Fara í efni
Mannlíf

Verður auðveldara að lenda í slæmu skyggni

Akureyrarflugvöllur verður enn aðgengilegri eftir að tvö ný gervihnattaaðflug bætast þar við úr suðri . Mynd: Hörður Geirsson

Akureyrarflugvöllur fær tvö ný stöðluð gervihnattaaðflug i í sumar. Fyrra aðflugið kemur út í maí en það seinna kemur út í sumar. Nýju aðflugin bjóða upp á nákvæmari leiðsögn og lægri lágmörk fyrir lendingu og því verður auðveldara fyrir flugmenn að lenda á vellinum þó skyggni sé takmarkað.

Því hefur oft verið haldið fram að Akureyrarflugvöllur sé erfiður til lendingar, sérstaklega fyrir þá sem ekki þekkja aðstæður í firðinum. Hjördís Þórhallsdóttir, flugvallarstjóri Akureyrarflugvallar, segir þetta vera útbreidda mýtu sem í dag eigi ekki við nein rök að styðjast í dag. „Hér áður fyrr vorum við ekki með nein stöðluð aðflug að vellinum. Það gerði það að verkum að erlendir flugmenn sem þekktu ekki völlinn, þekktu ekki aðflugin og voru því tregari til að fljúga hingað,“ segir Hjördís og bætir við að með þróun stöðugra og staðlaðra aðflugsleiða hafi þetta gjörbreyst.

Þetta er þriðji og síðasti hluti viðtals við Hjördísi um Akureyrarflugvöll

„Það er ótrúlega gaman að lenda hérna því umhverfið er svo fallegt, flugvöllurinn er vel staðsettur og stutt inn í bæinn. Þetta er plús sem á líka eftir að hjálpa okkur," segir Hjördís Mynd: Haraldur Diego

Ný aðflug gera Akureyri að enn öflugri valkosti

Árið 2019 kom ILS (nákvæmnisaðflug) á norðurenda vallarins sem hjálpaði mikið að sögn Hjördísar þegar Transavia var að byrja flug til Akureyrar.

„Svo erum við að fá tvö ný gervihnattaaðflug úr suðri og annað þeirra tekur gildi í maí og hitt seinna í sumar. Nýju aðflugin lækka lágmörkin. Lægri lágmörk þýða að flugmenn geta flogið neðar og nær flugbrautinni, en þeir þurfa að sjá flugbrautina á þeim tímapunkti og ef þeir gera það ekki þurfa þeir að snúa frá. Flugmenn geta því lent á Akureyrarflugvelli í verra skyggni þegar þessi aðflug er komin. Þessi aðflug munu nýtast öllum flugfélögum, bæði íslenskum og erlendum og gera það að verkum að erlendir flugmenn sem ekki þekkja Akureyrarflugvöll vel geta nálgast völlinn af meiri öryggi og sjálfstrausti. Þetta gerir Akureyrarflugvöll að enn öflugri valkost í alþjóðaflugi,” segir Hjördís og heldur áfram:

„Og þó við séum í fjalllendi þá gerir tæknin það að verkum að fjöllin hér í kringum okkur munu skipta minna máli. Stórir flugvellir eins og t.d. Innsbruck í Austurríki eru með mjög þróað gervihnattaaðflug sem gerir það að verkum að þar er hægt að lenda þó það sé mjög lélegt skyggni, og Akureyrarflugvöllur þarf bara að þróast enn meira varðandi aðflug.“

 „Það er ótrúlega gaman að lenda hérna því umhverfið er svo fallegt, flugvöllurinn er vel staðsettur og stutt inn í bæinn.“ segir Hjördís Þórhallsdóttir, fráfarandi flugvallarstjóri. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Þá segir Hjördís að fjöllin hjálpi líka til hvað hliðarvindinn varðar. „Við erum í firði, umkringd fjöllum, og það gefur ótrúlega gott skjól fyrir hliðarvindi. Í Keflavík getur oft verið svo hvasst að ekki er hægt að hleypa farþegum í eða úr vélunum. Við höfum því meira skjól hér og með nýju aðflugsleiðunum höfum við líka betri möguleika á lendingu í lélegu skyggni.“

Hér áður fyrr vorum við ekki með nein stöðluð aðflug að vellinum. Það gerði það að verkum að erlendir flugmenn sem þekktu ekki völlinn, þekktu ekki aðflugin og voru því tregari til að fljúga hingað.

Fallegt umhverfi og framúrskarandi vetrarþjónusta

Fleiri hlutir gefa Akureyrarflugvelli forskot og gera hann að fýsilegum valkosti fyrir erlend flugfélög. „Það er ótrúlega gaman að lenda hérna því umhverfið er svo fallegt, flugvöllurinn er vel staðsettur og stutt inn í bæinn. Þetta er plús sem á líka eftir að hjálpa okkur. Þá er Akureyrarflugvöllur þekktur fyrir mjög góða vetrarþjónustu. Við erum með mjög hæft fólk í því að hreinsa snjó af vellinum og passa að það séu alltaf góðar aðstæður á flugbrautinni. Þetta er ekki síst vegna þess að sjúkraflugið er staðsett hér og við verðum að geta opnað flugvöllinn á mjög skömmum tíma. Ég held að mér sé óhætt að segja að við séum framúrskarandi á heimsvísu varðandi snjómokstur og vetrarþjónustu,“ segir Hjördís stolt.

Þessi mynd er tekin árið 2018 af Hjördísi þegar vél frá Titan Airways, sem flaug fyrir Superbreak, lenti á Akureyrarflugvelli. Af því tilefni var Hjördísi boðið að setjast við stýrið í vélinni. 

Miklil þróun næstu tíu árin

Ný aðflug sem og stærri flugstöð og nýtt flughlað, en hvoru tveggja var tekið í gagnið á síðasta ári, mun að sögn Hjördísar laða fleiri flugfélög en easyJet norður.

„Ég held að á næstu tíu árum verði hér enn frekari þróun. Ég held það verði komið miklu meira millilandaflug. Þá held ég að það verði búið að stækka flugstöðina frekar og að það verði komin alls konar tækni, sem að við vitum ekki einu sinni um í dag, til dæmis við flugleiðsögu. Þá verður örugglega komið meira rafmagn í allt og kannski verða komnar rafmagnsflugvélar,” segir Hjördís aðspurð að því hvernig hún haldi að flugvöllurinn þróist á næstu tíu árum.

Þegar og ef þessi spá Hjördísar rætist verður hún ekki við stjórnvölinn á flugvellinum, því eins og áður hefur komið fram hjá Akureyri.net lætur hún brátt af störfum sem flugvallarstjóri á Akureyrarflugvelli og umdæmisstjóri Isavia á Norður- og Norðausturlandi. Það er því vel við hæfi að slá botninn í spjallið við hana með því að spyrja hvaða skilaboð hún hafi fyrir arftaka sinn á vellinum.

„Bara að anda djúpt og ekki flýta sér of mikið í ákvarðanatöku. Það er oft gott að hugsa aðeins málið yfir nóttina. Svo skiptir miklu máli að vinna vel með fólkinu hér og hlusta á starfsfólkið. Síðan er bara að sökkva sér niður í verkefnin og finna út úr hlutunum,“ segir Hjördís að lokum.