Fara í efni
Pistlar

Knýr hjólið með lýsi – ekki rafmagni

Arnaldur við hjól sitt í nýlegri hjólageymslu sem byggð var fyrir starfsmenn við austurenda Sjúkrahússins á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Evrópska samgönguvikan

Arnaldur Haraldsson, starfsmaður tæknideildar Sjúkrahússins á Akureyri, hefur hjólað til vinnu í mörg ár. Hann byrjaði á því af illri nauðsyn en hafði fljótt mjög gaman af þessum ferðamáta og hjólar orðið heilmikið utan vinnutíma líka, bæði með félögum sínum í björgunarsveitinni Súlum og vinum í öðrum hjólahópi. Akureyri.net ræddi við Arnald í tilefni Evrópsku samgönguvikunnar sem lýkur á morgun.

„Ég hef alltaf verið útivistartýpa en upphaflega fór ég að hjóla meira af illri nauðsyn en vegna þess að mér þætti það gaman eða mér til heilsubótar. Ég byrjaði vegna þess að það var bara einn bíll til á heimilinu,“ segir hann.

Arnaldur áttaði sig strax á því að fljótlegra var að hjóla í vinnuna en að fara á bílnum og hélt því sínu striki. Það  var árið 1999 sem hann dró  hjólið fyrst fram í þessum tilgangi, hefur unnið á nokkrum stöðum á þessum liðlega tveimur áratugum og nánast hjólað í vinnuna alla tíð síðan þá. „Já, ég hef verið að skröltast á hjóli í vinnuna allan þennan tíma og svo jókst þetta hjá mér; ég hjóla líka mikið utan vinnu; eftir því sem ég eignaðist betri og vandaðri hjól og kynntist fleirum í þessu sporti fór ég að þvælast mikið meira um. Ég hjóla í allt að meðaltali um 2000 kílómetra á ári.“

„Ég keyri á lýsi!“

Arnaldur segist eiga mjög gott reiðhjól – þó ekki rafmagnshjól. „Nei, ég keyri á lýsi. Ekki veitir af!“ segir hann og hlær. „Ég hef sagst ekki þora að prófa rafmagnshjól því ég óttast að það sé hættulega gaman. Ég er skíthræddur um að þá verði ég að eignast svoleiðis ...“

Hann býr í Steinahlíð í Glerárhverfi, þaðan sem eru fjórir kílómetrar að sjúkrahúsinu og sjaldnast eitthvað að færð yfir veturinn. „Um leið og kemur svell þá set ég nagladekkin undir og þá er ekkert mál að hjóla. Yfirleitt eru gangstígar vel mokaðir strax snemma morguns svo auðvelt er að komast á milli hverfa í bænum. Einn og einn dag neyðist ég til að hjóla úti á götu, sem mér er reyndar meinilla við; það var alveg jafn leiðinlegt fyrir mig og bílstjórana að ég sé skriplandi í hjólförum. Ég vil hvorki bjóða sjálfum mér né öðrum upp á það.“

Hjólað á hálendinu

Arnaldur er í björgunarsveitinni Súlum, sem fyrr segir, „og við reynum að vera dugleg að hjóla saman utan hefðbundins starfs og svo er það góð leið til að virkja nýliðana okkar að gera eitthvað svona skemmtilegt saman.“

Hann kveðst reyna að fara í tveggja til þriggja daga hjólaferðir um hálendið á hverju sumri. „Í fyrra fórum við mjög skemmtilega hjólaferð upp á hálendið. Konu í björgunarsveitinni langaði mjög mikið að koma með en var slæm í hnjánum og sagðist þá verða að fá að fara á rafmagnshjóli. Svarið við því var einfalt: þá ferðu auðvitað á rafmagnshjóli. En hvað með hleðslu uppi á hálendi? Ekkert mál, bílaflokkurinn verður með í för, við grípum með okkur rafstöð og hlöðum hjólið ef þarf.“

Nonna travel

Arnaldur er líka í hjólahópi með nokkrum vinum utan Súlna. „Jón Ragnarsson kaupmaður í JMJ er foringi þess hóps – við köllum okkur Nonna travel!“

Hann segir hópinn reyna að hittast vikulega eftir að lífið kemst í rútínu á ný eftir sumarfrí. „Flestir eru komnir á rafmagnshjól og það er augljóst að þetta er sitthvort sportið; þegar ég tek vel á því og kem pungsveittur heim þurfa hinir jafnvel að fara í aukaúlpu í hjóltúrnum svo þeim verði ekki kalt! Ég er dálítið að detta út úr hópnum, einn af örfáum geirfuglum sem eru ekki komnir á rafmagnshjól. Þegar maður er búinn að hjóla átta kílómetra í og úr vinnu er gott og gaman að hjóla 20 kílómetra hring eftir kvöldmat en þegar það er búið geta hinir leikandi farið aðra 20 kílómetra á rafmagnshjólunum!“

Væru annars í sófanum

Sífellt fleiri nota hjólreiðar sem samgöngumáta og rafmagnshjólum hefur fjölgað gríðarlega upp á síðkastið. Arnaldur segir því vissulega fylgja mikið frelsi að vera með batterí til að hjálpa sér. „Margir eru á flottum götuhjólum og nú eru margir komnir á flott rafmagnshjól, sá hópur sýnist mér með mjög háan meðalaldur. Ég var svo fordómafullur fyrst að mér fannst út í hött að sextugir eða sjötugir væru að þvælast um á fulldempuðum rafmagnshjólum, en áttaði mig svo á því hvað það fólk væri líklega annars að gera – það myndi sennilega bara hanga í sófanum heima. Nú eru stórir hópar fólks yfir sextugt og jafnvel sjötugt að fara Eyjafjarðahringinn, sem er alveg dásamlegt!“

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00