Fara í efni
Umræðan

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Ég þakka Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra fyrir svar hennar við grein minni um gjaldskrárhækkanir Akureyrarbæjar og Norðurorku. Ég skil vel þær áskoranir sem bæjarfélagið stendur frammi fyrir. Rekstur sveitarfélags er flókið verkefni þar sem þarf að samræma fjölbreytt sjónarmið og tryggja sjálfbærni í rekstri til lengri tíma.

Því miður er ég ekki sátt við þau svör sem bæjarstjóri setur fram, þrátt fyrir að ég skilji ágætlega þau sjónarmið sem þar koma fram. Sérstaklega er athyglisvert að bæjarstjóri vísar ábyrgð á gjaldskrárhækkunum Norðurorku frá sér og segir það vera í höndum stjórnenda fyrirtækisins að svara fyrir þær. Akureyrarbær á rúmlega 98% hlut í Norðurorku og því erfitt að sjá hvernig hægt er að aðskilja ábyrgð með þessum hætti.

Til að setja þessar hækkanir í samhengi er vert að minna á samningsbundnar launahækkanir samkvæmt nýgerðum kjarasamningum:

  • 1. apríl 2024: 23.750 kr. (að lágmarki 3,25%)
  • 1. apríl 2025: 23.750 kr. (að lágmarki 3,5%)
  • 1. apríl 2026: 23.750 kr. (að lágmarki 3,5%)
  • 1. apríl 2027: 23.750 kr. (að lágmarki 3,5%)

Þessar hóflegu hækkanir voru samþykktar af verkalýðshreyfingunni í þágu stöðugleika. Því er erfitt að réttlæta gjaldskrárhækkanir sem eru margfalt hærri en þau viðmið sem samið var um.

Varðandi sorphirðugjöldin þá erum við öll sammála um mikilvægi umhverfisverndar og nauðsyn þess að bæta flokkun sorps. En umhverfismál eru samfélagslegt verkefni sem krefst víðtækrar sáttar og sameiginlegs átaks. Við verðum að spyrja okkur hvort skynsamlegt sé að leggja svona þungar byrðar á heimilin í nafni umhverfisaðgerða sem margt fólk sér jafnvel ekki beinan ávinning af. Fyrir margar fjölskyldur mun heildarkostnaður við sorphirðu hækka verulega, og þó kerfisbreytingin kunni að vera æskileg til lengri tíma, þarf að finna leiðir til að innleiða hana án þess að skaða fjárhag heimila sem nú þegar eiga í erfiðleikum með að láta enda ná saman.

Verðbólga fer lækkandi og það er sannarlega fagnaðarefni sem sýnir að samstillt átak getur skilað árangri. En einmitt þess vegna er svo mikilvægt að halda rétt á spilunum núna. Stöðugleika er ekki náð og launafólk á ekki eitt að taka ábyrgð, ef við ætlum að ná varanlegum árangri í baráttunni við verðbólgu þurfa allir að halda áfram á sömu braut - sérstaklega opinberir aðilar.

Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að byggja upp öflugt og sjálfbært samfélag á Akureyri. Til þess þurfum við bæði sterkt sveitarfélag og atvinnulíf. Við þurfum líka að gæta þess að kostnaðarhækkanir íþyngi ekki heimilum um of, sérstaklega ekki á tímum þegar við erum að reyna að ná tökum á efnahagsmálum.

Með því að vinna að lausnum, með hagsmuni alls samfélagsins að leiðarljósi, getum við náð þeim efnahagslega stöðugleika sem við öll sækjumst eftir. Það gerist aðeins ef við stöndum öll við okkar hluta samkomulagsins og sýnum í verki að við treystum hvert öðru til góðra verka.

Anna Júlíusdóttir er formaður Einingar-Iðju

Bæjarfulltrúar, hugsið málið

Jón Ingi Cæsarsson skrifar
21. desember 2024 | kl. 06:00

Jólagjöfin handa tónlistarskólanum

Ólafur Kjartansson skrifar
20. desember 2024 | kl. 06:00

Fögur fyrirheit en fátt um efndir

Sunna Hlín Jóhannesdóttir skrifar
19. desember 2024 | kl. 10:00

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:10

Stórhættulegt fordæmi að viðurkenna ekki úrslit kosninga

Stjórnarskrárfélagið skrifar
06. desember 2024 | kl. 12:00

Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta og létta byrði

Jens Garðar Helgason skrifar
29. nóvember 2024 | kl. 06:00