Fara í efni
Pistlar

Bölvaldur og blessun: Sitkalús

TRÉ VIKUNNAR - 103

Pistill í röðinni Tré vikunnar birtist vikulega á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga, alla miðvikudaga. Akureyri.net birtir brot úr hverjum pistli til að vekja athygli á skrifunum og hvetur fólk til að lesa meira á vefsíðu félagsins.
_ _ _

Í skógum landsins er allskonar lífríki. Þar má auðvitað finna tré en einnig lífverur sem margar hverjar eru meira eða minna háðar trjám. Ein af þeim er lítil lúsategund sem á fræðimálinu kallast Elatobium abietinum Walker. Hún herjar á grenitré, einkum þau sem ættuð eru frá Ameríku, og getur valdið miklum skaða á þeim. Svo mikil eru áhrifin á mest ræktuðu grenitegundina að rétt þykir að kenna lúsina við þessa grenitegund og því heitir hún sitkalús á íslensku. Við, sem hrífumst á allskonar trjám lítum gjarnan á lúsina sem skaðvald, enda er hún það. En í fyrirsögninni tölum við einnig um blessun.

Hvernig ætli standi á því?

Til að fræðast frekar um lúsina og átta sig á blessuninni sem henni fylgir er alveg tilvalið að lesa lengra.

Sitkalús séð að ofan. Sograninn snýr niður og sést ekki á myndinni og rauður litur augnanna er ekki áberandi þegar lúsin er lýst upp fyrir myndatöku. Mynd: Sig.A.
Sitkalús séð að ofan. Sograninn snýr niður og sést ekki á myndinni og rauður litur augnanna er ekki áberandi þegar lúsin er lýst upp fyrir myndatöku. Mynd: Sig.A.

Segja má að þrjár tegundir meindýra herji á íslenskt greni svo orð séu á gerandi. Það eru grenisprotalús, köngulingur og sitkalús. Af þessum þremur veldur sitkalúsin mestu tjóni (Guðmundur og Halldór 1997). Sitkalús hefur herjað á greni á Íslandi í hálfan sjöunda áratug og stundum valdið umtalsverðu tjóni. Hún er græn og nokkuð samlit barrnálunum sem hún situr á. Því er ekki alltaf auðvelt að koma auga á hana fyrr en hún fer að valda skaða. Fjöldi hennar getur verið misjafn milli ára og svo er að sjá sem þar ráði veðurfar og náttúrulegir afræningjar mestu. Segja má að tjónið, sem lúsin veldur, sé af tvennum toga. Í fyrsta lagi „stelur hún sykri úr barrnálunum sem tréð hefur haft fyrir að ná í. Þetta tjón er þó ekki mikið en þegar mikið er um lúsina tapar tréð töluverðri næringu og getur það haft áhrif á vöxt og þrif þeirra trjáa sem fyrir þessu verða. Hitt tjónið er þó alvarlegra. Barrnálarnar sem lýsnar leggjast á geta drepist. Dauðar barrnálar geta ekki ljóstillífað. Þetta gerir þó ekki mikið til ef aðeins fáar barrnálar drepast en margar lýs geta drepið enn fleiri nálar. Á meðan trén eru að endurnýja nálarnar geta þau verið ljót og vaxa að auki mjög lítið. Í verstu tilfellum getur þetta jafnvel drepið trén.

Bústin og pattaraleg sitkalús með sín rauðu augu. Mynd: Edda Sigurdís Oddsdóttir.
Bústin og pattaraleg sitkalús með sín rauðu augu. Mynd: Edda Sigurdís Oddsdóttir.

Fyrstu einkenni um sitkalýs í grenitrjám eru gular þverrákir á nálum nálægt stofni. Svo gulna þær alveg, verða stundum brúnar, drepast og falla af. Skærgular eða brúnar nálar á grænum sprota innarlega í trjákrónu er merki um sitkalús. Ef mergð lúsa er mikil getur þetta valdið miklu tjóni, enda er fjöldi skemmdra og dauðra nála háður fjölda lúsa.

Stórskemmt sitkagrenitré á Oddeyrinni á Akureyri sem orðið hefur sitkalúsum að bráð. Hvað ætli þurfi margar lýs til að fara svona með eitt, stæðilegt tré? Í bakgrunni má sjá greni sem virðist hafa alveg sloppið. Mynd: Bergsveinn Þórsson árið 2007.
Stórskemmt sitkagrenitré á Oddeyrinni á Akureyri sem orðið hefur sitkalúsum að bráð. Hvað ætli þurfi margar lýs til að fara svona með eitt, stæðilegt tré? Í bakgrunni má sjá greni sem virðist hafa alveg sloppið. Mynd: Bergsveinn Þórsson árið 2007.

Meira á vef Skógræktarfélagsins.

Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga.

  • Smellið hér til að sjá allan pistilinn

Hernámsárin ljóslifandi og kómísk í Freyvangi

Rakel Hinriksdóttir skrifar
03. mars 2025 | kl. 17:00

KEA

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
03. mars 2025 | kl. 11:30

Brúsaburður

Jóhann Árelíuz skrifar
02. mars 2025 | kl. 15:15

Forboðnir ávextir, æsingur og æðibunugangur á Melum

Rakel Hinriksdóttir skrifar
02. mars 2025 | kl. 10:00

Síðbuxur

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
28. febrúar 2025 | kl. 06:00

Næfurhlynur – Tegund í útrýmingarhættu

Sigurður Arnarson skrifar
26. febrúar 2025 | kl. 13:00