Fara í efni
Pistlar

Hvar fær maður svona engisprettu?

LEIKHÚSFlest þekkjum við söguna um spýtustrákinn Gosa, sem lifnar við eftir stutt en viðburðarríkt líf sem brúða. Það er að öllum líkindum Disney að þakka að við þekkjum Gosa svona vel, en teiknimyndin um hann kom út árið 1940. Sagan er ítölsk, en það var Carlo Colloti sem samdi söguna fyrir börn árið 1883, þar var Gosi reyndar töluvert meiri prakkari en hjá Walt Disney. Nú er þessi gamla ítalska saga komin alla leið til Akureyrar, á fjalir Hamraborgar í Hofi, og það er LMA, Leikfélag Menntaskólans á Akureyri sem glæðir Gosa og vini hans lífi í þetta sinn. 

Það er leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, Marta Nordal, sem leikstýrir krökkunum. Þar er mikill reynslubolti á ferð og það er mikill fagmennskubragur á sýningunni. Ég segi það einfaldlega strax, að ég var heilluð af verkinu hjá LMA. Mér leið eins og í atvinnuleikhúsi, en ekki sýningu hjá nemendum í menntaskóla sem þurfa líka að sinna krefjandi námi og öllu öðru sem fylgir því að vera unglingur á sama tíma og þau töfra fram glæsilega leiksýningu. Nú rennur upp síðasta sýningarhelgin, og ég mæli heilshugar með því að nýta tækifærið.

Sviðið er stórt og leikmyndin er nett, en það er ævintýralegur blær yfir öllu. Einhver samblanda af ljósum, hangandi skrauti úr loftinu og tónlist getur sent mann hvert á land sem er - jafnvel neðansjávar. Nokkrir hlutir eru drifnir inn á sviðið í flestum senum, og aldrei er það yfirdrifið, hver hlutur hefur tilgang og ímyndunaraflið sér um rest. Sérstaklega þótti mér leikmyndin eftirminnileg í stórundarlegu atriði þar sem brjálaður maður ætlar að stela hópi barna og fara með þau á skipi til ævintýralands þar sem þú mátt borða nammi alla daga. Skipið, stóra nammið og búningarnir voru frábær. 

Það er reyndar mjög erfitt að velja atriði sem standa upp úr. Búningarnir voru flottir, og það væri fróðlegt að vita hversu marga slíka búningateymið galdraði fram, vegna þess að sífellt var maður kominn í nýjan heim með nýju fólki. Það hlýtur svo að vera dans á stundarskránni í Menntaskólanum vegna þess að það virðist vera að allir séu atvinnudansarar. Danshópurinn heillaði mig alveg í hvert skipti sem þær stigu á sviðið, en tónlistin er eiginlega rósin í hnappagatinu á þessari sýningu. 

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson er tónlistarstjóri, en svo vill nú til að hann samdi líka tónlistina í verkið þegar það var frumsýnt í Borgarleikhúsinu árið 2007, skrifað af Karli Ágústi Úlfssyni. Það virðist svo vera að Menntaskólinn á Akureyri sé fjársjóðskista af hæfileikaríku fólki, vegna þess að tónlistin er flutt með glæsibrag af hljóðfæraleikurum úr skólanum og söngvararnir sem leika í sýningunni skila söngnum til áhorfenda eins og þau hafi bókstaflega aldrei gert annað. 

Leikararnir eru ekki bara flink að syngja, þau eru líka mjög sannfærandi í hlutverkum sínum, öll með tölu. Mest mæðir á Elínu Birnu Gunnlaugsdóttur í hlutverki Gosa, Ingu Rós Suska Hauksdóttur sem engisprettan og samviskan Tumi og Hákoni Snorra Rúnarssyni sem leikfangasmiðurinn hógværi, Jakob. Þau eru öll frábær. Í einu orði sagt. Oft eru það karakterarnir sem eru „vondir“, sem færa áhorfendum mestu kómíkina, og það á svo sannarlega við hér. Lóra og Skolli eru undarleg tvenna sem dúkka upp reglulega og afvegaleiða Gosa. Þau eru augljóslega frekar siðlaus og tækifærissinnar með meiru, en stórkostlega fyndin. María Sóllilja Víðisdóttir og Þórhallur Arnórsson leika þau af mikilli snilld. 

Það eru hátt í 90 nemendur úr skólanum sem taka þátt, hvort sem það er á sviði eða utan þess. Allir fengu að koma upp á svið í lokin, hver hópurinn á fætur öðrum og það lá alveg hnausþykkt í loftinu, hvað nemendurnir höfðu lagt mikið á sig og hvað þau voru sjálf stolt og ánægð. Fagfólkið Marta Nordal og Þorvaldur Bjarni leiða þennan hæfileikaríka hóp og útkoman er stórglæsileg sýning þar sem allt smellur saman. 

Gosi þarf að læra að haga sér vel, hætta að ljúga og skilja tilfinningarnar sínar til þess að fá að verða alvöru drengur. Það sem situr eftir hjá mér, eftir sýninguna, eru vangaveltur um tilfinningagreind. Að skilja hvað það er sem hellist yfir mann hverju sinni og læra að takast á við það. Láta það ekki hlaupa með mann í gönur, eða að lyklaborðinu og kommentakerfinu. Ef út í það er farið, þá erum við sennilega spýtukarlar sjálf, oft á tíðum. Hvar fær maður svona engisprettu?

Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á Akureyri.net

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30

Af dægurlagatextum

Skapti Hallgrímsson skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 08:00

Lofsöngur verður til

Kristín Þóra Kjartansdóttir skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 18:00

Kvöldleikir

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
18. nóvember 2024 | kl. 11:30

Glataði sonurinn

Jóhann Árelíuz skrifar
17. nóvember 2024 | kl. 11:00