Nær Aron Einar að bæta landsleikjamet Birkis?

Aron Einar Gunnarsson, þriðji leikjahæsti landsliðsmaður Íslands í karlaflokki, er í landsliðshópnum á ný fyrir tvo leiki í Þjóðadeildinni gegn Kosóvó eins og fram hefur komið. Þórsarinn Aron Einar á 104 landsleiki að baki og vantar níu leiki til að jafna met annars Akureyrings, Birkis Bjarnasonar.
Fyrri leikurinn gegn Kosóvó er á morgun og sá seinni á sunnudaginn. Gert er ráð fyrir að Aron verði í liðinu sem miðvörður.
KA-maðurinn Birkir hefur leikið flesta leiki allra með karlandsliði Íslands, 113 landsleiki og spennandi verður að sjá hvort Aron Einar nær að jafna það eða bæta á næstu mánuðum. Tveir leikir eru framundan við Kosóvó, sem fyrr segir, vinuáttuleikir við Skotland og Norður-Írland í kjölfarið og síðan sex til átta leikir í undankeppni HM sem fram fer vestanhafs á næsta ári.
- Birkir sló leikjamet Rúnars Kristinssonar með A-landsliðinu 14. nóvember 2021 þegar Ísland mætti Norður-Makedóníu í Skopje í undankeppni heimsmeistaramótsins og var fyrirliði í leiknum; það var 105. landsleikur Birkis.
- Fyrsti leikur Birkis með A-landsliðinu var á Laugardalsvelli 29. maí 2010, þegar Ísland vann Andorra 4:0 í vináttuleik. Síðast landsleikur hans var gegn Albaníu í Tirana 27. september 2022 í Þjóðadeildinni.
- Fyrsti leikur Arons Einars með A-landsliðinu var gegn Hvíta-Rússlandi (Belarús) 2. febrúar 2008 í æfingaleik á Möltu en hann var fyrst fyrirliði liðsins gegn Frökkum 27. maí 2012 þá aðeins nýorðinn 23 ára og bara að leika sinn 27. landsleik.
Þessir eru leikjahæstir með A-landsliði karla:
- Birkir Bjarnason 113
- Rúnar Kristinsson 104
- Aron Einar Gunnarsson 104
- Birkir Már Sævarsson 103
- Jóhann Berg Guðmundsson 99
Rúnar lagði skóna á hilluna fyrir margt löngu og Birkir er hættur með landsliðinu.