Fara í efni
Pistlar

Sparksleði

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 22

Fyrsta æskuminningin er trúlega sú þegar Sigfús afi fer með mig harla gleitt á gamla sparksleðanum niður endilangan Gilsbakkaveginn. En þar er brattinn hvað mestur í norðanverðu gilinu. Og svo til ekkert pláss í neðra sem getur stöðvað sleipa för.

Ég man ekki veðrið, þótt ugglaust hafi haugað niður snjó í sömu mund og gamli maðurinn hafði það af að ýta sleðagarminum upp á efsta punkt götunnar, en því næst var að festa hattinn helst til betur á höfði og þétta úlpuna um háls, þessa eina og sömu flík sem var hans vænsta skjól á vettvangi dagsins, fagurgrænu kaupfélagsgæruna með renndri hettu og öðru tilheyrandi.

En svo batt hann mig fastar. Það var tryggara. Með þykka treflinum hennar ömmu sem var á lengdina svo mikill að litli afaguttinn var að lokum þrívafinn við stólbakið á sleðanum. Og mátti vart andæfa, svo vel var hert um hnútana.

En þá hófst salíbunan. Það var búið að fíra upp í pípunni í kjafti gamla mannsins og nú skyldi láta vaða. Og mestum verð var lappavinnan. Að standa stíft og þétt á stöngunum. En þær áttu það til að fara á svig ef fótunum var ekki stappað nógu sterkt á lárétt skautavirkið. Þess þá heldur að negla þær hart í hjarnið.

Og það hét að skransa. Engir gerðu það betur en þeir sem brýndu járnin í samræmi við tíðarfarið. Og þar var afi læs á langan vetur, en hann brá stálinu á sleðann eftir því sem frost og þýða fóru völdum sínum um veturinn.

Sigfús afi dó drottni sínum eftir eina þessara vetrarferða okkar. Hann notaði síðustu kraftana í að hafa sleðann til svo hann gæti farið almennilega niður brekkuna sína. Og það hlóð skæni í vegkantinn þar sem hann fór um, svo þétt sem stigið var á töglin, án þess þó að sætisbakið brotnaði. En það var kúrsinn.

Með strákinn sinn í hásætinu. Nokkuð smeykan, en til í næsta nudd.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SÍGILDAR SÖGUR

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30