Fara í efni
Fréttir

Skógarböðin – stærra baðlón opnað í júní

Í október fjölgaði skápum um 60 í núverandi búningsklefum Skógarbaðanna. Með nýja hótelinu mun koma önnur stór búningsaðstaða.

Framkvæmdir standa yfir við mikla stækkun baðlóns Skógarbaðanna. Stærð lónsins mun rúmlega tvöfaldast, það fer úr 500 fermetrum í 1.200 fermetra og verður tekið í notkun í byrjun júní. 

Sigríður María Hammer, einn eiganda Skógarbaðanna, segir að aukin aðsókn kalli á þessa stækkun. „Við viljum bæta aðstöðuna og skapa enn betri upplifun fyrir gesti. Með stækkuninni bætast einnig við ýmis ný svæði, gufur, maskabar, salerni og aðrar viðbætur sem styrkja heildarupplifunina,“ útskýrir hún.

 Gert er ráð fyrir því að hótelgestir geti synt yfir brú fulla af vatni frá hótelinu og í lónið.

Aðstaða sem annar eftirspurn

Skógarböðin hafa vaxið hratt síðan opnað var í maí 2022. Upphaflega var gert ráð fyrir 50.000 gestum á ári, en eftirspurnin hefur farið langt fram úr þeim væntingum. „Fyrsta árið heimsóttu okkur um 110.000 manns, og árið 2024 voru gestirnir orðnir 150.000,“ segir Sigríður María. Hún bendir á að með auknu beinu flugi til Akureyrar séu tækifæri til frekari vaxtar mikil. „Við viljum að aðstaðan sé í takt við eftirspurnina og að gestir okkar fái góða þjónustu, hvort sem þeir koma erlendis frá eða eru heimamenn,“ segir hún.

Með stækkun baðlónsins bætast einnig við ýmis ný svæði, gufur, maskabar, salerni og aðrar viðbætur sem styrkja heildarupplifunina. 

Vellíðunarhótel opnað 2027

Ásamt stækkun lónsins er vinna hafin við nýtt vellíðunarhótel sem verður alls 11.000 fermetrar að stærð. Hótelið verður á fjórum hæðum með 120 herbergjum og þar af 13 svítur en á fimmtu hæðinni verður ráðstefnusalur fyrir 250 manns . Spa-svæðið, sem tengist lóninu beint, verður 500 fermetrar á tveimur hæðum. Undir hótelinu verður svo bílageymsla „Við höfum lagt mikla vinnu í að hanna hótelið þannig að það falli vel inn í umhverfið og auki upplifun gesta. Þeir munu njóta útsýnis yfir fjörðinn og skóginn, án þess að bílastæði eða önnur mannvirki skyggi á fegurð náttúrunnar,“ segir hún.

Svona mun heildarsvæðið líta út eftir breytingarnar. Fyrirhugað hótel er lengst til hægri. 

Stærra baðlón opnað í júní

Með stækkun lónsins og uppbyggingu hótelsins stefnir í spennandi breytingar hjá Skógarböðunum að sögn Sigríðar Maríu. Lónsstækkunin verður tekin í gagnið fyrstu vikuna í júní, en hótelverkefnið er á fyrstu stigum framkvæmda og stefnt á að það opni árið 2027. „Við erum spennt fyrir komandi sumri og hlökkum til að taka á móti enn fleiri gestum í bættu og stækkuðu umhverfi,“ segir Sigríður María.

Framkvæmdir við stækkun baðlónsins.