KA verður að vinna Íslandsmeistarana

KA tekur á móti Íslandsmeisturum FH í kvöld, í næst síðustu umferð Olísdeildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í handbolta og þá er að duga eða drepast fyrir KA-strákana. Þeir verða að vinna til að eygja möguleika á sæti í úrslitakeppninni. Leikurinn hefst kl. 19.30.
KA-menn ráðast sannarlega ekki á garðinn þar sem hann er lægstur. Þvert á móti; FH-ingar eru í efsta sæti deildarinnar með 31 stig að loknum 20 leikjum en KA-liðið er með 13 stig í níunda sæti. KA er þremur stigum á eftir HK sem mætir Val í kvöld. HK er með betri árangur í innbyrðis viðureignum við KA og von KA-manna felst í því að vinna tvo síðustu leikina, gegn FH og Fjölni, og HK tapi tveimur síðustu. Þar með færi KA einu stigi upp fyrir HK og í áttunda sætið eftirsótta. Verði liðin jöfn að stigum hreppir HK áttunda sætið.
Úr því fæst sem sagt skorið í kvöld hvort KA á enn von um sæti í úrslitakeppninni. Því er ástæða til að hvetja stuðningsmenn liðsins til að fjölmenna í KA-heimilið og fylkja sér á bak við liðið; ef ekki núna, hvenær þá?
Nefna verður í leiðinni að enn er tölfræðilegur möguleiki á því að KA falli úr deildinni en líkurnar á því eru þó nánast engar. Til þess þarf KA að tapa báðum leikjunum, ÍR að fá þrjú stig úr tveimur leikjum gegn Stjörnunni og FH, og Grótta að vinna bæði Hauka og Aftureldingu.
Staðan í neðri hluta deildarinnar er þessi, og sjá má hvaða leiki liðin eiga eftir:
HK í 8. sæti með 16 stig
- HK – Valur
- ÍBV – HK
KA er í 9. sæti með 13 stig
- KA – FH
- Fjölnir - KA
ÍR er í 10. sæti með 11 stig
- ÍR – Stjarnan
- FH - ÍR
Grótta er í 11. sæti með 10 stig
- Haukar – Grótta
- Grótta - Afturelding
Fjölnir er í 12. sæti með 8 stig
- Afturelding – Fjölnir
- Fjölnir – KA
Flautað verður til leiks í KA-heimilinu kl. 19.30 sem fyrr segir. Í tilkynningu frá KA kemur fram að upphitun hefst kl. 18.30 með spurningakeppni og svo verður boðið upp á skotkeppni þar sem mælt verður hver skýtur fastast.