Fara í efni
Íþróttir

KA fagnaði tveimur deildarmeistaratitlum

Julia Bonet Carreras, sem smassar hér gegn Þrótti í kvöld, er lang stigahæsti leikmaður Íslandsmóts kvenna. Hún hafði í nógu að snúast í dag þvi fyrir leik kvennaliðsins var hún á bekknum hjá karlaliðinu, Mateo þjálfara og leikmanni liðsins til aðstoðar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

KA er deildarmeistari bæði karla og kvenna í blaki. Bikararnir fóru á loft í KA-heimilinu í kvöld, fyrst hampaði karlaliðið sínum að loknum 3:2 sigri á Vestra og síðan kvennaliðið eftir 3:0 sigur á Reykjavíkur-Þrótti.

Deildarmeistaratitillinn var þegar í höfn hjá KA í karlaflokki fyrir leik dagsins eftir að Þróttur frá Reykjavík, sem er í öðru sæti, tapaði fyrir Aftureldingu í vikunni. Og þegar kvennaleikurinn hófst var einnig ljóst að KA-konur yrðu deildarmeistarar. Völsungur frá Húsavík, sem er í öðru sæti, hefði getað jafnað KA að stigum með sigri á Afturelding á útivelli í dag, en Mosfellingar unnu og eftir það gat enginn náð KA að stigum.

Ariel, tveggja ára dóttir blakhjónanna Paula del Olmo Gomez og Miguel Mateo Castrillo, fékk gullpening um hálsinn eftir báða leikina! Hér er hún hin rólegasta inni í hringnum þegar faðir hennar ræddi við leikmenn strax eftir að þeir fengu bikarinn afhentan. Mynd Skapti Hallgrímsson 

Karlaleikurinn var hörkuspennandi. KA vann fyrstu tvær hrinurnar, 25:15 og 26:24 en gestirnir tvær næstu, 25:22 og 25:21. KA vann svo oddahrinuna 15:11 og þar með leikinn. Töluverð spenna var líka í kvennaleiknum en KA vann þó 3:2 – hrinurnar enduðu 25:17, 25:20 og 25:22.

KA varð efst í karladeildinni með 50 stig, Þróttur frá Reykja­vík endaði með 47 stig og Ham­ar fékk.

Í kvennadeildinni fékk KA 46 stig, Völsungur 43 og Afturelding 37.

Úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn hefst senn, bæði karla- og kvennaflokki. Kvennalið KA á titil að verja; KA-stelpurnar hafa raunar hampað Íslandsbikarnum síðustu þrjú ár.

Deildarmeistarar KA í kvennaflokki eftir sigurinn á Þrótti í kvöld. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Karlalið KA, deildarmeistari í blaki eftir sigurinn á Vestra í dag. Mynd: Valgeir Bergmann