Fara í efni
Pistlar

Kaupfélag verkamanna

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 44

Í familíu minni á Syðri-Brekkunni var alltaf talsverð taug til Kaupfélags verkamanna. Þótt hitt væri vitaskuld altalað og yfirlýst að ættin væri KEA-gerðarinnar í beini bæði og vöðvum. En þar væri flokkshollustan komin, því ef það fengist ekki í þeirri búðinni, þyrfti maður ekki á því að halda. KEA væri leiðarljósið og lífið.

En mamma var umfram allt praktísk. Hún þurfti að afla fanga. Húsmóðir af hæsta móð. Og vanalega var engin karllæg pólitík að þvælast fyrir henni í innkaupunum. Það væri bara einfaldast að halda stystu leið. Og kaupa það sem hendi væri næst.

Svo ég var stundum sendur, varla metraður í hæðinni, niður í Kaupfélag verkamanna í sunnanverðum Byggðaveginum. Það var minnsta búðin í bænum. Ekkert meira en einfaldur bílskúrinn sem hékk utan í einhverju þríbýli í austanverðri götunni – og var, þegar inn var komið, innantroðinn og uppfullur af allra handa dagvöru og nýlenduvarningi í notalegri bland.

Má heita að verslunin sú arna hafi verið helmingi stærri að innan en utan.

En þetta voru verslunarferðir. Opinberar og nokkuð umleikis. Svo alvarlegar raunar að allt var skrifað niður á miða. En ég skyldi fylla flöskugrindina af einum kvartpotti af rjóma, tveimur hálfpottum af undanrennu og þremur fullpottum af mjólk, en passa að tapparnir væru fullfastir á öllum flöskunum. Því annað væri fals.

Og svo ætti ég að taka með mér bæði brauðin, normal og rúg, en þau ættu að vera innpökkuð í smjörpappír, ekki gömul dagblöð, því af þeim væri lykt.

Og med det samme gekk maður heim á leið með grindina í annarri og netapokann í hinni.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Pistlar hans um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar birtast alla mánudaga á Akureyri.net.

  • Í NÆSTU VIKU: SKEMMAN

Trjárækt nyrðra á 19. öld

Sigurður Arnarson skrifar
01. janúar 2025 | kl. 13:00

Áramótahugleiðingar um list, eldri konur og karlakóra

Rakel Hinriksdóttir skrifar
01. janúar 2025 | kl. 06:00

Prentvillupúkinn leikur lausum hala

Haraldur Ingólfsson skrifar
31. desember 2024 | kl. 20:00

Sviðnir leggir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
30. desember 2024 | kl. 11:30

Snjóavetur

Jóhann Árelíuz skrifar
29. desember 2024 | kl. 06:00

Liðið sem aldrei lék heimaleik

Orri Páll Ormarsson skrifar
27. desember 2024 | kl. 13:00