Fara í efni
Pistlar

Vélmennin

Mér hefur alltaf staðið stuggur af því sem kallað er gervigreind. 

Þó er ég sérfræðingur í gervigreind; um árabil hef ég með góðum árangri stundað að sýnast gáfaðri en ég er – enda kannski ekki erfitt verkefni myndu sumir segja.

Gervigreindin hefur smám saman verið að mjaka sér inn í tilveru okkar mannanna. Vélarnar verða sífellt gáfaðri. Brauðristin ristar brauðið eins og manni finnst það best. Vekjaraklukkan býðst til að hringja á mann nokkrum mínútum eftir að hún hringdi fyrst, sé maður ekki útsofinn. 

Eiginleg vélmenni eru þó nýrri af nálinni.

Þau hafa alltaf skelft mig. Eina ástæða þess ótta er eflaust að finna í vísindasögum sem ég hef lesið og framtíðarmyndum sem ég hef séð þar sem gervigreindin varð smám saman meiri en greind mannanna. Vélmenni og ofurtölvur tóku ráðin af mönnunum og gerðu þá að þrælum sínum og undirsátum.

Þrátt fyrir þessa róbótafælni keypti ég fyrir nokkrum vikum ryksuguvélmenni. Það er svo fluggáfað kvikindi, að það mjakar sér og snýr út úr sjálfheldum sem það kemur sér í, svigar framhjá blómapottum og borðfótum, veit hvenær það er á parketi og ræsir þá mopputitrarann og vatnsúðarann en þegar það bröltir upp á teppi fer ryksugan á meiri styrk og eirir engu. 

Þetta er ótrúleg skepna og er unun að fylgjast með henni leysa sín mikilvægu verkefni. 

Vélmennið okkar leggur herbergjaskipan og helstu innanstokksmuni á minnið. Það ratar heim í hleðsluhöfnina þegar það hefur lokið þrifum og hefur þar hægt um sig uns óskað er eftir þjónustu þess á nýjan leik. Ef það flækir sig í snúrum lætur það vita og ef ég er ekki heima hringir það í mig. Það er sér svo meðvitað um eigin takmarkanir að það reynir ekki að fara niður þrep og stiga og sýnir þar meira vit en mörg manneskjan á þriðja glasi.

Ég stýri vélmenninu með gemsanum mínum og við erum í sambandi í gegnum hann. Ég gæti skipað því að þrífa stofuna þótt ég væri í Ástralíu eða þar sem netsamband næst. Vegna fordóma minna í garð gervigreindar og vélmenna þykir mér þó vissara að senda kvikindið ekki í vinnu nema ég sé heima og geti haft auga með því – og hef símann tiltækan ef það færi yfir einhver mörk og þyrfti að senda það í heimahöfn. 

Nú um helgina urðu þó nokkur tímamót í sambandi mínu við vélmennið. Ég ákvað að láta það þrífa stofuna á meðan ég settist fyrir framan sjónvarpið til að fylgjast með liðinu mínu í enska boltanum. Það var bara notalegt að heyra suðið í því þegar það skúraði parketið eða hvininn í því þegar það brá sér upp á motturnar eftir því sem gervigreind þess fyrirskipaði.

Þegar leiknum var lokið hafði kvikindið því sem næst lokið verkum sínum. Þá fann ég þörf fyrir að nýta mér aðstöðuna á baðherberginu á mínu eigin heimili. Vélmennið var önnum kafið í öðrum vistarverum svo ég ákvað að skella mér á klósettið fyrir luktum dyrum enda þörfin orðin knýjandi. 

Einhvern veginn hefur ryksuguvélmennið skynjað þessa breyttu staðsetningu mína því ég var varla sestur þegar það byrjaði að hamast á hurðinni. Ég var dauðfeginn að hafa hurðina á milli okkar en þegar dyrum var ekki upplokið fyrir því lét það ryksuguna hvæsa illskulega og höggin dynja frekjulega á hurðinni. Tilburðirnir voru svo ógnvekjandi að ég þorði ekki öðru en að standa upp frá hálfkláruðu verki, hleypa kvikindinu inn og forða mér út með buxurnar á hælunum.

Þegar ég hafði hysjað upp mig buxurnar og jafnað mig rann mér kalt vatn á milli skinns og hörunds. Mér varð ljóst, að þannig rætast spádómar vísindaskáldsagnanna.

Vélmennin byrja að reka mann af dollunni. 

Síðan taka þau af manni öll önnur völd.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur 

BRAVÓ BOLÉRO

Jón Hlöðver Áskelsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 06:00

Tekið slátur

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 11:30

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00