Fara í efni
Pistlar

Þjóðvegir

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 37

Á sjöunda áratugnum voru bifreiðar jafn hastar og vegir landsins voru ósléttir. Það merkti að farþegar hentust til inni í blikkboxinu – og því meira gekk á sem greiðar var ekið um bugðótta slóðana, sem voru að mestu einbreiðir, þótt stundum væri gert ráð fyrir að bílar mættust, en þá var það líka sérstaklega tekið fram með umferðarskilti þar sem á stóð bókstafurinn M.

Mestu vandræðin voru þó púnkteríangarnar. Enginn venjulegur hjólbarði þoldi allt þetta áreiti oddhvassra steinvala sem stóðu eins og stríðsmenn upp úr malarveginum, þess albúnir að stinga gat á blessaðan belginn undir bílnum.

Og fyrir vikið voru dekkjaverkstæði eins og perlufesti hringinn í kringum þjóðveg landsmanna, einmitt í þann mund sem hann var að samtengjast á söndunum suður af jöklum.

En þar var komin þjóðhátíð.

Og allir fóru hringinn.

Afi Sigmundur, sem hafði aldrei komist lengra en í Atlavík með ömmu Sigrúnu, sem dó raunar vetrinum áður – og þeim hafði fundist það vera langleiðina í útlöndin að sjá sjálfan Hallormsstaðaskóg – sat núna gáttaður og hljóður við hliðina á ungum nafna sínum í aftursætinu á brúnum Bronco – og það átti fyrir honum að liggja að tjalda á Kirkjubæjarklaustri, eftir að hafa fengið sér kaffi og rjómapönnuköku á Hótel Hornafirði.

Svona varð þá orðið stutt á milli fljóta, hugsaði aldamótamaðurinn.

En við keyrðum sumsé hringinn með þann gamla um borð. Og hann gat ekki á heilum sér tekið. Jörðin væri ekki bara kúla. Ísland væri líka kringlótt.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: HVÍTLAUKUR

Hús dagsins: Laxdalshús, Hafnarstræti 11. (230 ára í ár)

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
14. janúar 2025 | kl. 07:00

Keiluspil

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
13. janúar 2025 | kl. 11:30

Bixímatur

Jóhann Árelíuz skrifar
12. janúar 2025 | kl. 10:00

Geðheilbrigðisþjónusta – Skipulag, samvinna og stjórnun

Ólafur Þór Ævarsson skrifar
12. janúar 2025 | kl. 09:00

„Aumingja þessi, öllum er sama um hann!“

Orri Páll Ormarsson skrifar
10. janúar 2025 | kl. 12:00

Desember 1915

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
09. janúar 2025 | kl. 21:00