Fara í efni
Pistlar

Sísofandi

Afi minn heitinn og nafni sagði mér stundum sögu af karli sem var viðstaddur skírn sveinbarns. Því var gefið hið fagra og tilkomumikla nafn, Svavar. Þegar karlinn kom heim úr kirkju og var spurður að því hvað barnið hafi verið látið heita svaraði hann:

„Æ, það var sísofandi eitthvað.“

Alveg burtséð frá því hvort eitthvað syfjulegt sé við nafnið mitt finnst mér fátt betra en að fá mér blund og hef gert það við hin ólíklegustu tækifæri, viljandi og óviljandi. Ég hef til dæmis oftar en einu sinni sofnað í kirkju – þó aldrei nema sem gestur.

Ef ég á hitt eftir, að sofna við helgiþjónustu í kirkju, bið ég ykkur vinsamlegast að ganga upp að altarinu og ýta mjúklega við mér. Kirkjudott á sér í langflestum tilfellum aðeins þær orsakir, að manni líður vel í kirkjunni og hefur náð að afstressast. Fátt mælir meira með kirkjulegu starfi en svefnværir kirkjugestir – og jafnvel blundandi prestar.

Einu sinni tókst mér að sofna í leikfimi. Ég hafði verið í mjög erfiðum og átakamiklum karlatíma. Við enduðum á því að sækja okkur dýnur, leggjast á þær, teygja vel á vöðvum og gerðum síðan öndunaræfingar. Í blálokin lét stjórnandinn okkur slaka vel á. Ég gerði það svo bókstaflega að allt í einu dunuðu þungar hrotur í íþróttasalnum.

Þetta er án efa eitt mesta afrek mitt á sviði íþrótta.

Um síðustu helgi fengum við hjónin dóttur okkar í heimsókn. Sú naut þess mjög að vera á „Hótel mömmu og pabba“ og við nutum þess jafnmikið að stjana við hana. Á laugardagskvöldinu var ákveðið að finna eitthvað að horfa á saman eins og í gamla daga. Við hreiðruðum um okkur í sjónvarpssófanum með vænar birgðir af snakki og gosi. Áhugaverð mynd fannst á efnisveitu og notalegheitin hófust.

Auðvitað rann mér fljótlega í brjóst og þyngdist svefninn eftir því sem á myndina leið. Á ákveðnum hápunkti hennar þurfti að sækja dýralækni til að hjálpa kú að bera kálfi. Gekk á ýmsu og var brugðið á það ráð að draga kálfinn úr kúnni með reipi.

Þá svaf roskinn karl á Syðri-Brekkunni svo innilega að þær mæðgur fullyrtu, að iðulega hefðu þær ekki getað áttað sig á hvort ýlfrandi baulið átti uppruna sinn úr hljóðkerfi sjónvarpsins eða sjónvarpssófanum.

Svavar Alfreð Jónsson er sjúkrahúsprestur

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30