Fara í efni
Pistlar

Hryllilega skemmtileg hryllingsbúð

LEIKHÚSSamkomuhúsið hefur um stundarsakir verið dregið niður í ræsið og breytt í subbuhverfið Skítþró, en það er sögusvið Litlu hryllingsbúðarinnar. Þar getur allt gerst, og í Blómabúð Markúsar hefst ótrúleg atburðarás sem mun hafa áhrif á mannkynið allt. Plöntusalinn Baldur lifir fyrir blómin, og hefur sérstakt dálæti á skrítnum og óvenjulegum plöntum. Eftir dularfullan sólmyrkva áskotnast honum ein slík – og hún er svo óvenjuleg, að hún finnst hvergi í uppflettiritum um flóru jarðarinnar. Baldur nefnir plöntuna í höfuðið á stúlkunni sem hann elskar; hinni fögru en ógæfusömu Auði. 

Plantan Auður II er fyrst um sinn lítil og krúttleg, minnir kannski helst á flugnaætublóm með dulítinn tenntan kjaft. En Auður II borðar ekki flugur. Fljótlega kemst Baldur að því, að það eina sem hún vill, er mannablóð. Þannig upphefst rússíbanareið þar sem frægð og frami, ástarævintýri og blóðug morð koma við sögu.

Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikur tannlækninn á mjög eftirminnilegan hátt, segir Rakel Hinriksdóttir. „Atriðið þar sem tannsi hefur náð aumingja Baldri í tannlæknastólinn er frábært, þar sem Ólafía Hrönn og Króli eiga mjög kómískan samleik.“ Myndir: Auðunn Níelsson

Sagan um Litlu hryllingsbúðina kom fyrst fram á sjónarsviðið árið 1960, sem kvikmyndin Little Shop of Horrors. Það var Charles B. Griffith sem skrifaði handritið og Roger Corman leikstýrði. Ætlunin var að búa til kómíska hryllingsmynd, og var framleiðsla myndarinnar mjög ódýr. Hún náði þó athygli og það skapaðist svolítill költ-fílíngur í kring um myndina. Árið 1982 gerðu Alan Menken og Howard Ashman söngleik eftir myndinni, sem var sýndur off-Broadway í New York, og árið 1986 var kvikmyndin endurgerð. Sú mynd náði miklum vinsældum og síðan hefur sagan um hinn seinheppna plöntusala og morðóða pottablómið Auði náð mikilli útbreiðslu. 

Leikfélag Akureyrar hefur nú tekið að sér að færa Norðlendingum Skítþró og allt mannablóðið á fjalir Samkomuhússins. Undirrituð fór á síðustu æfingu fyrir frumsýningu og skemmst er frá að segja að verkið er frábær skemmtun. Það var mikið hlegið og sviðsetningin frábær. Blómabúð Markúsar birtist áhorfendum ljóslifandi, með öllum sínum hasar og dramatík. Tónlistin er eitt af burðarstykkjum sýningarinnar, en lögin eru mörg hver vel þekkt og það er gaman að fá að sjá glitta í hljómsveitina í hliðarhúsi við blómabúðina. Það gefur aðeins auka að vita og sjá, að undirleikurinn er lifandi. Lögin og bakgrunnstónlistin eru öll vel flutt og söngurinn góður.

Fjórar stúlkur syngja og dansa meira og minna alla sýninguna. Þær skipta ört um búninga og stundum fara þær í önnur aukahlutverk. Það eru þær Jónína Björt Gunnarsdóttir, Katrín Mist Haraldsdóttir, Urður Bergsdóttir og Þórey Birgisdóttir sem leika dömurnar fjórar og þær eru mjög skemmtilegar á sviðinu. Orkumiklar og sannfærandi sem fulltrúar úthverfahyskis Skítþróar og sögumanna. 

Verkið ber öll einkenni farsa, þar sem atburðarrásin er hröð og æsingurinn oft á tíðum mikill. Persónurnar eru mjög ýktar, stundum minna þær næstum því á teiknimyndafígúrur. Leikararnir eru öll mjög flott í sínum hlutverkum, fyrst vil ég nefna Kristinn Óla, 'Króla', sem er alveg frábær sem taugaveiklaði blómálfurinn Baldur. Samskipti hans og Auðar II, sem er snilldarlega leikin af Jenný Láru Arnórsdóttur (sem er innan í plöntunni) og leikstjóranum Bergi Þór Ingólfssyni, sem ljær henni rödd, eru kostuleg. Króli er líka frábær söngvari og áhorfendur fá að njóta þess í sýningunni. 

Arnþór Þórsteinsson er flottur og sannfærandi sem blómabúðareigandinn Markús, sem reynist vera frekar lélegur pappír og tækifærissinni. Undirrituð sá Arnþór í hlutverki Baldurs í uppfærslu Leikfélags Húsavíkur af Hryllingsbúðinni fyrir nokkrum árum, og gaman að sjá hann takast á við næsta hlutverk. Hér með skora ég á hann að leika tannlækninn næst!

Ofbeldi er plássfrekt þema í sögunni, en blómarósin Auður á vægast sagt ömurlegan kærasta, tannlækninn, sem ber hana sundur og saman og kallar hana öllum illum nöfnum. Það er Ólafía Hrönn Jónsdóttir sem leikur tannlækninn á mjög eftirminnilegan hátt. Atriðið þar sem tannsi hefur náð aumingja Baldri í tannlæknastólinn er frábært, þar sem Ólafía Hrönn og Króli eiga mjög kómískan samleik. 

Auður er mikilvægur örlagavaldur í sögunni, aðalkvenhlutverkið, draumastúlka Baldurs og fórnarlamb tannlæknisins. Allt sem Baldur gerir, er til þess að freista þess að ganga í augun á henni. Það er ung leikkona, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, sem leikur Auði. Birta hefur frábæra söngrödd og gerir Auði góð skil. Lögin sem hún syngur bjóða upp á gæsahúð fyrir allan peninginn.

Það eina sem truflaði mig við verkið, var karakter Auðar. Hún minnti mig stundum á barbídúkku eða brúðu, eins og hún hefði ekkert fram að færa nema útlitið. Það er bersýnilegt að persónan Auður hefur verið margbrotin í gegn um lífið, hún lýsir því á einum stað í verkinu, þar sem áhorfendur fá loksins innsýn í fortíð hennar. Birta gerir vel í að sýna Auði sem konu með brotna sjálfsmynd, sem reynir í sífellu að halda andliti, en þetta er vandmeðfarið. Áhorfendur fá að sjá tannlækninn beita hana ofbeldi með ljótu orðbragði, sem fléttast inn í atriði sem eru í grunninn mjög fyndin. Stundum er erfitt að átta sig á því hvort maður ætti að hlæja eða gráta. 

Svo má ekki gleyma að dýpt persónanna er kannski ekki ýkja mikil, og eins og áður sagði minna þær stundum á teiknimyndapersónur og eru mjög ýktar sem slíkar. Það er allt með vilja gert og leikararnir skila því vel. Ofbeldið í sýningunni, fyrir utan það er snýr að plöntunni, er engu að síður umhugsunarvert og vekur upp spurningar. Svo er það hugmyndin um frægð mannanna, og það hve sumt fólk er tilbúið að ganga langt fyrir athygli og frægð. Hinn veikgeðja Baldur missir sig alveg inn í svartnættið þegar hann fær í fyrsta skipti á ævinni að njóta frægðar og frama. 

Að lokum má hiklaust hrósa Sigríði Sunnu Reynisdóttur, leikmyndahönnuði, en það er engin Hryllingsbúð án Auðar II. Það getur ekki hver sem er hrist risastórt mannætublóm fram úr erminni, en Auður II er stórkostleg hjá Sunnu, Pilkington props og þeim góða hópi sem aðstoðar þau. Hún birtist fyrst sem pínulítið og sætt pottablóm sem hreyfist lítið sem ekkert. Næst þegar við sjáum hana er hún búin að stækka verulega og undirrituð er ennþá að klóra sér í höfðinu yfir því hvernig hún hreyfði sig. Baldur er með hana í fanginu, og hún reygir og teygir höfuðið og ginið um allt án þess að auðveldlega sjáist hvernig það er gert. Þegar Auður II hefur svo náð fullri stærð er hún snilldarleg og ógnvænleg, nógu stór til þess að Jenný Lára Arnórsdóttir geti staðið inn í henni og stjórnað henni. Og það sem mikilvægara er, nógu stór til þess að gleypa fullvaxið mannfólk í einum bita. 

Að lokum er vert að minnast á að miðasalan skotgengur og það er ekki mælt með að fólk bíði með að festa kaup á miðum, ef ætlunin er að fara í leikhús. Líkurnar á að sýningum verði fjölgað eru jafnmiklar og á því að þú verðir étinn af pottaplöntu. 

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00

Helgiþinur og leyndarmálið sem hann geymir

Sigurður Arnarson skrifar
18. desember 2024 | kl. 13:00

Búrið

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
16. desember 2024 | kl. 11:30

Innilaugin

Jóhann Árelíuz skrifar
15. desember 2024 | kl. 06:00

Vikið frá ófrávíkjanlegri reglu

Orri Páll Ormarsson skrifar
13. desember 2024 | kl. 10:30

Kaniltré

Sigurður Arnarson skrifar
11. desember 2024 | kl. 09:00