Sumarfrí mikilvæg heilsubót
Fræðsla til forvarna - XXVI
„Sælt er að eiga sumarfrí,
sveimandi út um borg og bý...“
söng Ómar Ragnarsson forðum með gleði og tilhlökkun í rómnum.
Gott sumarfrí er mikilvæg heilsubót og öflugt tækifæri til forvarna. Og bara tilhlökkunin lætur manni strax líða betur.
Að komast frá vinnu og hvílast bætir líkamlega heilsu, dregur úr hættu á hjartasjúkdómum, dregur úr verkjum og bætir svefn.
Geðheilsan stórbatnar líka og það er mælanlegt með minni einkennum kulnunar og depurðar. Og flestum líður almennt betur við hvíld og tilbreytingu og finna aukna hamingjutilfinningu og einbeiting og minni batnar.
Bætt andleg og líkamleg grunnlíðan hefur síðan bein áhrif á félagslega heilsu með bættum samskiptum og eflingu sambanda og fjölskyldutengsla. Og fyrir launagreiðandann eru kostirnir augljósir þegar starfsfókið mætir aftur til vinnu með aukinn kraft, áhuga og frjórri hugsun. Það sem virtist óleysanlegt fyrir sumarfrí er orðið auðleysanlegt.
Það sem gerist í heilanum við hvíldina í fríinu er að gróningarmáttur heilans tekur fjörkipp, heilataugarnar styrkjast og tengjast betur og samstarf heila og hormóna og líkamans styrkist.
Þeir sem eru líklegastir til að sleppa sumarfríinu eru þau samviskusömu og duglegu sem telja sig ómissandi. Það er sami hópur sem er í mestri hættu að sökkva langt inn í heim kulnunarinnar og eru þá auðvitað í mestri þörf fyrir frí.
Eftir að hafa lesið yfir þær fjölmörgu rannsóknir sem gerðar hafa verið á sviði læknisfræði, forvarna og vinnusálfræði er ég kominn á þá skoðun að hvatning til að taka gott sumarfrí sé eitt öflugasta læknisráðið sem hægt er að gefa.
Gleðilegt sumar.
Ólafur Þór Ævarsson er geðlæknir