrælsmitaðist.“

Fyrir örfáum árum var auglýst plan af hjóla- og göngustígum á Akureyri, sem unnið hefur verið að og í dag verður einmitt formlega tekinn í notkun stígur við Hlíðarbraut. „Ég skoðaði þetta plan gaumgæfilega á sínum tíma og finnst þessi þróun rosalega skemmtileg. Ég hlakka til að fylgjast með uppbyggingunni og að nota þessa góðu hjólastíga. Eftir nokkur ár eiga að vera komnir stígar sem gera það að verkum að hægt verður að komast á milli hverfa bæjarins án þess að þurfa að hjóla á götunum.“

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00