Fara í efni
Mannlíf

Nýtur þess að vera í þróun og framkvæmdum

„Mín upplifun sem kona í leiðtogastöðu er að konur þurfa almennt að kunna allt miklu betur, eða vera miklu meira vissar um hlutina, heldur en karlmenn,” segir Hjördís og bætir við að kannski hafi hún fundið sérstaklega sterkt fyrir þessu af því að hún var fyrsta konan í þessu starfi og þá var hún líka frekar ung þegar hún byrjaði.

Það eru tímamót á Akureyrarflugvelli. Hjördís Þórhallsdóttir, sem undanfarin 13 ár hefur gegnt starfi flugvallarstjóra og umdæmisstjóra Isavia fyrir Norður- og Norðausturland, kveður starfið í vor. Á hennar vakt hafa miklar breytingar orðið á vellinum og flugtengingum út í heim. Hjördís lítur hér yfir farinn veg, á tímabil mikilla breytinga og gríðarlegs vaxtar.

„Þegar ég byrjaði gerði ég fimm ára lista yfir allt það sem mig langaði til að gerðist hérna. Nú, rúmlega 12 árum seinna, er þetta allt orðið að veruleika. Mér finnst þetta því vera góður tími til að færa mig úr stað og fá annan til að taka við,“ segir Hjördís sem skilur sátt við völlinn sem sannarlega hefur tekið miklum breytingum, ekki síst á síðasta ári þegar nýtt flughlað og ný flugstöð voru vígð.

Hluti nýbyggingarinnar við Akureyrarflugvöll. Mynd: Þorgeir Baldursson.

„Það sem ég er ánægðust með er hvað ég hef náð að byggja upp góðan og öflugan starfsmannahóp sem er mjög fær í sínu starfi. Ég er eiginlega stoltust af því og ég veit að ég á eftir að sakna starfsfólksins hér mikið. Síðan er ég mjög stolt af því að það hafi náðst að koma á reglulegu millilandaflugi hér. Það er mjög stór áfangi fyrir svona lítinn bæ að vera með easyJet fljúgandi hingað fjórum sinnum í viku. Þetta flug hefur breytt miklu fyrir samfélagið og íbúana. Eins að hafa náð að gera þessar breytingar á flugstöðinni og flughlaðinu, þær hafa gert mikið fyrir farþega og starfsfólk. Þetta er bara allt annar flugvöllur en sá sem ég tók við árið 2012.“

Þetta er annað viðtalið af þremur við Hjördísi um Akureyrarflugvöll


Chris Hagan, Hjördís Þórhallsdóttir og Halldór Óli Kjartansson fagna þegar flugfélagið easyJet hóf áætlunarflug milli Akureyrar og Manchester í nóvember 2024. Veturinn á undan hóf flugfélagið beint flug milli London og Akureyrar. Mynd: Þórhallur Jónsson.

Hefur gaman af þróunarframkvæmdum

Hjördís var 38 ára gömul þegar hún tók við starfinu á Akureyrarflugvelli, þá fyrsta konan til að gegna starfi flugvallarstjóra og umdæmisstjóra á Íslandi. Hún segist þakklát Hauki Haukssyni, sem réð hana og hafði trú á henni í starfið, en neitar því ekki að henni hafi stundum liðið eins og hún hafi þurft að sanna sig sem kona í þessu starfi.

„Mín upplifun sem kona í leiðtogastöðu er að konur þurfa almennt að kunna allt miklu betur, eða vera miklu meira vissar um hlutina, heldur en karlmenn,“ segir Hjördís og bætir við að kannski hafi hún fundið sérstaklega sterkt fyrir þessu af því að hún var fyrsta konan í þessu starfi og þá var hún líka frekar ung þegar hún byrjaði. Segir hún að væntingarnar, sem oft eru lagðar á konur í leiðtogastöðum, jafnvel þó þær séu óbeinar eða ósýnilegar, hafi vissulega reynt á en heilt yfir hafi hún notið sín í starfinu.

„Það er langt síðan ég kom hingað en samt líður mér svolítið eins og það hafi verið í gær því þetta er búinn að vera mjög skemmtilegur tími,“ segir Hjördís sem tekur brátt við sem þjónustustjóri hjá atNorth í gagnaverinu á Akureyri. „Mér finnst gaman að vera í þróunarverkefnum og framkvæmdum og ég er að fara í starf þar sem mikið er að gerast. AtNorth er í örri uppbyggingu og ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir.“


Hjördís ásamt Hjalta Páli Þórarinssyni frá Markaðsstofu Norðurlands á ráðstefnunni Routes Europe í Hannover árið 2019 þar sem þau voru að kynna Akureyrarflugvöll og Norðurland. Með þeim á myndinni er Björn Ingi Knútsson sem var þar fyrir hönd Austurbrúar. Mynd: úr einkasafni.

Langur aðdragandi að föstu millilandaflugi

Eins og áður segir er Akureyrarflugvöllur allt annar í dag en þegar Hjördís hóf þar störf. Aðalverkefni hennar til að byrja með var að efla starfsfólk og teymi flugvallarins og vinna með flugvallarþjónustunni. Um 20 manns störfuðu hjá Isavia á flugvellinum þegar hún kom þangað fyrst en stöðugildin í dag eru yfir 50 talsins.

„Lögreglan hafði t.d. áður séð alfarið um vopnaleitina en ég fór í það að láta þjálfa upp starfsfólk í flugverndarteymið,“ segir Hjördís sem samhliða því að efla starfsfólk og teymin á vellinum var líka að vinna í því að laða erlend flugfélög að. „Eitt af mínum fyrstu verkefnum var að fara með Arnheiði Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra Markaðsstofu Norðurlands, á ráðstefnuna Routes Europe í Bretlandi. Þar hittum við fullt af flugfélögum, þar á meðal easyJet sem sýndi Akureyrarflugvelli strax mikinn áhuga. Á næstu árum hélt þessi vinna áfram og flugfélagið kom hingað að skoða aðstæður. Það er því búinn að vera langur aðdragandi að því að fá þá hingað með fast millilandaflug,“ segir Hjördís. Hún segir að á þessum tíma hafi alltaf verið boðið upp á leiguflug frá flugvellinum á haustin og eins hafi verið boðið upp á tengiflug til Keflavíkur með Icelandair sem hafði byrjað og hætt. Þá hafi Iceland Express verið með flug frá vellinum í einhvern tíma fyrir hennar tíð.

Mynd: Þorgeir Baldursson.

„Veturinn 2018-19 byrjaði svo breska ferðaskrifstofan Superbreak að fljúga hingað og var með ferðir hingað í tvo vetur. Síðan fylgdu Voigt Travel með Transavia og Nice Air í kjölfarið. Með komu Superbreak fórum við virkilega að finna fyrir því að við yrðum að bæta aðstöðuna á flugvellinum. Þetta voru mjög stórir hópar, vélarnar tóku um 220 manns og við komum ekki fólki inn í flugstöðina. Vegabréfaskoðunin var við endann á glergangi og svo var bara röðin út á hlað. Við fengum lánaðan strætó hjá Akureyrarbæ svo fólkið gæti a.m.k. komið inn í strætóinn og hlýjað sér áður en það kæmist inn í flugstöðina,“ rifjar Hjördís upp.

Ruslatínsla í öryggisviku Isavia. Þá tína starfsmenn Isavia og annarra fyrirtækja á flugvellinum rusl í einn dag á flugvellinum. Frá vinstri: Karlotta Möller, Svala Rán Aðalbjörnsdóttir og Hjördís Þórhallsdóttir.

Stækkun í þremur áföngum

Í kjölfar ferða Superbreak segir Hjördís að byrjað hafi verið fyrir alvöru að huga að því að gera breytingar á flugstöðinni. „Árið 2020, í miðju covid, fengum við fjármagn til þess að klára flughlaðið og stækka flugstöðina,“ segir Hjördís og bætir við að það hafi verið svolítið sérstakt að sitja heima vegna sóttvarnarregla og byrja þessa vinnu.

Nýja innritunaraðstaðan fyrir millilandaflugið á Akureyrarflugvelli. Mynd: Þorgeir Baldursson.

Ný og endurbætt flugstöð var síðan unnin í þremur áföngum. Í þeim fyrsta var nýrri viðbyggingu upp á 1.100 fermetra bætt við þar sem er aðstaða fyrir lögreglu, toll, fríhafnarverslun og veitingasölu. Í öðrum áfanga verksins var komusvæði flugstöðvarinnar endurbyggt en þar er nú nýtt innritunarsvæði fyrir millilandaflug. Í þriðja áfanga voru núverandi innritunarsvæði og skrifstofuhluti flugstöðvarbyggingarinnar endurbyggð.

Nýja flugstöðin og nýtt flughlað voru formlega vígð í desember 2024. Flughlaðið er 33 þúsund fermetrar að stærð og með skilgreind tvö þotusvæði. Allt í allt er hægt að taka á móti 12 til 14 flugvélum á Akureyrarflugvelli í stað fjögurra til fimm véla. „Mér finnst náttúrulega frábært að við séum komin með svona stórt flughlað. Það er bæði meira pláss fyrir flugvélarnar hjá okkur og þoturnar sem eru að koma að utan. Þá getur flugvöllurinn líka betur sinnt hlutverki sínu sem varaflugvöllur fyrir Keflavík,“ segir Hjördís.

Hjördís segir að starfsandinn á Akureyrarflugvelli sé góður og að hún eigi eftir að sakna starfsfólksins þar. Hér er hún með hópi starfsmanna á leið í hvalaskoðun. 

Að taka þátt í stórum verkefnum, eins og stækkun flughlaðsins og flugstöðvarinnar sem og aðdraganda millilandaflugs, hefur veitt Hjördísi mikla ánægju og hún líkir starfinu við að stýra stöðugu þróunarferli, þar sem hver dagur býður upp á nýjar áskoranir og tækifæri. „Mér finnst gaman að vera í þróun og framkvæmdum, að sjá hlutina taka breytingum og komast í framkvæmd, hluti sem maður hefur hugsað um og unnið að, það er ótrúlega ánægjulegt,“ segir hún.

Hjördís og Hjalti Páll Þórarinsson, hjá Markaðsstofu Norðurlands, taka á móti Superbreak og Titan Airways á Akureyrarflugvelli árið 2018. 

HVER ER HJÖRDÍS ÞÓRHALLSDÓTTIR? 

  • „Ég er fædd 1974 og uppalin á Akureyri. Ég fór í Menntaskólann á Akureyri og var síðar au pair í Bandaríkjunum. Þaðan lá leiðin í nám í vöruþróunartæknifræði við Háskólann í Skövde í Svíþjóð. Á námsárunum í Svíþjóð kynntist ég manninum mínum, Edgardo Parraguez Solar,“ segir Hjördís þegar hún er beðin að segja aðeins frá bakgrunni sínum.
  • Hjördís segir að eiginmaðurinn sé fæddur og uppalinn í Svíþjóð, en eigi rætur að rekja til Chile. Foreldrar hans komu sem flóttamenn til Svíþjóðar. Að námi loknu fluttu Hjördís og Edgardo til London þar sem Hjördís lauk meistaranámi. Síðan fluttu þau til Íslands og hjá Hjördísi tók við vinna í tækni- og þróunarverkefnum hjá fyrirtækjum eins og Össuri og Altech.
  • „Við ákváðum svo að flytja norður þegar við urðum foreldrar. Okkur langaði að börnin okkar myndu alast upp nær fjölskyldu minni og að við hefðum meira bakland,“ segir Hjördís, en þau hjónin eiga tvö börn; Klöru, fædda 2007, og Alex, sem fæddist árið 2010.
  • Edgardo, sem er menntaður kokkur, fór að vinna á Sjúkrahúsinu á Akureyri og gegnir þar nú stöðu deildarstjóra yfir eldhúsinu. Hjördís fór að vinna hjá Vegagerðinni og var deildarstjóri brúarvinnuflokka og vegmerkingarflokks í fjögur ár.
  • Árið 2012 hóf hún störf á Akureyrarflugvelli sem flugvallarstjóri og umdæmisstjóri Isavia fyrir Norður- og Norðausturland, en hún tók við starfinu af Sigurði Hermannssyni sem gegnt hafði því frá 1997. Hjördís sagði nýlega upp starfi sínu eftir tæp 13 ár í starfi en hún tekur fljótlega við starfi þjónustustjóra í gagnaveri atNorth á Akureyri.
  • Hjördís segist hvergi annars staðar vilja búa en á Akureyri enda sé öll fjölskylda hennar í bænum, bæði foreldrar og systkini. „Og þó að Edgardo eigi sína fjölskyldu í Stokkhólmi, þá þykir honum mjög vænt um Akureyri og hér er heimili okkar.“

Hjónin Hjördís og Egardo kynntust í Svíþjóð. Á hægri myndinni er öll fjölskyldan í skíðafríi í Frakklandi, beint frá Akureyri til Gatwick og þaðan áfram til Frakklands. Fjölskyldan er mikið skíðafólk og er myndin tekin upp á tindi við Mont Blanc, á Aiguille du Midi.