Fara í efni
Pistlar

Blautir draumar

Sólbjarta sumarnótt í nýliðinni viku dreymdi mig að ég hefði verið fenginn til að hreinsa botn Svarfaðardalsár. Ég öslaði niður hana í vöðlum, vopnaður hrífu og þeytti allskonar rusli upp á árbakkana, spúnum, girnisflækjum, plastbrúsum og netadruslum, svo nokkuð sé nefnt.

Verkið sóttist vel í prýðilegu veðri. Ekki varð ég var við fiska í ánni fyrr en ég var kominn til móts við bæinn Bakka en bræður við hann kenndir gerðu hann sögufrægan. Þótt fiskarnir sem ég sá þar syndandi væru á stærð við væna silunga komst ég að því við nánari athugun að þar voru svonefndir vatnakarpar á ferð. Ég vissi að bóndi í dalnum væri að fikta við ræktun á þannig fiskum í bæjarlæknum, ekki til manneldis, heldur til að selja sem gæludýr í tjarnir. Líklega hefðu karparnir sloppið úr eldinu en eins og alþjóð veit er Íslendingum gjörsamlega fyrirmunað að koma sér upp kvíum sem halda fiski.

Ég brá mér upp á bakkann þarna við Bakka til að virða betur fyrir mér þessi aðskotakvikindi en þá vildi svo til að stærsti karpinn í torfunni stökk upp á bakkann á eftir mér. Hann elti mig með því að smjúga um grasið, svo langt að ég sá að hann myndi drepast ef ég næði ekki að koma honum út í ána á ný. Ég kastaði mér því yfir hann en erfitt reyndist að ná tökum á sleipu roðinu.

Ekki veit ég hvernig sú viðureign endaði því áður en henni lauk hafði konan ýtt við mér. Hún vissi ekki alveg á hverju væri von þegar hún vaknaði upp með eiginmanninn iðandi við hliðina á sér þessa björtu sumarnótt en fljótlega kom í ljós, að hann hefði verið að glíma við risastóran skrautfisk á bökkum Svarfaðardalsár.

Um daginn las ég sögu um konu sem dreymdi, að eiginmaðurinn hefði gefið henni forkunnarfagra perluhálsfesti. Þegar hún vaknaði sagði hún manni sínum drauminn og sagðist velta fyrir sér, hvað hann þýddi. Hann glotti og sagði að ekki þyrfti hún bíða nema til kvölds eftir svarinu. Í hádeginu brá hann sér úr vinnunni í ofurlitla verslunarferð og kom svo heim með gjöf að kvöldi.

Hún varð víst mátulega ánægð með Stóru draumaráðningabókina.

Oftast er það þannig, að við vitum ekki hvað draumar merkja fyrr en ráðningin hefur orðið að veruleika.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30