Fara í efni
Fréttir

Færri skip í ár – nýtt gjald hefur áhrif

Þrjú skemmtiferðarskip í höfn á góðum degi síðasta sumar á Akureyri. Komum til hafna Hafnasamlags Norðurlands fækkar í sumar um 37 frá því í fyrra þar af er fækkunin 25 skip á Akureyri, 8 í Grímsey og 4 í Hrísey. Mynd: SNÆ

Komum skemmtiferðarskipa til hafna Hafnasamlags Norðurlands fækkar í sumar um 37 frá því í fyrra, þar af er fækkunin 25 skip á Akureyri, 8 í Grímsey og 4 í Hrísey. Er þetta ein mesta fækkun sem sést hefur í mörg ár. Að sögn Péturs Ólafssonar, hafnarstjóra Hafnasamlags Norðurlands, eru nokkrar ástæður fyrir fækkuninni, en nýtt innviðagjald, sem var tekið upp um síðustu áramót, hefur þegar haft áhrif og gæti haft enn meiri áhrif á árið 2026 og síðan með miklum þunga 2027.

„Við sjáum fækkun í ár en það sem veldur okkur meiri áhyggjum er þróunin til lengri tíma. Ef ekkert verður að gert gæti þessi samdráttur haldið áfram, og það hefur áhrif á fjölda fyrirtækja hér á svæðinu sem treysta á komur skemmtiferðaskipanna og farþega þeirra,“ segir Pétur. Hann bætir við að fækkunin í sumar sé líklega á bilinu 50- 100 milljóna króna tekjutap fyrir þeirra höfn. „Vegna góðs reksturs síðustu ár höfum við verið virkir í viðhaldi, nýframkvæmdum og aukið starfsmannafjöldann mikið til þess að ná að anna öllu. Það gefur því augaleið að þetta mun því hafa töluverð áhrif hjá okkur.”


Pétur Ólafsson, hafnarstjóri Hafnasamlags Norðurlands, hefur áhyggjur af því hvernig mál þróast með komur skemmtiferðaskipa til Íslands. Afnám tollafrelsis hefur áhrif á minni skip sem siglt hafa til minni hafna hringinn í kringum Íslands og þá hefur nýtt innviðagjald orðið til þess að skipafélög eru að endurmeta viðkomustaði sína. 

Óvænt innviðagjald

Nýja innviðagjaldið, sem tók gildi um síðustu áramót, felur í sér nýja skattheimtu á farþega sem koma til Íslands með skemmtiferðaskipum. Samkvæmt því þurfa skipafélögin að greiða 2.500 kr. á sólarhring fyrir hvern farþega. Skipafélögin ásamt Cruise Iceland, fjölda hafna og sveitarsjóða hafa verið ósátt við gjaldið og þá sérstaklega við framkvæmd þess en gjaldinu var komið mjög skyndilega á og álagningin afturvirk, þ.e.a.s. gjaldið leggst ofan á allar ferðir til landsins frá og með áramótum, líka ferðir sem skipafélögin hafa fyrir löngu skipulagt og selt áður en gjaldið var ákveðið.

„Við höfum þegar fengið viðbrögð frá skipafélögum sem eru að endurmeta viðkomustaði sína. Það er ekki aðeins vegna innviðagjaldsins heldur líka vegna þess hvernig það var kynnt og framkvæmt,“ segir Pétur. Hann telur að stjórnvöld verði að endurskoða gjaldið, bæði upphæð og framkvæmd. „Það sem við höfum bent á er að gjaldið þurfi að vera útfært þannig að það letji ekki skip til að koma hingað,” segir hann og bætir við að enn sé ekki of seint fyrir stjórnvöld að minnka skaðann t.d. með því að breyta aðferðarfræðinni við innheimtuna. „Bara ef það yrði t.d. ákveðið að aðeins yrði byrjað að rukka gjaldið á miða sem seldir eru eftir 1. janúar 2025, það yrði gjörbreyting. Svo væri hægt að hækka gjaldið í þrepum á næstu 3 til 4 árum. Ég er viss um að með þessu eina pennastriki væri hægt að tryggja það að skipafélögin haldi áfram að sigla hingað.”

Skipafélögin eru alveg til í að borga eitthvað og leggja til samfélagsins og hafa alltaf sagt það, en það þarf að vera sanngirni í því og fyrirsjáanleiki, og það verður að vera hægt að treysta stjórnvöldum að það komi ekki bara eitthvað annað næst. Félög sem voru búin að selja allar sínar ferðir fyrir þetta ár áður en innviðagjaldið kom á þurfa bara að borga þetta gjald úr eigin vasa þar sem þetta var ekki reiknað inn í verðið þegar ferðirnar voru seldar.

Afnám á tollafrelsi hefur áhrif á litlu skipin

Fleira spilar þó líka inn í fækkun skemmtiferðaskipa til Akureyrar í ár en innviðagjaldið. „Þetta er í raun tvíþætt. Annars vegar er það afnám á tollfrelsi sem var veitt á sínum tíma og var sérstakur hvati til að fá litlu skipin til að sigla til Íslands. Þessi skip tóku farþega í Reykjavík og sigldu með þá hringinn í kringum landið og heimsóttu fullt af litlum stöðum. Áður en þetta tollafrelsi var sett á voru um 5-7 hafnir að fá skip en fór upp í 32-34 staði með tollafrelsinu, hringinn í kringum landið. Þetta var brjálæðislega mikil innspýting í ferðaþjónustu og hafnarrekstur á litlu stöðunum,“ segir Pétur.

Fyrir ári síðan var tekin ákvörðun um það að þetta tollafrelsi myndi falla úr gildi um síðustu áramót. „Fyrir vikið held ég að mörg þessara minni skipafélaga hafi bara ekki séð rekstrargrundvöll fyrir veru á Íslandi allt sumarið og þess vegna bókað skipin annað. Það skýrir þessa fækkun á skipakomum að hluta. Svo er það innviðagjaldið sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Menn hafa verið að reyna að gera stjórnvöldum grein fyrir því að þetta gæti haft mikil áhrif, sérstaklega fyrir árið 2027 og eftirleiðis. Skipafélögin eiga erfitt með að breyta seldum ferðum í ár og fyrir næsta ár en eftir það munu félögin virkilega horfa annað. Skipafélögin eru alveg til í að borga eitthvað og leggja til samfélagsins og hafa alltaf sagt það, en það þarf að vera sanngirni í því og fyrirsjáanleiki, og það verður að vera hægt að treysta stjórnvöldum að það komi ekki bara eitthvað annað næst. Félög sem voru búin að selja allar sínar ferðir fyrir þetta ár áður en innviðagjaldið kom á þurfa bara að borga þetta gjald úr eigin vasa þar sem þetta var ekki reiknað inn í verðið þegar ferðirnar voru seldar,“ segir hafnarstjórinn.

Pétur segir að Hafnarsamlag Norðurlands væri til í að taka upp svipað kerf og Faxaflóahafnir eru með,  sem felst í því að þá er  hægt að leggja mismunandi gjöld á skip eftir umhverfisáhrifum þeirra.

Vill sekta umhverfissóða

Með fækkun skipa hefur einnig vaknað umræða um mengun skemmtiferðaskipa. Sumir bæjarbúar fagna fækkuninni þar sem þeir telja að hún dragi úr mengun í firðinum, á meðan aðrir hafa áhyggjur af áhrifunum sem hún hefur á atvinnulíf bæjarins, en mörg ferðaþjónustufyrirtæki á svæðinu stóla á farþega skemmtiferðaskipanna í sínum rekstri.

„Umhverfisstofnun fylgist vel með þessum mengunarmálum og gerir það samkvæmt alþjóðlegum viðmiðum. En það sem hefur verið að gerast undanfarin ár, bæði í skipum og öðrum samgöngutækjum, er að þessar vélar menga minna núna en áður,“ segir Pétur en bætir við að þó hreinsibúnaður skipanna sé alltaf að verða betri og betri og hönnun skipanna í heild þannig að þau eyði minni orku þá sé ekki hægt að neita því að skipin menga. „Það er alveg ljóst að skip menga, en við þurfum að spyrja okkur hvort við viljum finna leiðir til að draga úr áhrifunum eða einfaldlega missa þau. Mengun er ekki bara tengd skemmtiferðaskipum – við sjáum líka mengun frá flugumferð og öðrum samgöngum svo þetta er alltaf hluti af stærra samhengi. Þetta er bara áframhaldandi verkefni stjórnvalda og alþjóða samfélagsins að sporna við mengun, hvort sem það eru flugvélar, bílar eða skip sem eiga í hlut,“ segir Pétur.

Hann telur einnig að ákvæði um hvatakerfi ætti að koma til skoðunar, eins og verið er að vinna með í Faxaflóahöfnum. Þar geta skip sem uppfylla strangari mengunarkröfur fengið afslátt af bryggjugjöldum. „Við værum til í að taka upp svipað kerfi, þar sem við gætum veitt afslátt eða lagt mismunandi gjöld á skip eftir umhverfisáhrifum þeirra. En því miður er rekstrarfyrirkomulag okkar öðruvísi en í Faxaflóahöfnum, og lagalega höfum við ekki sömu heimildir til að leggja mismunandi gjöld á skip út frá mengun,“ útskýrir Pétur sem segir Hafnarsamlag Norðurlands þó vera með aðgang að svokölluðu EPI kerfi sem safnar gögnum um skip t.d. hvers konar olíu skipin nota, hvernig hreinsibúnaður þeirra er o.sfrv. „En það virðist því miður ganga illa hjá yfirvöldum að breyta lögunum þannig að við fáum að nýta okkur þetta kerfi til að geta t.d. sektað umhverfissóða.“

Við viljum að Akureyri haldi áfram að vera vinsæll áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip, en það krefst þess að við séum samkeppnishæf. Ef við leggjum ósanngjörn gjöld á skipin er hætt við að þau fari annað, það er raunveruleg hætta á því.


Það er í mörg horn að líta hjá Pétri við að undirbúa sumarið þó skipakomur séu færri í ár en í fyrra. T.d. er verið að vinna í því að bæta ásýnd hafnarsvæðisins með uppsetningu á 14 smáhýsum fyrir ferðaþjónustuaðila. 

14 smáhýsi á hafnarsvæðið

Aðstaða fyrir móttöku skemmtiferðaskipa er alltaf að verða betri og betri á Akureyri og þá eru hafnaryfirvöld líka farin að stýra ferðamannastraumnum betur, sem gerir upplifunina betri bæði fyrir heimamenn og farþega. Segir Pétur að það væri mikil synd ef skemmtiferðaskipum færi fækkandi á komandi árum, því mikið starf hafi verið lagt í að gera Akureyri að aðlaðandi áfangastað fyrir þessi skip. Þessa dagana er t.d. verið að vinna að því að bæta ásýnd hafnarsvæðisins fyrir sumarið. Til stendur að setja þar upp 14 smáhýsi þar sem ferðaþjónustuaðilar geta haft aðstöðu fyrir starfsemi sína en hingað til hefur þjónusta þeirra verið óskipulögð úti á götum. „Þetta snýst um að gera svæðið aðlaðandi og skilvirkara. Við höfum séð svona smáhýsi virka vel í öðrum höfnum og við teljum að þetta muni bæði bæta þjónustuna og gera svæðið snyrtilegra,“ segir Pétur og bætir við að bærinn hafi þá líka möguleika á að nýta þessi smáhýsi á Ráðhústorgi í kringum jólin.

Hvað framtíðina varðar vonast Pétur til þess að Akureyri, og Ísland í heild sinni, verði enn inni á kortum skipafélaganna, en til að tryggja það þurfi stjórnvöld og hafnir að vinna saman að lausnum. Að hans mati liggur mest á að endurskoða innviðagjaldið og mögulega þróa hvata fyrir umhverfisvænni skip. „Við viljum að Akureyri haldi áfram að vera vinsæll áfangastaður fyrir skemmtiferðaskip, en það krefst þess að við séum samkeppnishæf. Ef við leggjum ósanngjörn gjöld á skipin er hætt við að þau fari annað, það er raunveruleg hætta á því,“ segir Pétur að lokum.