Fara í efni
Umræðan

Karlar sem líta niður á konur

„Af hverju læturðu ekki kellinguna gera þetta?“

Þessi spurning kom frá 8 ára gutta sem horfði á mig labba út á þvottasnúru árið 1998. Ég stoppaði og horfði á hann, mér fannst þetta fyndið en fór svo að hugsa um þetta. Velti fyrir mér hvort þess kynslóð myndi vera svona og hvort æskan á þeim tíma myndi ekki vera betri en við í þessu sem svo mörgu öðru.

Það þótti alveg rosalega fyndið og stórskrítið þegar ég var heima að brjóta saman þvott og konan mín var með pabba sínum að gera við bílinn okkar. Við erum að tala um fyrir svona 30 árum. Eða fyrir 25 árum, þegar börnin mín voru með heimabakað brauð og spurt var: „bakaði mamma þín þetta?“ En svarið var; „nei pabbi bakaði þetta.“

Þau fengu skilaboðin, mamma á að vera í eldhúsinu og pabbi úti í bílskúr að gera við bílinn enda fær hann bók en hún fær nál og tvinna og svo prjóna gamlar konur sokka en karlar taka í nefið áður en þeir snúa sér í hring ... atsjú!

Mér fannst ofsalega fyndið fyrir svona þrjátíu árum þegar einhver krakki var að leika í áramótaskaupinu og sketsinn snérist um að krakkinn var spurður út í stjórnmál. Man þetta ekki fullkomlega en það var örugglega spurt; hver er fjármálaráðherra? Hann svaraði með því að telja upp nöfn nokkura karla en stoppaði svo við og sagði, „nei heyrðu, er það ekki kellingin!?“ Kallarnir höfðu nöfn, svo var það kellingin.

Já, talandi um áramótaskaup. Vantaði ekki að setja sketsinn um leikstjórann og framleiðandann inn í skaupið? Eða var það kannski virkilega ekki grín að framleiðandi ætlaði að valta yfir leikstjórann af því að hann er karl en hún er kona? Konur eiga jú ekki að ráða, þær baka brauð og fara út með þvottinn! Við karlarnir (lesist með djúpri röddu) gerum við bíla, lyftum þungu og pössum að þær eyði ekki öllum péningunum!!

Er þetta ekki smá skrítið? Þó skil ég að karl sem skrifar um unga konu í pólitík megi slá upp fyrirsögninni um ótímabært sáðlát og ég skil vel að fólk sé á móti því að konur dæmi handboltaleiki ... SAGÐI ENGINN - ALDREI!

Það er nú þetta þrennt sem fær mig til að skrifa þetta og rifja upp karla og kerlingastörf í gegnum tíðina.

Hægjum aðeins á myndinni.

Karlar geta bakað brauð og skúrað gólf. Satt að segja finnst mér það bara fínt annað slagið og ég er ekki með píku þó ég hafi verið spurður að því.

Konur geta líka bakað brauð og skúrað en þær geta líka til dæmis blásið í flautu. Þær geta líka hlaupið og tekið upp spjald og bara haft dómgreind... og já það má segja þeim fjárhagsáætlun þegar til dæmis er verið að framleiða áramótaskaup því þær eru ágætar með peninga.

Í þessum vangaveltum um karla og konur eða kalla og kellingar, eins og ég skrifa það, þá er ég ekki einu sinni kominn svo langt að tala um fleiri kyn, sennilega af því ég er pínu gamaldags og þarf að gæta að því.

En kæri lesandi, þetta er þá einhvern veginn svona:

Öll kyn geta blásið í flautu, eiga virðingu skilið í greinarskrifum, geta skúrað gólf, bakað brauð, sýslað með peninga, prjónað sokka og tekið í nefið en það síðastnefnda er bara svo óhollt … og það fer heldur ekki í kyngreiningarálit.

Pétur Guðjónsson er viðburðastjóri og leikstjóri.

Valdið til fólksins – lykillinn að sterkara þjóðfélagi

Theodór Ingi Ólafsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 12:00

Félagshyggja hvað er nú það?

Haraldur Ingi Haraldsson skrifar
27. nóvember 2024 | kl. 09:19

Blórabögglar og gylliboð frá vinstri

Njáll Trausti Friðbertsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 20:00

Lykill að áframhaldandi velgengni

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 18:50

Eflum löggæslu

Grímur Grímsson skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 17:30

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Anna Júlíusdóttir skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 10:45