Fara í efni
Pistlar

Marúla. Það sem fílar fíla

TRÉ VIKUNNAR - LXXXIII

Tré vikunnar er ein af lykiltegundunum á sléttum Afríku. Í umfjöllun okkar um tréð komum við inn á jafn ólíka hluti og hugsanlegt fyllerí fíla, rjómalíkjör, þjóðflutninga Bantú þjóðarinnar og ákvörðun á kyni ófæddra barna. Er þó aðeins fátt eitt nefnt. Tré vikunnar er marúlatréð eða Sclerocarya birrea.

Marúlatré. Myndin fengin héðan. 
Ættfræði
 

Þetta merkilega tré er af ætt trjáa sem kallast Anacardiaceae eftir ættkvísl kasjúhnetunnar. Ættkvíslarheiti hennar er Anacardium eins og fræðast má um í pistli okkar um tegundina. Því er ekki úr vegi að kalla ættina kasjúhnetuætt á íslensku. Hluti af báðum heitunum er dregið af gríska orðinu kardium (καρδιά). Það merkir hjarta enda mun vera algengt innan ættarinnar að aldinin séu hjartalaga. Innan þessarar ættar eru um 860 tegundir sem mynda allskonar tré og runna eins og sagt er frá í áður nefndum pistli um kasjúhnetur. Margar tegundir ættarinnar framleiða æt aldin en sumar framleiða eiturefni til að verja sig með fyrir afræningjum.

Í grófum dráttum má skipta þessari ætt í tvær undirættir. Meirihlutinn af ættinni, eða um þrjár tegundir af hverjum fjórum, lifir fyrst og fremst á norðurhveli jarðar. Hin undirættin er til muna fáliðaðri og er tré vikunnar af þeirri undirætt. Hana er fyrst og fremst að finna í Afríku en einnig í Asíu. Þessi skipting stafar af því að ættin kom fram þegar öll meginlöndin voru sameinuð í eitt, stórt meginland sem kallað hefur verið Pangea. Þegar það brotnaði upp urðu fyrst til tvær stórar álfur. Önnur í norðri, sem kölluð er Laurussia, hin í suðri og kallast Gondwana. Plöntur innan kasjúhnetuættarinnar voru þá í báðum, stóru álfunum og hvor hópur þróaðist á sínum eigin forsendum. Því eru plönturnar í Afríku og Suður-Asíu, sem áður tilheyrðu Gondwana, töluvert frábrugðnar þeim sem þróuðust í norðurálfunni Laurussia.

Fíll skoðar marúlatré í kvöldsólinni á gresjum Afríku. Myndin fengin héðan af iStuk en hana tók AOosthuizen.
Fræðiheitið 
 

Ættkvíslin, sem tré vikunnar er af, er ein af um 80 ættkvíslum innan ættarinnar. Hún heitir Sclerocarya. Það er sett saman úr grísku orðunum σκληρός ⟨sklērós⟩, sem merkir „harður“ og κάρυον ⟨káryon⟩, sem merkir „hneta“. Orðið Sclerocarya merkir því harðhneta. Það vísar í hinn harða stein (eins og við köllum gjarnan fræ í ávöxtum, sbr. eplasteinn) sem er inni í hinum mjúka ávexti sem tréð myndar.

Innan þessarar ættkvíslar eru aðeins tvær tegundir. Okkar tegund heitir Sclerocarya birrea en hin tegundin heitir S. gillettii. Sú tegund er býsna fágæt og er einlend í Keníu. Hún er talin í útrýmingarhættu. Viðurnefnið á okkar tegund er notað sem heiti á trénu í sumum tungumálum. Þá kallast tréð eitthvað í líkingu við birreatré og hneturnar birreahnetur. Það nafn er hvorki betra né verra en marúla en í þessari grein höldum við okkur við það.

Hneturnar (fræin) inni á ávöxtunum eru í harðri skel. Fræðiheitið vísar í það. Myndina tók hinn þýski Genet og birti á Wikipedia.
Heimkynni 
 

Marúlatré vaxa fyrst og fremst á staktrjáasléttum í Afríku sunnan Sahara og allt suður til Suður-Afríku. Það er gríðarlega stórt landsvæði enda er Afríka ákaflega stór. Sennilega á þessi mikla útbreiðsla því að þakka að mannfólkið hefur flutt tegundina með sér. Síðar í þessum pistli segjum við frá því að talið er að fílar séu þau villtu dýr sem dreifa tegundinni mest. Þegar á allt er litið eru þeir þó í öðru sæti á eftir mannfólkinu. Það er mannkynið sem hefur dreift þessari tegund út um nær allar sléttur Afríku. Talið er að upphaflega hafi tegundina aðeins verið að finna í Vestur-Afríku.

Marúla innrásin 
 

Á árabilinu frá því um 2000 fyrir upphaf okkar tímatals og til svona 1500 eftir Krists burð áttu sér stað gríðarmiklir fólksflutningar í Afríku. Er talað um þá flutninga sem Bantúflutningana. Bantúmenn bjuggu upphaflega í Vestur- Afríku sunnan Sahara. Á þessum tíma fluttu stórir hópar fólks suður í regnskógana. Aðrir hópar fóru þvert yfir álfuna, sunnan Sahara, til norðausturhorns álfunnar þar sem nú er Sómalía og þaðan suður eftir allri Austur-Afríku allt til Góðravonarhöfða í suðri. Eins og svo algengt er í sögu mannkyns flutti þetta fólk með sér menningu sína og siði. Þar á meðal var þekking þeirra á járnvinnslu sem gaf þeim hvarvetna nokkuð forskot. Einnig tóku þeir auðvitað með sér ræktunarmenningu og tungumál. Til marks um þessa miklu þjóðflutninga má nefna að málfræðingar telja að sunnan Sahara séu um 500 tungumál sem teljast til Bantúmála eða séu af þeim komin (Cartwright 2019). Nánar má lesa um þessa þjóðflutninga hér. Eitt af því sem Bantúmenn fluttu með sér var ræktun marúlatrjáa.

Örvarnar sýna þjóðflutninga Bantúmanna samkvæmt Cartwright 2019. Dökkgrænu litirnir á kortinu tákna hina frægu regnskóga Afríku. Þar þrífst marúlatréð ekki, heldur á staktrjáasléttunum í kringum þá. Tréð þrífst ekki heldur í eyðimörkum sem eru táknaðar með brúnum lit á kortinu. Bantúmenn höfðu engan áhuga á þeim en þangað flæmdust sumar þjóðir undan Bantúmönnum og búa þar enn.
Undirtegundir 
 

Þessir miklu fólksflutningar um Afríku sunnan Sahara ásamt þeirri ræktunarmenningu sem þeim fylgdi leiddi til þess að nú má í álfunni finna þrjár mismunandi undirtegundir af marúlatrjám. Í grasafræðinni er þetta kallað subspecies. Hér notum við styttinguna subsp. eins og algengt er. Í hvert skipti sem hópar fólks tóku sig upp og fluttu tóku þeir með sér sýnishorn af bestu trjánum á hverjum stað. Það úrval hefur skilað af sér mismunandi stofnum trjáa. Fyrst ber að nefna Sclerocarya birrea subsp. birrea sem vex á belti, þvert yfir álfuna norðan við miðbaug. Það er upprunalega tegundin. Svo tekur við subsp. multifoliolata í Austur-Afríku í löndunum Keníu, Tansaníu og þar í kring. Þar fyrir sunnan tekur við subsp. caffra sem vex fyrst og fremst í suðurhluta Afríku og á Madagaskar. Þetta er einmitt sama leiðin og stórir hópar fóru í þessum miklu þjóðflutningum sem stóðu yfir í um hálfa fjórðu þúsöld. Af þessum undirtegundum er aðeins ein sem er ræktuð til útflutnings. Það er sá hópur sem gengið hefur í gegnum mesta valið: S. birrea subsp. caffra. Samt er það svo að heimamenn á hverjum stað nýta sér trén til matar en yngsta undirtegundin þykir henta best til ræktunar. Rétt er að taka það fram að þótt þessi tegund sé af flestum talin framandi og ágeng um stærstan hluta álfunnar dettur engum í hug að amast við henni.

Dreifing undirtegunda af marúlatrjám samkvæmt Science Direct. Myndin er tekin úr grein þar sem fjallað er um hættuna sem tegundinni stafar af loftslagsbreytingum og sýnir hvar tegundin var skoðuð en ekki heildarútbreiðsluna. Myndin gefur samt útbreiðsluna til kynna. Tegundina er ekki að finna í hinum myrku frumskógum heldur á staktrjáasléttunum. Fróðlegt er að bera þetta kort saman við kortið hér að ofan sem sýnir þjóðflutninga Bantúmanna.
Útlit
 

Við höfum áður fjallað um nokkrar afrískar trjátegundir. Meðal annars höfum við í nokkrum pistlum sagt frá akasíum en þær þekkjum við helst úr fræðslumyndum BBC undir stjórn Sir David Attenborough. Marúlatré vaxa oft á svipuðum slóðum. Við höfum einnig sagt frá hinum stórfurðulegu baobabtrjám og drekablóðstrjám. Miðað við þessi furðulegu tré er marúlatréð nokkuð venjulegt í útliti. Ólíkt nágrönnum sínum á gresjunni, akasíunum, hafa þessi tré hvorki þyrna né eins áberandi flata krónu. Það hefur að jafnaði einn stofn og verður um 18 metrar á hæð. Eins og flest lauftré sem við þekkjum gengur það í gegnum breytingar tengdum árstíðum. Að vísu eru árstíðirnar sunnan miðbaugs alveg öfugar miðað við okkar árstíðir. Þar má búast við að trén standi í fullum skrúða frá október og fram í maí, en mikil úrkoma eða úrkomuleysi getur haft áhrif á þessar dagsetningar.

Blómgun 
 

Blómgun trjánna er á vorin. Algengast er að það sé í september til nóvember sunnan miðbaugs. Meginreglan hjá amarúlatrjám er að trén eru einkynja. Hvert tré er annað hvort karlkyns eða kvenkyns. Karlkyns tré mynda frjó en enga ávexti en kventrén mynda eftirsótta ávexti ef frjó berst frá karltrjám. Þetta er þó ekki algilt. Til eru karlkyns tré sem mynda bæði karlkyns og kvenkyns æxlunarfæri og geta því myndað aldin, þótt það sé í minna mæli en hjá kventrjánum. Svo er að sjá sem þessi tvíkynja tré geti sjálf frjóvgað kvenblómin. Hjá þeim þarf ekki tvo í tangó. Það liggur fyrir að það er víðar en í mannheimum sem kynhlutverk eru ekki jafn klippt og skorin eins og áður var talið.

Hvernig sem þessu er háttað eru það skordýr sem sjá um frævun trjánna. Blómin framleiða sykrur sem ýmiss skordýr sækja í og í leiðinni þjóna sínu hlutverki fyrir trén með stakri prýði. 
 
 
Ávöxtur
 

Kvenkyns marúlatré mynda æt og bráðholl steinaldin. Þau eru á stærð við plómur og í hverjum ávexti er kjarni innan í mjög harðri skel sem kallast marúlahneta. Fræðiheiti tegundarinnar vísar í þessar hnetur eins og áður greinir. Fjöldi fræja (hneta) í hverri skel getur verið frá einu og upp í fjögur. Fer það eftir því hversu vel frjóvgunin tókst. Fræin eru mjög olíurík. Það er meira að segja hægt að kreista fræin í höndunum þannig að olían leki út.

Marúlaolía til sölu á Ongwediva markaðinum í Namibíu. Myndina á Pemba.mpimaji og birtist hún á Wikipediu. 
 

Hýðið utan um ávöxtinn er leðurkennt og þykkara en gengur og gerist með svipaða ávexti. Holdið er mjög C-vítamínríkt og finnst það á bragðinu. Ávöxturinn er súr á bragðið.

 
 
Ávöxtur marúlatrésins. Myndin fengin héðan. 
 

Svo er að sjá sem fjölmörg dýr líki ljómandi vel við þetta súra bragð. Mörg stór spendýr, fuglar og skriðdýr sækja í ávextina en ráða ekki endilega við að brjóta skurnina af fræjunum. Apategundir hafa komist upp á lag með það og éta fræin innan úr hnetunum. Slíka meðferð þola fræin ekki. Ef dýrin eru nægilega stór gleypa þau hneturnar með húð og hári. Fræin ganga svo heil niður úr þeim og oft víðsfjarri móðurtrjánum. Þá eru þau tilbúin til að vaxa upp úr næringarríkum taðhaugum sem ný tré. Í náttúrunni eru það fyrst og fremst fílar sem sjá um að dreifa fræjum marúlatrésins á þennan hátt.

Mörg dýr á sléttum Afríku eru hrifin af ávöxtum marúlatrésins.
Af ástum fíla og marúla 
 

Til eru þeir sem fullyrða að ást fíla á ávöxtum marúlatrésins stafi af því að þegar þeir síðarnefndu rotna myndist í þeim vínandi. Kenningin er sú að fílarnir fari beinlínis á marúlafyllerí. Fílar eru til dæmis alveg til í að tína ávextina upp af jörðinni þegar þeir eru byrjaðir að rotna og mynda alkahól.


Auðvelt er að trúa því að þessir fílar hafi fengið sér of marga marúlaávexti, en ekki er allt sem sýnist. Myndirnar fengnar héðan en þær tók Ton Rulkens. 
 

Eins og þetta er nú góð saga og gaman að ímynda sér fíla á fylleríi þá hafa rannsóknir sýnt að þeir sækja frekar í ferska ávexti en þá sem byrjaðir eru að skemmast. Það passar ekki alveg við kenninguna. Að auki hefur fólk veitt því athygli að fílar eru almennt heldur í stærra lagi af dýrum að vera. Af því leiðir að ef þeir ættu að finna fyrir einhverjum vímuáhrifum bendir líffræði þeirra til þess að búast mætti við að þeir þyrftu að innbyrða gríðarlegt magn af ávöxtum. Líklegra er að ef þið sjáið fíl haga sér einkennilega á sléttum Afríku sé það vegna þess að hann er fíll, ekki fullur fíll. En sagan er góð og ljóst að fílar sækja mjög í þessa ávexti.


Fyrri myndin sýnir ávexti marúlatrés á jörðinni. Þetta líta fílar á sem veisluborð. Myndin fengin héðan en hana á © Marula Bernard Du Pont. Í greininni er því hafnað að fílar geti orðið fullir af því að éta ávextina. Seinni myndin sýnir að fílar geta lagt töluvert á sig til að ná í ferska marúlaávexti. Myndin fengin héðan. 
 
Siðir og sögur 
 

Sums staðar í Afríku eru til sögur sem tengjast marúlatrénu. Algengt er að þær tengist frjósemi og hjónaböndum. Þess eru dæmi, að sögn Spade (2023) að fjölskyldur brúðhjóna sjóði börk af marúlatrénu fyrir giftingu og andi að sér gufunni. Á það að tryggja sátt og samlyndi hjónaefnanna og fjölskyldna þeirra. Spade segir líka frá því að ef ósætti kemur upp á milli hjóna sé talið ráðlegt að binda þau við marúlatré uns þau hafa leyst úr vandanum, hver sem hann kann að vera. Við þekkjum ekki fleiri tegundir trjáa sem taka að sér hjónabandsráðgjöf.

Þegar kemur að frjósemi er því trúað að það að borða ávöxt marúlatrésins auki líkurnar á því að kona verði þunguð. Vilji kona verða ólétt getur það líka hjálpað að brugga mjöð úr ávöxtunum og gefa karli hennar.
 

Einnig er því sums staðar trúað að hægt sé að hafa áhrif á kyn barna fyrir fæðingu með því að gefa þungaðri móður seyði af berki marúlatrésins. Þetta verður að gerast snemma á meðgöngunni, annars er ekkert að marka. Sé seyðið af karlkyns tré verður barnið drengur en stúlka ef seyðið er af kvenkyns tré. Komið hefur í ljós að þetta virkar ekki alveg alltaf. Fyrir því eru sagðar tvær mögulegar ástæður. Önnur er sú að drykkurinn hafi verið blandaður of seint. Hin er sú að ef andi barnsins er óvenjusterkur ákveður hann sjálfur hvers kyns barnið verður og lætur ekki seyðið hafa nein áhrif á sig. Það eru því sérdeilis jákvæð merki ef þetta mistekst.

 

Marúlaávextir. Myndin fengin héðan. 

Þegar börkur trjánna er nýttur til manneldis er það innri börkurinn sem um ræðir. Fyrst þarf að flysja ytri börkinn af trénu og þá kemur í ljós rauður innri börkur. Það má sjóða seiði úr honum. Einnig má þurrka hann og mylja í duft og nota til að lækna ýmsa blóðsjúkdóma, að því að talið er (Jara, Gericke og Welford 2008, Spade 2023).

 

Börkur á gömlu marúlatré. Sjá má mörg sár þar sem ytri berkinum hefur verið flett af til að komast að innri berkinum. Myndin fengin héðan. 

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

Smellið hér til að sjá allan pistilinn
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00