Fréttir
Bílum lagt vikum saman við Flugsafnið
23.03.2025 kl. 17:00

Undanfarið hefur borið á því að flugfarþegar leggi bílum sínum við Flugsafn Íslands á Akureyrarflugvelli dögum eða jafnvel vikum saman. Þetta kemur fram á Facebook síðu safnsins í dag.
„Að gefnu tilefni: Bílastæði við Flugsafnið eru einungis ætluð starfsfólki og gestum safnsins,“ segir á síðu safnsins.
„Við biðjum fólk vinsamlegast um að virða það að bílastæði safnsins eru einungis fyrir þá sem eiga erindi á safnið. Sett verða upp skilti á næstu dögum með þeim upplýsingum. Jafnframt er vert að vekja athygli á því að hætta er á snjóhruni af þaki hússins þegar þannig viðrar og eru gestir varaðir við því með merkingum nærri inngangi safnsins.“
Vafalítið má rekja þetta hátterni flugfarþega til þess að Isavia hóf gjaldtöku á bílastæðum á Akureyrarflugvelli á síðasta.
Á vef Isavia segir um bílastæðagjaldið:
- Fyrstu 14 klukkustundirnar á hverjum sólarhring eru fríar.
- Verð fyrstu 7 dagana er 1.750 kr. fyrir hvern byrjaðan sólarhring og næstu 7 daga er greitt 1.350 kr.
- Eftir 14 daga lækkar gjaldið niður í 1.200 kr. á sólarhring.
- Ef ekki er greitt fyrir stæðið 48 klst. frá útkeyrslu berst reikningur í heimabanka að viðbættu 1.490 kr. þjónustugjaldi.